Blik 1976/Minjaskrá Byggðarsafns Vestmannaeyja, þar sem getið er um 320 Vestmannaeyinga, IV. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 30. nóvember 2009 kl. 10:28 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 30. nóvember 2009 kl. 10:28 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit


12. kafli


Húsgögn, hurðir og ýmsir fleiri


hús og heimilismunir
  • 880. Dragkista (kommóða). Sannanlegt er, að þessi dragkista er meira en 200 ára gömul. Dragkistu þessa smíðaði „kóngssmiðurinn" í Þórlaugargerði, Guðmundur bóndi þar Eyjólfsson. Kóngssmiðir voru þeir einir titlaðir í Eyjum, sem lært höfðu smíðar í Danmörku, voru „snikkarar", og höfðu það að atvinnu öðrum

þræði að stunda smíðar á vegum konungsvaldsins í Eyjum, byggja hús fyrir kónginn og gera við hin opnu fiskiskip hans, en konungsvaldið danska rak hér alla útgerð um tveggja alda skeið. Guðmundur Eyjólfsson setti t. d. þakið á Landakirkju, sem byggð var á árunum 1774-1778.

Þegar hjónin Lárus Jónsson og frú Kristín Gísladóttir fengu ábúð á Vestri-Búastöðum eftir Sigurð Torfason hreppstjóra árið 1870, þá lét hreppstjórinn hina nýju ábúendur „erfa“ dragkistuna.

Dragkistu þessa gaf frú Júlíana Sigurðardóttir, fyrrv. húsfreyja á Búastöðum, Byggðarsafninu. en hún var gift Pétri Lárussyni bónda, syni Búastaðahjónanna frú Kristínar og Lárusar.

  • 881. Dragkista (kommóða). Þessa dragkistu áttu prestshjónin að Ofanleiti, séra Jón Jónsson Austmann og mad. Þórdís Magnúsdóttir. Þau voru búandi að Ofanleiti 1827-1958. Kommóða þessi kvað vera dönsk að uppruna, og eignuðust prestshjónin hana árið 1817, er þau fengu prestakallið að Þykkvabæjarklaustri og settust að á Mýrum. Eftir fráfall séra Jóns J. Austmanns árið 1858 eignaðist Magnús J. Austmann, bóndi. stúdent og alþingismaður að Nýjabækommóðuna, en hann var elzta barn þeirra hjóna. Hann lézt árið 1859. Frú Kristín Einarsdóttir, ekkja hans. átti síðan húsgagn þetta alla sína búskapartíð í Nýjabæ eða til dauðadags árið 1899.

Við fráfall frú Kristínar Einarsdóttur eignaðist Þórarinn bóndi Árnason á Oddstöðum kommóðuna og síðan Oddgeir bifreiðarstjóri sonur hans. Oddgeir Þórarinsson gaf hana Byggðarsafninu árið 1958 eða á 100 ára ártíð séra Jóns Austmanns, hins gagnmerka sóknarprests.

  • 882. Dragkista. Þessa litlu dragkistu átti frú Fríður Lárusdóttir bónda og hreppstjóra Jónssonar á Búastöðum. Lárus bóndi smíðaði sjálfur dragkistuna og gaf hana þessari dóttur sinni í fermingargjöf, en frú Fríður var fermd 26. maí 1894. Frú Fríður Lárusdóttir var gift Sturlu Indriðasyni frá Vattarnesi.

Dóttir þeirra hjóna, frú Lára Sturludóttir, gaf Byggðarsafninu dragkistuna.

  • 883. Dragkista, sem er smíðuð úr mahoní. Hún á þessa sögu: Árið 1880 rak langt og gildvaxið mahoní tré í Gunnarsurð, sem er í krikanum milli Kervíkurfjalls og Sæfells. Þarna átti þá rekaréttindi Jóhann J. Johnsen, veitingamaður og bóndi í Frydendal, en hann hafði byggingu fyrir einni Kirkjubæjajörðinni (Bænhújörðinni á Kirkjubæjum).

Tré þetta var þurrkað vandlega og síðan rist í borð með stórviðarsög Ingimundar bónda Jónssonar á Gjábakka (sjá nr. 489). Hjá hjónunum í Frydendal dvaldist þá Árni trésmiður Árnason, sem stundaði sjó í Eyjum á útvegi Frydendalshjónanna, þegar hann vann ekki að smíðum. Árni Árnason hafði fyrir skömmu lokið við að smíða þessa dragkistu, þegar hann drukknaði, en það var árið 1887.

