Dvergasteinn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.
Dvergasteinn

Húsið Dvergasteinn (áður Brandshús) stóð við Heimagötu 7a. Það hýsti Barnaskóla Vestmannaeyja á árunum 1884-1904 og var því jafnan kallað Gamla skólahúsið. Barnaskólinn var þar starfræktur í 20 ár. Meðan hann var aðeins í einni deild, var kennt á aðalhæð hússins. Aagaard sýslumaður geymdi svo skjalasafn síns embættis í risi hússins. Þar lá það á gólfinu og nemendur Barnaskólans léku sér gjarnan með það. Fljótlega kom þó í ljós að mikill músagangur var í húsinu. Þar sem lítið matarkyns fannst í húsinu þá nöguðu mýsnar jafnan pappíra skjalasafnsins. Eftir að Eiríkur Ögmundsson flutti húsið nefndi hann það Dvergastein, eftir Dvergasteini við Seyðisfjörð.

Árið 1906 stofnsetti Edvard Fredriksen bakarí í húsinu. Ekki var bakaríið langlíft í húsinu því einungis eftir fjögurra mánaða bakstur kviknaði í því og það brann nokkuð. Allt sem brann var óvátryggt og því var bakaríið ekki starfrækt lengur, uppbygging þótti ekki borga sig.

Árið 1907 bjuggu í Dvergasteini hjónin Magnús Árnason og Ingigerður Bjarnadóttir sem síðar byggðu og bjuggu á Lágafelli (Vestmannabraut 10) í tugi ára.

Dvergasteinn.

Árið 1908 flytja til Eyja hjónin Guðmundur Magnússon og Helga Jónsdóttir, sem síðar byggðu Goðaland á Flötum (Flatir 16). Þau hjón keyptu Dvergastein og bjuggu þar í þrjú ár.

Þann 27. júlí 1911 kaupir Magnús Jónsson frá Minni-Borg undir Eyjafjöllum Dvergastein. Hann og kona hans, Guðrún Jónsdóttir, bjuggu í húsinu í 5 ár.

Þann 15. júlí 1916 keyptu hjónin Eiríkur Ögmundsson og Júlía Sigurðardóttir húsið og bjuggu þau þar í tugi ára. Uppgefið kaupverð var þá 2000 krónur.

Þegar gaus bjuggu í húsinu Gunnar Eiríksson og móðir hans Júlía Sigurðardóttir.

Dvergasteinn var hlaðinn úr móbergi úr Heimakletti árið 1883 og voru steinarnir límdir saman með kalki. Húsið fór undir hraun í gosinu, líklega þann 26. mars, en þá fóru mörg hús í nágrenninu undir hraunflæðið, t.d. húsin Godthaab, Brydehus og gamla sundlaugin.


Heimildir