Blik 1969/Vesturhúsafeðgarnir

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 8. ágúst 2007 kl. 15:53 eftir Daniel (spjall | framlög) Útgáfa frá 8. ágúst 2007 kl. 15:53 eftir Daniel (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

I. Guðmundur Þórarinsson

Við skulum hvarfla huga að bænum Ey í Landeyjum. Á áratugunum fyrir miðja 19. öldina búa þar hjónin Jón Jónsson og Ólöf Jónsdóttir. Þau eiga að minnsta kosti 4 börn. Elzt þeirra er Jón, fæddur 1810 eða þar um bil og þess vegna 23 ára, er hér er komið sögu (1833). Í Berjanesi í sömu sveit er vinnukona, Þórunn Pálsdóttir að nafni. Þegar tók að líða fram á vorið 1832, veitti fólk því athygli, að hún var tekin að þykkna undir belti, þessi vinnukona í Berjanesi. Hver skyldi svo sem vera faðir að því barni? spurði fólk, en enginn vissi eða þóttist vita deili á því. Aldrei hafði sú stúlka verið orðuð við neinn pilt í sveitinni.

Hinn 28. ágúst um sumarið fæddi vinnukonan í Berjanesi sveinbarn og lýsti föður þess Jón bóndason Jónsson í Ey. Hann gekkst við faðerninu. Sveinn þessi var vatni ausinn og skírður Þórarinn. Hann ólst síðan upp hjá afa sínum og ömmu í Ey og varð augasteinninn þeirra, ekki sízt sökum þess, að þau hjónin urðu vegna fátæktar að ýta frá sér sínum eigin börnum í vinnumennsku til vandalausra, svo fljótt sem þau höfðu aldur til þjónustustarfa hjá öðrum.

Um miðjan 5. tug aldarinnar missti húsfreyjan í Ey, Ólöf Jónsdóttir, mann sinn, Jón Jónsson. Gerðist þá Sigurður nokkur Gíslason „fyrirvinna“ hjá henni. Von bráðar giftist hún honum, enda þótt hún væri 25 árum eldri en hann.

Árið 1848 var Þórarinn Jónsson, fóstursonur Ólafar ömmu sinnar í Ey, orðinn 16 ára. Það ár flytja þau hjónin Ólöf og Sigurður frá Ey í Landeyjum austur undir Eyjafjöll og fá þar ábúð á hálfu Berjanesinu, Berjanesi undir Eyjafjöllum. Hinn hluta Berjanesjarðarinnar sátu hjónin Hafliði Þórarinsson og Halla Gunnlaugsdóttir. Fyrir þrem árum höfðu hjón þessi flutt frá Minni-Borg í Steinasókn að Berjanesi.

Hjónin Hafliði og Halla áttu 6 börn, þrjár stúlkur og þrjá drengi. Einn sona þeirra var Þórarinn Hafliðason, fyrsti mormónaprestur á Íslandi (sjá Blik 1960). Hann bjó og starfaði í Vestmannaeyjum, eftir að hann lauk „snikkara“-námi í Danmörku og öðlaðist þar prestsréttindi til þess að skíra fólk á Íslandi til mormónatrúar. Hér notaði hann Mormónapollinn óspart að ósk Eyjafólks, skírði og blessaði í nafni guðs síns og mormónasafnaðarins í Utah. Þórarinn Hafliðason drukknaði í fiskiróðri vestur af Vestmannaeyjum árið 1852. Sóknarprestinum i Eyjum létti stórlega!

Tvær dætur þeirra hjóna, Hafliða og Höllu hétu báðar Margrétarnafninu, og voru fimm aldursár á milli þeirra. Sú eldri var fædd 1830. Hún ein kemur hér við sögu.

