Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1994/Undirbúningur að siglingu Gaiu

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 31. mars 2017 kl. 16:11 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög) Útgáfa frá 31. mars 2017 kl. 16:11 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Gunnar M. Eggertsson og Sigurgeir Jónsson:

Undirbúningur að siglingu Gaiu frá Noregi til Washington

Svo sem kunnugt er sigldi Eyjamaðurinn Gunnar Marel Eggertsson með vikingaskipinu Gaiu frá Noregi til Íslands og þaðan til Bandaríkjanna, ásamt því að sigla suður með S-Ameríku á sama farkosti.
Gunnar vinnur nú að skráningu atburða í þessari ferð, ásamt Sigurgeiri Jónssyni, kennara og rithöfundi, og er œtlunin að frásögnin verði fœrð á bók og gefin út fyrir nœstu jól.
Sjómannadagsblað Vestmannaeyja hefur fengið góðfúslegt leyfi þeirra Gunnars og Sigurgeirs til að birta kafla úr þessari óútkomnu bók þeirra sem fjallar um undirbúning að einhverri sögulegustu siglingu sem Íslendingur hefur nokkru sinni tekið þátt í.

UPPHAFIÐ
Þegar ég kom út til Noregs og barði í fyrsta sinn augum farkostinn sem til stóð að sigla á frá Noregi til Washington var mér næstum öllum lokið. Ýmislegt rann í gegnum hugann, þ.á.m. hvað ég væri að hugsa að ætla að fara að sigla yfir hafið á þessu skipi sem alls ekki leit traustvekjandi út þar sem það stóð þarna í slippnum.
„Hvað er ég búinn að koma mér í“? var spurning sem ég spurði sjálfan mig oft fyrstu dagana. En þarna var ég kominn, fyrir hönd Íslands, til að sigla víkingaskipi til Ameríku og fjandinn hafi það; ekki var hægt að guggna þarna þegar á hólminn var komið. Enda ekki alveg í mínum anda að láta hugfallast; þetta var reyndar það sem mig hafði dreymt um frá tíu ára aldri, að sigla víkingaskipi yfir hafið. Þarna var það komið upp í hendurnar á mér, einstakt tækifæri sem mér byðist líklega aldrei aftur. Nú var bara að láta kné fylgja kviði og klára dæmið.

BÍRÆFNI NORÐMANNA
Þarna voru komnir út á eftir mér, tveimur til þremur vikum seinna, þau Ríkarður Pétursson, Eggert Sigurðsson, Herdís Gunnarsdóttir og Gerður Rósa Gunnarsdóttir. Sjálfur kom ég út þann 6. mars 1991 til að taka þátt í undirbúningi siglingarinnar sem átti að hefjast á þjóðhátíðardegi Norðmanna, hinn 17. maí. Ferðin skyldi farin í minningu Leifs heppna Eiríkssonar sem fann Vínland hið góða (Ameríku) fyrir u.þ.b. þúsund árum.
Nú hafa verið töluverðar deilur, bæði fyrr og síðar, milli Norðmanna og Íslendinga um það hvort Leifur heppni hafi verðið maður íslenskur eða norskur. Sjálfum finnst mér það ótrúleg bíræfni í Norðmönnum að láta sér detta annað eins í hug. Í fyrsta lagi er þetta lítið annað en pólitík og frekja að bera slíkt á borð fyrir þjóðir sem lítið sem ekkert þekkja til sögulegra staðreynda; eingöngu til þess að kynna þjóð sína nógu rækilega með sölu á fiski í huga aðallega. Þeir sem lesið hafa sögurnar, sem reyndar eru skrifaðar hér uppi á Íslandi (og hvergi annars staðar), vita að Leifur heppni var fæddur á Íslandi, af íslenskri móður, og eyddi fyrstu æviárum sínum á Íslandi. Hingað til hefur það dugað til.
Seinna meir fluttist fjölskylda Leifs til Grænlands og bjó þar þangað til yfir lauk þannig að síst af öllu var Leifur Eiríksson norskur maður. Mér finnst það raunar pirrandi að þurfa að standa í einhverju stappi við Norðmenn um þessa ættfærslu. Þeir eru alltaf samir við sig í því efni. Svo til að kóróna allt saman þá hafa Norðmenn unnið að því að undanförnu að sanna opinberlega að sjálfur Kristófer Kólumbus hafi verið af norskum ættum. Þetta finnst mér í hæsta máta ósiðlegt og jaðrar við óþolandi yfirgang. Að sjálfsögðu á ekki að gefa þetta eftir og þarf að standa vörð um þetta mál.
Það er nefnilega stórmál fyrir okkur sem smáþjóð að geta eignað okkur þann mann sem fann Ameríku fyrir þúsund árum; ekki aðeins vegna þess að sá maður hét Leifur Eiríksson og kom frá Íslandi, heldur einnig vegna landkynningar og markaðsmála erlendis. Okkur veitir ekkert af að halda öllu á lofti eins og unnt er til að kynna land okkar og þjóð erlendis.
En snúum okkur nú aftur að siglingunni.

