Þorlaugargerði vestra

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.

Húsið Þorlaugargerði vestra er utan byggðar, fyrir ofan hraun. Þorlaugargerðisjarðirnar voru tvær og aðgreindar sem eystra og vestra. Báðar þóttu jarðirnar ágætar bújarðir á vestmanneyskan mælikvarða og er í heimildum greint frá ábúð á þeim fyrir árið 1500.

Síðasti ábúandi í Þorlaugargerði vestra var Húnvetningurinn Páll H. Árnason frá Geitaskarði, er flutti til Eyja rétt eftir miðja síðustu öld, ásamt konu sinni Guðrúnu Aradóttur og börnum þeirra. Páll rak allstórt kúabú á jörðinni, stóð í nýrækt og endurbætti húsakostinn.

  • Páll var mikill bóndi en einnig víðlesinn og fróður og ágætlega skáldmæltur. Hann lenti í útistöðum við Einar J. Gíslason í Betel vegna trúmála og var upphaf þess það að Einar sagðist hafa séð Pál vera að bera skít á tún á hvítasunnudag þegar flestir sannkristnir menn hefðu verið í kirkju. Páll svaraði þessu svo eftirminnilega að ekki var á það framar minnst. Hann sagði: -Hvort finnst þér eðlilegra að ég sé að vinna í skít og hugsa um guð eða að ég sé í kirkju að hugsa um skít?


Bjarni Sighvatsson frá Ási keypti Þorlaugargerði vestra á níunda áratug síðustu aldar og hefur haldið þar bæði sauðfé og hross.