Þegar leið á sumarið 1851 var Margrét eldri Hafliðadóttir, heimasæta í Berjanesi, tekin að gildna undir svuntustrengnum sínum, svo að umtal olli í sveitinni. Ýmsir þóttust vita með vissu, að Þórarinn Jónsson á hinum bænum væri valdur að gildleika þessum hjá heimasætunni. Einhver orðrómur hafði komizt á kreik um samdrátt þeirra Þórarins og Margrétar, þótt lágt færi, enda hæg heimatökin þar í sambýlinu.

Daginn eftir Eligíusarmessu eða 2. desember (1851) fæddi Margrét heimasæta efnilegt sveinbarn. Margrét ljósmóðir Jónsdóttir, húsfreyja í Steinum, kona Helga bónda Guðmundssonar þar, annaðist ljósmóðurstörfin við fæðinguna, og var hún síðan eitt af guðfeðginunum við skírnarathöfnina, eins og venja var á þeim tímum. Hin guðfeðginin voru Hafliði bóndi, faðir móðurinnar, og Sigurður bóndi Gíslason, ömmumaður Þórarins Jónssonar, föður barnsins.

Allt virtist með felldu um ástarsamband foreldranna ungu, þó að leitt þætti að fá orðin „fyrsta lausaleiksbrot“ skráð í kirkjubókina hjá sóknarprestinum, en þar gerði hann aðeins skyldu sína samkv. löglegum boðum og ákvæðum.

Sveinninn ungi í Berjanesi undir Eyjafjöllum hlaut nafnið Guðmundur, - Guðmundur Þórarinsson, síðar bóndi á Vesturhúsum í Vestmannaeyjum um tugi ára.

Brátt eftir fæðingu sveinsins slitnaði upp úr ástarsambandi foreldranna. Margrét Hafliðadóttir eldri í Berjanesi giftist aldrei. Næstu 20 árin var hún vinnukona á ýmsum bæjum undir Eyjafjöllum með drenginn sinn með sér á framfæri sínu.

Árið 1872 fluttist Margrét Hafliðadóttir til Vestmannaeyja í hornið til Guðmundar sonar síns, sem þá var orðinn bóndi á Vesturhúsum. Komum við að þeim báðum síðar þar í frásögu þessari.

Með skipi Fjallamanna til Eyja 1. júlí 1867 fékk að fljóta unglingspiltur frá Steinum undir Eyjafjöllum, - Guðmundur sonur Margrétar Haf liðadóttur vinnukonu þar í hverfinu.

Guðmundur Þórarinsson var ráðinn vinnumaður til hjónanna á Kirkjubæ, Sveins bónda Sveinssonar og Helgu Þorláksdóttur.

Ýmis erindi þurfti piltur þessi að reka við verzlanir í Eyjum, meðan Fjallaskipið stóð þar við þennan dag. Meðferðis hafði hann t. d. tvö bréf. Þeim þurfti hann að koma til skila. Annað þeirra a. m. k. var þess efnis, að hann þurfti að snúast í að taka út vörur samkvæmt því og koma þeim til skips. Það bréf var frá Einari hreppstjóra Jóhannssyni, bónda í Þórisholti í Mýrdal til verzlunarstjóra Austurbúðarinnar, Jóhanns P. Bjarnasen og hljóðaði á þessa leið:

„Herra Factor Jóh. Bjarnasen, Vestmannaeyjum.
Háttvirti, góði herra.
Ég er nú skuldugur kaupamanni kaup frá þessu blessaða vori og verð ég að borga það í korni að nokkru leyti. Í þessu skyni verð ég að biðja yður að gjöra svo vel að hjálpa mér um eina tunnu af rúgi, og á að veita henni móttöku piltur frá Steinum, Guðmundur Þórarinsson að nafni, því að ég er skuldugur húsbónda hans um hana, þar eð frá honum var kaupamaðurinn, en ég er á ferðalagi hér, er ég skrifa þetta bréf, og hentar mér því ekki að fara sjálfur til Eyja að þessu sinni.
En auk þessa verð ég að reyna hvað þér getið verið góður við mig með því að biðja yður um mikið meira. Upp á bráðan tíma liggur mér á annarri rúgtunnunni til, ef þér gætuð hjálpað mér, og vona ég að pilturinn Guðmundur, sem ég nefndi, veiti henni einnig móttöku eða sjái um hana til skips fyrir mig. Og af því að flest virðist fremur ískyggilegt, að minnsta kosti að fjósin muni ekki gefa mikla mjólk, ef spretta verður svo lítil sem horfur eru á, þá bið ég yður að gjöra svo vel að ætla mér eina til tvær rúgtunnur einhvern tíma í haust.
Ef ég skyldi verða svo skuldugur, að þér árædduð ekki að lána mér svona mikið, þá bið ég yður að lofa mér að vita það til þess að ég leitist við að finna þá önnur úrræði.
Fyrirgefið þessar flýtis- og kvabblínur.
Yðar elskandi skiptavinur
Einar Jóhannsson.“