Til fyrirmyndar um smíði þessa hafði Árni smiður dragkistu hjónanna í Nýjabæ, sem prestshjónin á Ofanleiti höfðu átt. (Sjá nr. 881). Síðast átti þessa dragkistu Árni verzlunarmaður Jónsson í Odda (nr. 63 A) við Vestmannabraut. sem var starfsmaður Gunnars Ólafssonar og Co. um langt árabil. Hann var frá Helgusöndum í Landeyjum, f. 12. apríl 1889 og dáinn 21. júní 1963. Hann gaf Byggðarsafninu dragkistuna.

  • 884. Fatakista. Kistu þessa áttu hreppstjórahjónin á Búastöðum hinum vestari, Lárus Jónsson og frú Kristín Gísladóttir. Hann smíðaði sjálfur kistuna um 1880.
  • 885. Fatakista. Þessa kistu gaf Karl Guðmundsson skipstjóri Byggðarsafninu.
  • 886. Fatakista.
  • 887. Fótskör, fótskemill með sama sniði og sjóferðakista.
  • 888. Hægindastóll eða vinnustóll frú Rósu Eyjólfsdóttur húsfr. í Þórlaugargerði. Jón bóndi Pétursson, maður hennar, smíðaði stólinn. Jón Guðjónsson, bóndi og smiður í Þórlaugargerði, fóstursonur þeirra hjóna, gaf Byggðarsafninu stólinn.
  • 889. Kistill. Á hann er málað nafnið Una. Frú Una Jónsdóttir, skáldkona að Sólbrekku (nr. 21) við Faxastíg, átti þennan kistil og gaf hann Byggðarsafninu.
  • 890. Skrifborð. Þetta skrifborð átti og notaði í skrifstofu sinni í Landlyst, Þorsteinn héraðslæknir Jónsson (1865-1905), „Eyjakarl“.

eins og hann var stundum nefndur sökum opinberra starfa og valda í byggðarlagi Eyjamanna. Borðið gáfu Byggðarsafninu frú Matthildur Ágústsdóttir, dótturdóttir héraðslæknisins, og maður hennar Sigurður skrifstofustjóri Bogason, hjón í Eystra-Stakkagerði. Frú Matthildur erfði skrifborðið eftir afa sinn, sem lézt árið 1908.

  • 891. Skrifborð. Þetta skrifborð átti Jón bóndi Guðmundsson í Suðurgarði.
  • 892. Skatthol. Skatthol þetta átti Ólafur útgerðarmaður Auðunsson í Þinghól (nr. 19 við Kirkjuveg). Frú Solveig Ólafsdóttir, dóttir hjónanna í Þinghól, frú Margrétar Sigurðardóttur og Ó. A., gaf Byggðarsafninu skattholið.
  • 893. Spegill. Stofuspegill hjónanna á Vilborgarstöðum, frú Guðfinnu J. Austmann og Árna Einarssonar, bónda og meðhjálpara. Haft var á orði, að naumast ætti sjálfur einokunarkaupmaðurinn eða „factorinn" í Danska-Garði íburðarmeiri stofuspegil en þessi er. Spegillinn mun vera um það bil aldar gamall. Sigfús M. Johnsen, fyrrv. bæjarfógeti, gaf Byggðarsafninu spegilinn. Hann var sonarsonur frú Guðfinnu húsfreyju á Vilborgarstöðum.
  • 894. Stofuborð. Þetta stofuborð er smíðað úr maghoní (ekki spónlagt). Það áttu hreppstjórahjónin í Stakkagerði, frú Ásdís Jónsdóttir og Árni bóndi og hreppstjóri Diðriksson. Þau hjón áttu hér í Eyjum markverða sögu. Árni bóndi var fyrst formaður á áttæringnum Gideon, þar til Hannes Jónsson gerðist formaður á honum, þá innan við tvítugt. Árni var myndarbóndi í Stakkagerði og hreppstjóri um árabil. Þá ruddi hann brautir um lundaveiðar í Eyjum með því að flytja inn fyrsta lundaháfinn og nota hann. Það var árið 1875. Árið eftir notuðu allir lundaveiðimenn í Eyjum háfinn. Frú Ásdís lézt 1892 og Árni bóndi 1903. Þau voru tengdaforeldrar Gísla gullsmiðs Lárussonar í Stakkagerði.
  • 895. Stofuhurð. Stofuhurð þessi var fyrst notuð í íbúðarhúsi því á Ofanleiti, sem séra Brynjólfur Jónsson sóknarprestur byggði þar árið 1863. Þá hafði séra Brynjólfur verið þar prestur í 3 ár. Þetta íbúðarhús að Ofanleiti var rifið um eða eftir síðustu aldamót. Séra Oddgeir Þórðarson Guðmundsen, sóknarprestur að Ofanleiti frá 1889-1924, lét byggja nýtt prestssetur að Ofanleiti um eða eftir síðustu aldamót. Þá var þessi hurð notuð þar. Þegar svo steinhúsið að Ofanleiti var byggt árið 1927, í tíð prestshjónanna séra Sigurjóns Þ. Árnasonar og frú Þórunnar Kolbeins, var þessi hurð ekki notuð lengur. Hreppti hana þá húsameistarinn Kristján Jónsson á Heiðarbrún (nr. 59) við Vestmannabraut. Síðar eignaðist Magnús Eyjólfsson á Grundarbrekku (nr. 11) við Skólaveg hurðina. Þar var hún notuð í kjallara hússins á árunum 1946-1966. Gestir Byggðarsafnsins undrast, hvernig hægt var að nota svo lága stofuhurð, sem þessi er. Athugandi er það, að þá voru þröskuldar hafðir 30—40 sm háir.

