Ginklofi

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 24. júní 2005 kl. 13:07 eftir Smari (spjall | framlög) Útgáfa frá 24. júní 2005 kl. 13:07 eftir Smari (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Ginklofi, sem nú er nefndur stífkrampi (Tetanus neonatorum), var landlægur um aldir og barnadauði af hans völdum óhugnanlega mikill í Vestmannaeyjum. Af 330 börnum fæddum í Vestmannaeyjum á árunum 1817-1842 dóu 244 á fyrsta ári. Orsök veikinnar var talin að þvottur var lagður til þerris á jörðina og barst sýkillinn sem orsakaði Ginklofann þannig úr jörðinni í naflabindi barna og þaðan í naflastrenginn.

Vigdís Guðmundsdóttir húsfreyja á Vilborgarstöðum eignaðist 18 börn. En þegar hún andaðist 1854, 73 ára átti hún 12 eða 13 barnsleiði í Landakirkjugarði.

Þessi plága var viðvarandi í Vestmannaeyjum þar til um miðja 19. öld, þegar að ungur danskur læknir, Peter Anton Schleisner, lagði sig í það að reyna að útrýma þessum sjúkdómi. Schleisner byrjaði á því að koma upp fæðingarstofnun nokkurskonar, sem kölluð var „Stiftelsen“. Eingöngu átta konur ólu börn þar, en 23 börn voru lögð þar inn fyrsta árið.

Þar sem að talið var að veikin tengdist nafla barnanna voru miklar ráðstafannir gegn sýkingum þar. Strangar hreinlætisráðstafannir voru viðhafðar og notað var sérstaka naflaolíu — kópaivabalsam (Balsamum copaiba) — sem var borin á naflasárin daglega. Einnig var gripið til þess ráðs að leggja til nýtt mataræði, þar sem að fuglakjöt var stranglega bannað. Þetta skilaði það miklum árangri að Schleisner hélt heim til Danmerkur eftir 9 mánaða dvöl í Vestmannaeyjum, ómeðvitaður um það að allt myndi færast í sitt fyrra horf án stofnunarinnar hans.

Aðeins ströng aðgæsla við naflasárið með notkun kópaívabalsams hélt áfram og þannig var ginklofaplágunni haldið í lágmarki. Schleisner virðist ekki hafa gert sér grein fyrir möguleikum á meðferð án „stofnunarinnar“.“ (Eyjaskinna, fylgirit III)

Aðstæðurnar slæmar

Á þessum tímum var fátækt og örbirgð mikil, húsakynni þröng og óvistleg. Forir voru undir húsveggjum, brennt var þurrkuðum fiskbeinum með vondum fnyk. Þótti mesta furða hvað mannfólkið hélt þó vel heilsu í þessum ömurlegu vistarverum. Vatnsskortur var almennur og óhreinindi runnu í vatnsbólin og skepnur gengu í Vilpu og Tjörnina og drukku. Nýmeti var oft af skornum skammti og ekki furða þótt viðloðandi væru hörgulsjúkdómar svo sem skyrbjúgur og beinkröm.

Frydendal notað sem sjúkrahús

Ekkert sjúkrahús var þá í Vestmannaeyjum, en árið 1837 settist þar að danskur skipstjóri að nafni Erikcsen. Kona hans hét Anne Johanne. Þau byggðu húsið Frydendal. Anne Johanne var að sögn glaðvær kona og dugnaðarforkur. Læknir staðarins fékk að leggja sjúklinga inn í Frydendal og var það oft notað sem sjúkrahús. Fengu sjúklingar þá góða umönnun hjá Anne Johanne. Eftir lát manns síns giftist Anne Jóhanne dönskum manni að nafni Roed og var eftir það alltaf kölluð madama Roed. Hún rak veitnagahús í Frydendal. Leifar Frydendal, þess stóra íbúðarhúss var verslunarhúsið Bjarmi sem stóð við Miðstræti.

Madame Roed flutti með sér ýmsa nýja siði. Hún kenndi Vestmannaeyingum að rækta kartöflur, sem varð til þess að seinna voru kartöflur ræktaðar við hvern bæ og brugðust sjaldan. Þá var mikið af kálgörðum í sandinum inn í Botni þar sem nú er Friðarhöfn. Síðar varð mikil garðrækt í Hrauninu fram af Herjólfsdal, svæði sem eftir Heimaeyjargosið var skipulagt undir ný íbúðarhúsahverfi. Kartöflur voru settar niður 20. maí ár hvert. Mikil vinna var við garðana og tók öll fjölskyldan þátt í þeim störfum. Börnunum þótti það sérstök skemmtun og tilbreyting þegar farið var í kálgarða í Botninum.