Herfylkingin

From Heimaslóð
Revision as of 13:30, 10 June 2005 by Daniel (talk | contribs)
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to: navigation, search

Árið 1853, kom hingað til Vestmannaeyja nýr sýslumaður, danskur að ætt og uppruna. Hét maðurinn Andreas August von Kohl , venjulega nefndur kapteinn Kohl á meðal eyjaskeggja, því hann hafði kapteinsnafnbót úr danska hernum.

Von Kohl varð snemma ljóst, að í Vestmannaeyjum væri grundvöllur fyrir því að stofna varnarsveit hers heimamanna, þar sem hér eimdi ennþá eftir af ótta fólks við sjóræningja, einkum Tyrki. Eyjamönnum stóð ótti og stuggur af erlendum skipum, sem sást til úr Eyjum, enda engin lögregla eða yfirvald á staðnum sem hægt var að treysta á. Eyjamenn urðu því að treysta á sig sjálfa, og fékk hugmynd um stofnun herfylkingar hinar bestu undirtektir.

Nokkur ár tók þó að skipuleggja þennan fyrsta og eina her sem Íslendingar hafa átt, og var hann fyllilega kominn á stofn 1857.


Skipulag hersins

Kohl skipulagði herfylkinguna á sama hátt og tíðkaðist með venjulega heri í Evrópu á þessum tíma. Skipti hann liðsmönnum í 4 deildir, en einnig voru tvær drengjadeildir fyrir drengi á aldrinum 8 - 16 ára.

Skipað í stöður

Mönnum var svo skipað í margs konar virðingarstöður, þar sem fylkingarstjóri var að sjálfsögðu kafteinn Kohl sem æðsti yfirmaður hersins. Hafði hann undir sinni stjórn liðsforingja, yfirflokksforingja (commandör sergeant), deildarforingja (sergeanter), flokksforingja og undirforingja, sem voru settir yfir aðra liðsmenn. Þá var ennfremur fánaberi og bumbuslagari í herfylkingunni, eins og í öllum almennilegum herjum.

Liðsmenn voru allir skyldir til að lúta heraga og hlýða kalli, hvenær sem boðið var. Þá var þeim og skylt að sýna yfirmanni sínum tregðulausa hlýðni og hugsa vel um vopn sín og verjur.

Vopn og búnaður

Fyrst í stað varð hluti herfylkingarinnar að notast við trévopn, en Kohl tóks innan fárra ára að afla henni af miklum dugnaði 60 fótgönguliðsbyssur, riffla með stingjum, auk ýmissa annarra áhalda svo sem sérstakan herfána, sem notaður var, er hermennirnir voru kvaddir saman. Var fáni þessi hvítur með tveimur krosslögðum borðum.

Engir sérstakir einkennisbúningar voru í eigu óbreyttra liðsmanna, en allir báru þeir einkennishúfu með rauðri doppu fyrir ofan skyggnið.