Einar J. Gíslason

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 26. júlí 2005 kl. 11:02 eftir Skapti (spjall | framlög) Útgáfa frá 26. júlí 2005 kl. 11:02 eftir Skapti (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Einar Jóhannes Gíslason fæddist í Vestmannaeyjum 31. janúar 1923. Hann lést á Droplaugarstöðum í Reykjavík hinn 14. maí síðastliðinn. Foreldrar Einars voru Gísli Jónsson, útvegsbóndi á Arnarhóli, f. 23. janúar 1883, d. 25. október 1977, og kona hans Guðný Einarsdóttir, húsfreyja, f. 10. maí 1885, d. 31. mars 1956. Systkini Einars voru: Guðný Svava, f. 1911, búsett í Vestmannaeyjum; Salóme, f. 1913, d. 1996; Óskar Magnús, f. 1915, d. 1991; Hafsteinn Eyberg, f. 1921, d. sama ár; og Kristín Þyrí, f. 1925, d. 1992.

Hinn 23. maí 1948 kvæntist Einar fyrri konu sinni, Guðnýju Sigurmundsdóttur, f. 1. janúar 1926, d. 6. október 1963. Börn þeirra eru: 1) Guðrún Margrét, f. 16. desember 1949, meðferðarfulltrúi hjá SÁÁ, býr í Reykjavík, og á hún tvö börn. 2) Guðni, f. 23. febrúar 1953, blaðamaður á Morgunblaðinu, býr á Kjalarnesi, kvæntur Guðfinnu Helgadóttur og eiga þau fjögur börn. 3) Sigurmundur Gísli, f. 26. september 1957, framkvæmdastjóri ÚV, býr í Vestmannaeyjum, kvæntur Unni Ólafsdóttur og eiga þau fimm börn.

Hinn 11. apríl 1964 kvæntist Einar eftirlifandi eiginkonu sinni, Sigurlínu Jóhannsdóttur, f. 11. júlí 1929. Dóttir þeirra er Guðný, f. 15. mars 1965, húsmóðir í Englandi, gift Robert Pearson.

Einar bjó í Vestmannaeyjum til 1970 og vann þar við vélgæslu, útgerð og sjómennsku með Óskari bróður sínum. Hann var fyrsti skoðunarmaður björgunarbáta í Vestmannaeyjum, vélaeftirlitsmaður og eftirlitsmaður Skipaskoðunar ríkisins. Þá var Einar verkstjóri á grafskipinu Vestmannaey og var á lóðsbátnum Létti. Einar gekk í hvítasunnusöfnuðinn sextán ára gamall, fór á biblíuskóla í Svíþjóð, var forstöðumaður Betelsafnaðarins í Vestmannaeyjum 1948-70 og forstöðumaður Fíladelfíusafnaðarins í Reykjavík 1970-90.