Og verzlunarstjórinn skrifaði á haus bréfsins: „Modtaget den 1ste juli 1867. Udlaanest 6 Skæpper Rug og 2 Skæp. Bankebygg.“

Pilturinn frá Steinum arkaði síðan með bréfið til verzlunarþjónsins við einokunarverzlunina og fékk kornvöruna afhenta þar samkvæmt „bevísnum“, sem bréfið hafði breytzt í.

Hitt bréfið, sem Guðmundur Þórarinsson hafði meðferðis, var frá séra Magnúsi Hákonarsyni sóknarpresti í Vík í Mýrdal. Það var stílað til Thomsens kaupmanns í Miðbúðinni í Eyjum. Að einu leyti var það bréf markvert og þess vegna birt hér. Það sannar okkur, að Jón forseti hefur annast útvegun og innkaup bóka í Kaupmannahöfn til handa ýmsum menntamönnum í landinu og sent bækurnar heim með verzlunarskipunum. Þarna sannast, að hann hefur sent séra Magnúsi Hákonarsyni í Vík bókaböggul með verzlunarskipinu til Vestmannaeyja og falið E. Thomsen kaupmanni að koma honum til skila austur í Vík samkv. beiðni sóknarprestsins.

Með bréfi þessu þakkar presturinn verzlunarstjóranum fyrir bókasendinguna, um leið og hann viðurkennir móttöku hennar. Þá þakkar prestur verzlunarstj óranum einnig fyrir súkkulaðið, sem verzlunarstjórinn hafði gætt prestsmaddömunni á, konu séra Magnúsar, frú Þuríði Bjarnadóttur frá Þykkvabæ í Álftaveri, dóttur Bjarna Jónssonar klausturhaldara þar. Innileg vinátta var jafnan ríkjandi milli prestsins og E. Thomsens kaupmanns.

Hér kemur svo meginefni bréfsins, ýmist orðrétt eða endursagt og stafrétt, eins og það var skrifað á dönsku:

„Höistærede herr Kjöpmand Thomsen.
Ærebödigst Tak for Deres gode Besögelse af en Pakke Böger til mig fra Arckivar (skjalaverði) J. Sigurdson for hvis vigtige Modtagelse jeg herved giver Dem min Tilstaaelse.“

Bréfi þessu fylgdi smjörböggull til kaupmannsins, „overmaade lille Ubetydelighed Græssmör for Deres egen Mund með oprigtige Onske, at same maatte finne deres Behag i lignende Grad som Deres Chocolade hidsendtet har fundet Hennes Mund ...“

Að lokum æskir prestur þess, að kaupmanninum mætti þóknast að veita hinum trúverðuga vinnumanni sínum, Magnúsi Brandssyni, vörulán fyrir 5-10 dali, ef hann skyldi bera upp við kaupmanninn þá bæn sína. Býðst prestur til að vera ábyrgðarmaður fyrir þeirri úttekt, svo lengi sem Magnús Brandsson sé vinnumaður hans. Síðast biður prestur kaupmanninn að fyrirgefa sér það, hvað bréfið er flýtislega skrifað. Tíminn er naumur, segir hann. Prestur segist vera á leið til Reykjavíkur í mikilvægum erindum og hafi komið við í Steinum á leið suður.

