Taflfélag Vestmannaeyja

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 28. mars 2007 kl. 17:12 eftir Frosti (spjall | framlög) Útgáfa frá 28. mars 2007 kl. 17:12 eftir Frosti (spjall | framlög) (Grein Karls Gauta Hjaltasonar um Taflfélagið)
Fara í flakk Fara í leit

I. Kafli. Stofnun félagsins.

Taflfélag Vestmannaeyja var stofnað árið 1926 og var stofnfundur félagsins haldinn sunnudaginn 29. ágúst 1926 og voru stofnendur þess níu einstaklingar: Sigurður Sveinsson, Sveinsstöðum Magnús Jónsson, Bergsstöðum Kristinn Ólafsson, Reyni Magnús Bergsson, Tungu Sigurður Þórðarson, Gerði Sigurbjörn Sveinsson, Sólbergi Halldór Guðjónsson, Sólbergi Hermann Benediktsson, Godthaab Ólafur Magnússon, Sólvangi Ólafur og Kristinn á Reyni, sem þá var hér bæjarstjóri, munu hafa verið frumkvöðlar að stofnun félagsins. Fyrsti formaður félagsins var kosinn Hermann Benediktsson. Fljótlega bættust fleiri í félagið og 2. september 1926 voru neðangreindir ellefu einstaklingar teknir inn í félagið: Þórhallur Gunnlaugsson, Símstöð Stefán Guðlaugsson, Gerði Jóhann P. Jónsson, Grímsstöðum Magnús Sveinsson, Reykholti Kjartan Guðmundsson, (ljósmynd) Þorsteinn Steinsson, Sólnesi Karl Sigurhansson, Brimnesi Gunnar Jónatansson, Stórhöfða Hjalti Jónatansson, Stórhöfða (16 ára) Jón Bjarnason, Valhöll Geir Guðmundsson, Geirlandi

Á fyrsta mótinu, þar sem átta félagsmenn tefldu urðu Ólafur Magnússon og Halldór Guðjónsson efstir og jafnir með 6 vinninga af 7 mögulegum. Á fundi hinn 13. október 1926 voru samþykkt lög fyrir félagið og er hér til gamans úrdráttur úr þeim: 1. gr. Nafn félagsins er Taflfélag Vestmannaeyja 2. gr. Tilgangur félagsins er að auka og efla útbreiðslu tafllistarinnar í Vestmannaeyjum 13. gr. Ef veðjað er um skákir í félaginu, skal helmingur af veðfénu renna í verðlaunasjóð 15. gr. Um hver áramót skal félagið halda Skákþing Vestmannaeyja. Er taflfélagsmönnum og öllum öðrum búsettum mönnum í Vestmannaeyjum heimil þátttaka. Skulu verðlaun veitt og hlýtur sigurvegarinn nafnbótina Skákkonungur Vestmannaeyja.

Fljótlega komst tala félaga í 44. Á aðalfundi í febrúar 1929 er valin sveit í símakappskák sem háð var við Taflfélag Reykjavíkur 24. febrúar. Stóð skákin frá laugardagskvöldi til kl. 10 á sunnudagsmorgni og unnu Reykvíkingar með 4,5 v á móti 3,5 v.

Upp úr 1929 virðist svo sem starf félagsins dalaði og margar ástæður sagðar fyrir því, m.a. húsnæðisvandamál, kreppan, útbreiðsla bridge íþróttarinnar, flutningur félagsmanna (Stórhöfðabræðra) upp á land og fleira. En það var ekki fyrr en 1936, hinn 3. september sem félagið virðist lifna við að nýju, þegar boðað er til fundar að Hótel Berg fyrir það fólk sem áhuga hefði fyrir skáklist. Hinn 11. október 1936 var síðan haldinn aðalfundur TV og Karl Sigurhansson kosinn formaður félagsins.

II. Kafli. Blómaskeiðið eftir 1936 Taflfélagið var lífgað við á aðalfundinum haustið 1936 og þá voru líka ýmis framfaramál á dagskrá td. var samþykkt að senda Skákfélagi Keflavíkur áskorun í keppni og koma á bréfaskákum við önnur skákfélög inn- og útlend. Þá var bókað um að fengist hafi innflutningsleyfi á skákritum fyrir allt að 100 krónur og gilti leyfið til áramóta. Loks var samþykkt að sækja um í Skáksamband Íslands. Heiðursfélagi var kosinn Sigurbjörn Sveinsson, Sólbergi.

Af minnistæðum mönnum sem tefldu með félaginu á árunum eftir 1936 voru nefndir Karl Sigurhansson, sem tefldi skák á vetrum og var einn besti langhlaupari landsins. Hjálmar Theódórsson frá Húsavík var aðaldriffjöðurin í félaginu og hafði þegar þarna var gerst ársmaður hjá Helga Ben., hann var mikill félagsmálamaður og kappsamur og varð síðar skákmeistari Norðurlands og komst í landsliðsflokk. Þá er Björn Kalman lögfræðingur minnistæður en hann hafði teflt í Ameríku um aldamótin og var á fyrstu árum aldarinnar einn af sterkustu skákmönnum þjóðarinnar. Hjalti í Vitanum hafði góðan stíl og Rafn Árnason frá Gröf var mikið efni. Hann gerðist farmaður og féll frá fyrir aldur fram.

Í þessa tíð tíðkuðust símskákir, sem stóðu frá kl. 21 að kvöldi til 8 að morgni eða þegar símstöðin var lokuð og var þá oft glatt á hjalla og Loftur kennari, sem var símstjóri félagsins lét marga vísuna fljúga eftir línunni. Á þessum árum hafði félagið um tíma aðsetur í herbergi á Vesturhúsum til æfinga.

Símskákin við Keflvíkingana fór fram nóttina 17. október og unnu Eyjamenn með 7,5 á móti hálfum vinningi Keflvíkingana. Viku seinna var símskák við Taflfélag Hafnarfjarðar og unnu TV menn þá viðureign einnig 5,5 á móti 2,5 vinningi.

Það sýnir best eldhug manna um þetta leyti að á árinu 1937 var lagt í það að fá þýska skákmeistarann Ludvik Engels, sem staddur var í Reykjavík hingað til þess að kenna skák í tvær vikur. Hann varð frægur er hann vann skák af heimsmeistaranum Aljekín. Til þess að fá hann hingað var leitað til ýmissa velunnara í bænum og safnað fé til greiðslu kostnaðar af komu Engels og gekk sú söfnun framar öllum vonum. Engels tefldi hé rnokkur fjöltefli og það fyrsta við 23 menn úr félaginu, þar sem hann vann 16 skákir, tapaði 5 og gerði 2 jafntefli. Þegar Engels fór var hann leystur út með gjöfum og Loftur Guðmundsson, rithöfundur flutti þakkarávarp bæði á íslensku og þýsku.

Þannig var mikill uppgangur í félaginu allt þar til 1939, þegar svo virðist sem starfið hafi lagst niður á nýjan leik, því ekki er skráð í fundargerðarbækur þar til 8. október 1944 þegar félagið er endurvakið enn á ný.

III Kafli. Í lok stríðsins.