SÁ UM MASTRIÐ
Á öðrum degi eftir að ég kom út var mér falið að ganga frá böndum í skipinu, setja niður palla og olíubera skipið að innan.
Gaia var nákvæm eftirlíking af Gauksstaðaskipinu sem fannst í haugi í Noregi fyrir nær hundrað árum og þarna gat maður kynnst því áþreifanlega hvernig forfeður okkar gerðu hlutina úr garði fyrir þúsund árum eða svo.
Það kom mér rækilega á óvart hve vel hafði verið hugsað fyrir öllu. Þá rann upp fyrir mér að þarna höfðu engir aular verið á ferð. Allt var greinilega með ráðum gert og einhvern veginn finnst mér eins og við, sem nú troðum þessa jörð, nær þúsund árum eftir þeirra tilvist, höfum komist ótrúlega stutt á veg miðað við hvað þeir kunnu og gátu þarna í fornöldinni.
En undirbúningurinn gekk vel. Mér var falið að ljúka smíði mastursins og koma því fyrir í skipinu með rá og reiða. Ég hafði hugboð um að nú skyldi reyna á hvort þessi Íslendingur gæti yfirleitt eitthvað eða kynni. Ég hafði reyndar ekkert flaggað því að ég hefði lært tréskipasmíð og gekk að þessu verki með sama hugarfari og heima að vinna verkið eins vel og unnt væri.

PENINGUR UNDIR MASTRIÐ
Allt gekk þetta með ágætum og loks var að því komið að hífa mastrið um borð. Ungur maður hafði ég heyrt í mínu námi að ekki mætti setja mastur í skip fyrsta sinn öðruvísi en að setja mynt undir það. Þetta var gömul hjátrú og ég var ákveðinn í að viðhalda henni, þótt á erlendri grund væri, þannig að ekki væri seinna meir hægt að kenna því um ef eitthvað færi úrskeiðis á siglingunni. Í vasa mínum höfðu verið að velkjast fáeinir tíukrónupeningar frá því ég kom að heiman og þó að þeir væru að mestu leyti verðlausir - í mesta lagi brúk í þeim sem skífur undir nagla og bolta - þá voru þeir íslenskir og það skyldi ekki klikka að einum þeirra yrði fórnað undir mastrið.
Og nú var að því komið að mastrið skyldi síga í stellinguna. Ég var með peninginn kláran í hendinni, silfurgljáandi íslenskan tíkall, gljáfægðan, með skjaldarmerki Vigdísar og okkar allra hinna á annarri hliðinni og enn meira silfurgljáandi loðnufiskum á hinni hliðinni; ég ætlaði að læða þessum íslenska peningi svo lítið bæri á undir mastrið, helst þannig að enginn tæki eftir.
Þá í miðjum klíðum gasprar norsk rödd: „Stopp!“
Sá hafði verið með vakandi augu á því sem ég hafði verið að bauka og spurði hvað þetta ætti að þýða. Ég reyndi að útskýra fyrir honum að þetta væri gömul hjátrú heima á Íslandi og hana ætlaði ég að hafa í heiðri. Það fór sem ég óttaðist að hann fór að gramsa í vösum sínum eftir meiri peningum. Loks fann hann einn, norskrar ættar, og tróð honum undir mastrið við hlið frænda síns frá Íslandi.
Mér fannst þetta fjári hart, einhvern veginn fannst mér honum ekkert koma við hvernig íslenskir skipasmiðir höguðu sínum verkum og náði mér niðri á honum með því að skutla öðrum íslenskum tíkalli undir, rétt áður en mastrið settist, þannig að nú voru tveir íslenskir peningar og einn norskur undir mastrinu rétt áður það settist. Þannig er það enn að því er ég best veit og ekki veit ég annað en að þessi ójöfnuður frændmyntanna hafi fært Gaiu hina bestu lukku. Og mér vitanlega hafa aldrei fyrr verið settir þrír peningar undir mastur í skipi. Einn hefur verið látinn duga hingað til. En kannski þurfti þetta til þegar hún Gaia átti í hlut; hún var svo einstakt skip.
Reyndar hafði ég líka annað í pokahorninu við þetta tækifæri sem ekki mátti gleymast; annan gamlan og rammíslenskan sið. Skipasmiðurinn skyldi fara með þulu samansetta af honum sjálfum á kjarnorðri íslensku, skipinu til heilla. Þetta gerði ég ósvikið, í hálfum hljóðum, um leið og mastrið settist.
Þeir hlógu í kring um mig en ég var ánægður, þarna hafði ég fullnægt þeim serimóníum sem ég hafði lært að skyldu við hafðar við slíkar athafnir. Aftur á móti verður þessi samsetningur ekki opinberaður hér enda varla birtingarhæfur.