Skjóta má því hér inn, að erindi prestsins til Reykjavíkur að þessu sinni, er vitað. Hann var að leggja drög að því að fá veitingu fyrir Stað í Steingrímsfirði. Þá veitingu fékk hann árið eftir (1868) ag fluttist búferlum norður að Stað árið 1869.¹

¹ Séra Magnús Hákonarson fæddist að Eyri í Skutulsfirði 16. ágúst 1812. Foreldrar hans voru séra Hákon prófastur Jónsson og kona hans maddama Helga Árnadóttir frá Meirihlíð í Bolungarvík. Séra Magnús bar nafn Magnúsar Stephensen dómstjóra í Viðey. Hann Ias við Háskólann í Kaupmannahöfn veturinn 1834-1835 og las guðfræði nokkurn hluta þess vetrar, en lauk aldrei prófi í henni. Samt fékk hann vígslu að Miklaholtsprestakalli vorið 1845 eftir að hafa gegnt skrifstofustörfum í skrifstofum Stephensensættarinnar. Sumarið 1854 fékk séra Magnús Hákonarson Reynisþing í Vestur-Skaftafellssýslu og fluttist þangað árið eftir. Þar var hann prestur í 14 ár eða þar til hann fluttist norður að Stað í Steingrímsfirði. Bréfið, sem hér er rætt um, vottar, að séra Magnús Hákonarson er enn búsettur í Vík í Mýrdal sumarið 1867, og mun því ártalið í Íslenzkum æviskrám um flutning séra Magnúsar eitthvað hafa ruglazt.
Séra Magnús Hákonarson þótti knæfur íþróttamaður á yngri árum og sterkur með afbrigðum. Hann var skáldmæltur og sönghneigður og haft á orði, hversu mælskur hann var og ræður hans snjallar og kjarnyrtar.
Séra Magnús lézt að Stað í Steingrímsfirði 28. apríl 1875. Dauðamein hans var taugaveiki.

Þegar svo Guðmundur Þórarinsson frá Steinum hafði lokið verzlunarerindum sínum þennan dag, rölti hann með fataskjattann sinn á bakinu og kistilinn undir hendinni austur á Kirkjubæ til hjónanna, sem hann var ráðinn vinnumaður hjá. Í þeirri vist var hann síðan næstu þrjú árin eða til vorsins 1870. Þá í fardögum réðst Guðmundur Þórarinsson vinnumaður til héraðslæknishjónanna í Landlyst, Þorsteins Jónssonar og Matthildar Magnúsdóttur.

Dálítið sérlegt olli því, að pilturinn frá Steinum, nú tvítugur að aldri, dróst að Landlyst í vinnumennskuna þar.

Svo er mál vaxið, að í byrjun vertíðar 1870 gerðist vinnukona hjá héraðslæknishjónunum stúlka nokkur frá Borgareyrum í Rangárvallasýslu. Sú hét Guðrún Erlendsdóttir, ráðsett stúlka og aðlaðandi að vinnupiltinum á Kirkjubæ fannst. Guðrún Erlendsdóttir var fædd 1. febr. 1841 og þannig 9 árum eldri en Guðmundur vinnumaður, sem nú neytti illa svefns eða matar af ást til hennar.

Það bar svo við í vertíðarönnunum 1870, að þau nálguðust hvort annað, felldu hugi saman, þó að dult færi í fyrstu. Leikur einn var það þá í Eyjum að leyna öllu ástarmakkinu í fámenninu og myrkurhulunni á þeim tíma árs. Ekki einu sinni héraðslæknirinn hafði nokkurn grun um ástaróra og amorsfundi vinnukonunnar sinnar, hennar Guðrúnar Erlendsdóttur, og var hann þó jafnan allra manna gleggstur á flest mannlegt og þótti stundum sem hann sæi gegn um holt og hæðir, „Eyjajarlinn“. Þar fór saman vit og þekking.