Hjónin á Grundarbrekku, frú Guðrún Magnúsdóttir og Jónas Guðmundsson. gáfu Byggðarsafninu hurðina.

  • 896. Stofuhurð. Hún hefur einhverntíma verið máluð græn. Stofuhurð þessa smíðaði að danskri fyrirmynd Þórarinn Hafliðason, mormónaprestur hér í Eyjum. Hann var „snikkari", lærður í Danmörku. Þórarinn Hafliðason drukknaði hér vestan við Heimaey árið 1852. Hurðin er þess vegna orðinn minnst 125 ára.

Hún var um tugi ára notuð í kjallara íbúðarhúss hjónanna á Kirkjubæ, frú Höllu Guðmundsdóttur og Guðjóns bónda Eyjólfssonar.

Síðustu ábúendur á þessari Kirkjubæjajörð fyrir gos voru hjónin frú Þórdís Guðmundsdóttir og Magnús Pétursson bónda á Kirkjubæ Guðjónssonar. Þessi hjón gáfu Byggðarsafninu hurðina.

  • 897. Stofustólar. Þessir stofustólar, smíðaðir úr maghoní og bólstr aðir, eru sagðir fyrstir sinnar gerðar í Vestmannaeyjum. Stólana áttu hjónin á Vilborgarstöðum, frú Guðfinna J. Austmann og Árni bóndi Einarsson.

Um tugi ára átti Sigfús M. Johnsen ,fyrrv. bæjarfógeti, þessa stóla eftir ömmu sína. Hann gaf þá Byggðarsafninu.

  • 898. Salerniskassi. Gísli J. Johnsen, kaupmaður og útgerðarmaður, lét byggja íbúðarhús sitt Breiðabli áriðl908. Þá lét hann setja vatnssalerni í húsið að erlendri fyrirmynd. Áður voru þau tæki óþekkt í húsum hér í Eyjum. Það hneykslaði þá ýmsa, að þessi „jarl" í Eyjum tæki upp á þeim býsnum að hafa „kamarinn" í sjálfu íbúðarhúsinu. Iðnaðarmannafélag Vestmannaeyja, sem hefur átt Breiðablik í 40-50 ár, gaf Byggðarsafninu salerniskassann.
  • 899. „Bæjarhurð", líkan af bæjarhurð, eins og þær voru algengar á

sveitabæjum hér áður fyrr. og á flestum tómthúsum hér í Eyjum fyrir og um síðustu aldamót a. m. k. Og þannig voru lamir og læsingar. Læsingarnar voru kallaðar klinkur. Þær voru oftast smíðaðar úr járni eða þá eirblendi eins og þessar.

Þessar lamir og klinkur gáfu hjónin Guðmundur Steinsson og frú Sigríður Jónatansdóttir frá Stórhöfða Byggðarsafninu.

  • 900. Útvarpstæki. Þetta er eitt af allra fyrstu innbyggðu útvarpstækjunum. sem keypt voru til Eyja. Tækið sjálft og hátalarinn í einum og sama kassanum. Áður var þetta sitt í hvoru lagi. Tæki þetta áttu hjónin á Vestri-Búastöðum, frú Júlíana S. Sigurðardóttir og Pétur bóndi Lárusson.
  • 901. Útvarpstæki með lausum hátalara (Philipstæki). Tæki þetta er gjöf frá frú Láru Guðjónsdóttur að Kirkjulandi. Foreldrar hennar á Kirkjubóli áttu tækið.

Þessi útvarpstæki voru algeng hér fyrst eftir að islenzka útvarpsstöðin tók til starfa (1930).