STÝRIMAÐURINN ILLUR OG SÁST EKKI MEIR
En nú kom að því að umtalsverðar breytingar voru gerðar á áður ákveðinni áhöfn Gaiu. Stýrimaðurinn, sem var norskur og hafði verið verkstjóri yfir okkur frá byrjun, gerðist eitt kvöldið kófdrukkinn. Þá var verið að halda upp á einhvern áfanga í undirbúningi skipsins. Þá um kvöldið brá hann sér í síma, hringdi í helstu framámenn siglingarinnar í Noregi, svartillur út í allt og alla og hellti sér yfir þá með skömmum og svívirðingum, aðallega um það hvernig staðið væri að undirbúningi.
Daginn eftir sást hann ekki og síðan aldrei meir. Hann hafði fengið sparkið.
Þetta var annars dagfarsprúður maður, sallarólegur og hörkuduglegur. Mér hafði alltaf líkað mætavel við hann; ég hafði aldrei fundið nokkra óánægju hjá honum enda kom okkur mætavel saman.
En hann átti eitthvað vantalað við forustuna og þessi varð útkoman. Auðvitað hefði verið hægt að ræða málin á annan hátt. Og ég sá eftir honum. Um kvöldið var settur fundur og þetta tilkynnt. Þá var einnig tilkynnt nokkuð sem mér kom nokkuð á óvart, ég skyldi taka við af þeim burtrekna sem stýrimaður (og seinna sem skipstjóri).
Þetta kom mér virkilega á óvart, mér fannst að ég hefði ekki sýnt það af mér, frekar en aðrir, að ég gæti tekið við þessu. Í aðra röndina fannst mér þetta hálfsúrt, Norðmannsins vegna, en auðvitað var ég líka ánægður yfir að hafa verið sýnt þetta traust. Og eftir þetta sá ég um flest það sem laut að undirbúningi ferðarinnar.

HÁTÍÐLEGUR 17. MAÍ
Það ríkti mikil eftirvænting meðal okkar þegar þjóðhátíðardagur Norðmanna, 17. maí, rann upp, upphafsdagur ferðarinnar. Að sjálfsögðu var mikið um dýrðir í Bergen þennan dag en hápunkturinn var þó þegar landfestar voru leystar á Gaiu og við lögðum af stað áleiðis til Orkneyja. Við höfðum öll klæðst viðeigandi fatnaði þennan dag, sams konar fatnaði og víkingar klæddust og það setti óneitanlega skemmtilegan blæ á allt saman. Margt fyrirmenna, bæði íslenskra og norskra, var saman komið til að kveðja okkur og þegar við sigldum út var hleypt af 21 fallbyssuskoti, okkur til heiðurs. Það fór ekkert milli mála að okkur fylgdu hlýjar óskir í upphafi ferðar.
Og nú tók alvaran við. Siglingin var hafin og lífið um borð féll í fastan farveg. Skipt var niður vöktum, sex og sex, rétt eins og á íslenskum togara. Fyrsti leggurinn var framundan, 200 sjómílna sigling frá Noregi til Orkneyja. Allt leit vel út, Gaia skreið áfram með 8 hnúta hraða í þægilegu norðankuli, seglið vel stillt og þá þurfti ekki að huga að breytingum á stefnunni næstu tímana. Hún var staðföst á stefnunni eins og í öðru, hún Gaia, lítið gefin fyrir að rása út og suður. Rétt eins og við hin um borð var hún staðráðin í að gera sitt til að klára þessa ferð.

