Óskar M. Gíslason

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 18. nóvember 2005 kl. 18:42 eftir Skapti (spjall | framlög) Útgáfa frá 18. nóvember 2005 kl. 18:42 eftir Skapti (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Óskar Magnús Gíslason fæddist 27. maí 1915 í Eyjum og ólst upp á Arnarhóli. Óskar var alinn upp á útvegsbændaheimili og var faðir hans, Gísli Jónsson, skipsstjóri og útgerðarmaður. Móðir Óskars var Guðný Einarsdóttir. Óskar var númer 3 í röðinni í 6 barna systkinahópnum. Einn bróðir Óskars, Einar, var mjög náinn honum og unnu þeir saman á sjó og í safnaðarstarfi.

Eiginkona Óskars var Kristín Jónína Þorsteinsdóttir, ævinlega kölluð Jóna. Þau giftust þann 21. desember 1946. Þau eignuðust 6 börn, eitt þeirra dó sem barn. Börn Óskars eru Þorsteinn, eðlisfræðingur í Álverksmiðjunni, Anna hjúkrunarfræðingur og Gísli, Snorri og Kristinn kennarar. Gísli er einn búsettur í Vestmannaeyjum en hin búa á Akureyri, Hafnarfirði og Kanada.

Sjómennskan

Óskar hóf sjómennskustörf 14 ára hjá föður sínum og nokkrum árum seinna aflaði hann sér skipstjórnarréttinda hjá Sigfúsi Scheving og árið 1937 varð hann skipsstjóri á bát fjölskyldunnar, Víkingi VE-133. Óskar öðlaðist dýrmæta þekkingu með því að alast upp á sjómannsheimilinu og að taka þátt í öllu sem sjávarútvegnum við kemur. Það fór því þannig að Óskar varð gæfuríkur skipsstjóri og gjörþekkti miðin í kringum Vestmannaeyjar. Altalað var að Óskar hefði gott skyn á fiskimiðunum og að hann sýndi góða sjómennsku.

Þeir bræður, Óskar og Einar, keyptu saman vélbátinn Gæfu árið 1956. Samstarf þeirra var mjög gott og var útgerð bátsins blessuð. Þeir seldu bátinn árið 1964. Þá hóf Óskar störf í landi og Einar tók fljótlega við forstöðu Fíladelfíusafnaðarins í Reykjavík.

Loftur Guðmundsson kvað um Óskar, eftir vetrarvertíðina 1944:

Drengur góður, djarfur í hug
dagfarsprýði rækir,
Óskar á Víking æskudug
ægir til fanga sækir.

Starf í landi

Þegar Óskar hætti á sjónum hóf hann störf hjá Vestmannaeyjabæ sem verkstjóri. Þá var hann formaður Verkstjórafélags Vestmannaeyja.

Trú

Óskar Magnús hafði einlæga trú á frelsara sinn, Jesú Krist. Sýndi hann það í verki og orði. Hann var virkur í söfnuði sínum, Hvítasunnukirkjunni Betel og þar var hann öldungur og sinnti um tíma forstöðu.

Óskar var traustur stólpi í bæjarlífi Vestmannaeyinga og leitaði fólk oft til hans um huggun, ráðleggingar og visku. Hann las mikið og man vel það sem hann las. Var það bæði Biblían og önnur rit sem hann hafði á hraðbergi og miðlaði til þeirra sem þess óskuðu.

Óskar Magnús Gíslason lést þann 28. febrúar 1991, 75 ára gamall.



Heimildir

  • Friðrik Ásmundsson. Óskar M. Gíslason, minningargrein. Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1991.