BÖLVAÐ OG RAGNAÐ NIÐRI VIÐ KJÖL
Okkur miðaði vel áfram þennan fyrsta hluta ferðarinnar. Norðursjórinn, þetta víðlenda grunnsævi, sem getur sýnt klærnar og rokið upp með verra sjólag en víðast annars staðar, var með blíðasta móti. Og við höfðum hinn þægilegasta byr allt til Hjaltlandseyja. En þar með var friðurinn úti. Suður á Hjaltlandi skall á okkur fárviðri, rétt eins og hendi væri veifað. Við flýðum sem skjótast í var og sigldum inn til Sumburgh Head sem er syðst á Hjaltlandseyjum. Þegar við vorum að binda landfestar inni við bryggju í Sumburgh var rokið orðið svo mikið að tæplega var stætt á bryggjunni. Ég hefði ekki viljað vera einhvers staðar úti á hafi það sinnið. Það var gott að hverfa undir þiljur og hnipra sig saman í kojunni sinni með vindgnauð í eyrum, vitandi að við værum örugg þarna. Þetta óveður geisaði í fjóra daga og á meðan létum við fara eins vel um okkur og hægt var í Sumburgh. En loks þegar lægði var lagt í hann á ný. Nú var það lokaáfanginn til Orkneyja. Vindurinn var af vestsuðvestri, 15 til 20 hnútar, og við sigldum 55-60 gráður upp í vind með allt seglið uppi, alla 125 fermetrana. Eins og áður er sagt voru þrjú rif á seglinu þannig að unnt var að rifa það um tæpan helming eftir því hve hvasst var. En þarna sigldum við sem sagt upp í vind og skipið lá talsvert til bakborða. Ölduhæð var tveir til þrír metrar og við höfðum sex til sjö mílna ferð. Ég hafði af því nokkrar áhyggjur að skipið átti til að detta nokkuð niður í öldudalina á þessari ferð. En helst mátti ekki draga úr henni þar sem við vorum orðin nokkuð á eftir áætlun, áttum að vera mætt á ákveðnum tíma næsta dag á Orkneyjum þar sem beið okkar formleg móttaka.
Ég var búinn á vakt kl. fjögur um nóttina og fór þá í koju en varð ekki svefnsamt vegna braks og bresta í skipinu. Allt voru þetta þó eðlilegir traustabrestir svona framan af. En loks kom að því að hún Gaia lyfti sér að mér fannst óheyrilega hátt að framan. Ég man að ég hnipraði mig saman í kojunni, beit saman tönnum og beið eftir skellinum sem óhjákvæmilega hlaut að fylgja þessari loftferð. Hann lét ekki á sér standa og nú heyrðist hærra brak en áður hafði heyrst og nokkuð öðruvísi; brakhljóð sem mér líkaði ekki. Um mig fóru illar grunsemdir. Ég stökk fram úr kojunni, tók mér vasaljós í hönd og fór fram á. Þar reif ég upp nokkra palla og kíkti niður í kjöl. Og þetta var eins og mig hafði grunað. Um það bil tveggja metra rifur voru konar í nestu borðin sitt hvoru megin við kjölinn fremst. Slagurinn við að halda fleyinu ofansjávar var byrjaður. Meðan ég fylgdist með smíðinni úti í Noregi hafði ég gert mér grein fyrir því að svona gæti farið og hafði til þess gildar ástæður sem vikið verður að síðar. Þess vegna hafði ég orðið mér úti um sérstaka nagla og tól til að geta gert við svona lagað til bráðabirgða. Og nú var ekkert um annað að ræða en að vinda sér í verkið. Viðgerðin tók tæpa tvo tíma, bograndi niðri undir kili, meira og minna á kafi í sjó, krossbölvandi og ragnandi á íslensku. Þetta var eiginlega það sem maður síst hafði óskað eftir. En þetta hafðist og það var fyrir mestu. Og ekki efa ég að margir hefðu þeir orðið skipfeitir, púkar á fjósbitum, af öllum þeim blótsyrðaflaumi sem upp úr mér rann þennan tíma sem viðgerðin stóð yfir.
Seinna, þegar við vorum komnir til Orkneyja og vorum staddir þar uppi á krá, bað einn af hinum norsku skipsfélögum mínum mig að endurtaka það sem ég hefði bunað út úr mér meðan ég var að gera við rifurnar. Á þeirri stundu mundi ég ekkert eftir því og hváði við fyrst í stað. Svo rifjaðist þetta upp fyrir mér og ég leyfði þeim að heyra á ný þann samtvinning sem íslenskir sjómenn kannast svo mætavel við, það gamalkunna „helvítis, andskotans, djöfulsins helvíti" o.s.frv. Þetta þótti þeim fádæma fyndið og veltust lengi og vel um af hlátri yfir þessum orðaflaumi. Úti í sjó höfðu þeir haldið að hér væru viðhafðar einhverjar særingar eða galdraþulur en þarna kom svo hið sanna í ljós.
Við náðum nokkurn veginn á réttum tíma til Orkneyja og þar var tekið vel á móti okkur eins og við var að búast enda vorum við í ólíkt friðsamlegri erindagerðum en forfeður okkar sem sóttu Orkneyjar heim á sínum tíma, aðallega til að sækja sér þræla.
Ekki var þarna nein aðstaða til að gera við rifurnar sem myndast höfðu þannig að við sáum fram á að þurfa að láta bráðabirgðaviðgerðina duga þar til við kæmum til Leirvíkur. Sem betur fer var góður dælubúnaður um borð, drifinn af lítilli ljósavél og hafði vel undan að dæla út því sem enn seytlaði inn um rifurnar.