Viðar Einars Togga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Viðar Einarson, sem oft og tíðum er kallaður Viðar Togga, er einn af þeim sem gera tilveruna litríkari og skemmtilegri en ella með hnyttnum tilsvörum sínum, mergjuðum sögum og óborganlegum bröndurum. Viðar Togga er drengur góður og dugnaðarforkur til vinnu, samviskusamur og vandvirkur mjög. Eftirfarandi frásagnir af Viðari Togga skráði Árni Johnsen.

Sjónvarpið

Viðar auglýsti í einu bæjarblaðanna í Vestmannaeyjum að hann hefði til sölu lítið notað sjónvarpstæki á frábæru verði. Ekki leið á löngu þar til hringt var í hann vegna auglýsingarinnar og sá er hringdi festi strax kaup á sjónvarpinu. Þegar kaupandinn kom síðan að sækja sjónvarpið þá leist honum ekkert á það, taldi það allt of gamalt.

„Þú skalt ekki hætta við kaupin,“ sagði Viðar, „þetta er frábært verð fyrir frábært tæki.“

„En hvernig getur þú sagt að það sé lítið notað, fimmtán ára gamalt tæki?“ spurði kaupandinn.

„Lítið notað?“ sagði Viðar. „Það er mjög lítið notað. Ég hef alltaf horft einn á það.“

Lánið í Íslandsbanka

Viðar kom í Íslandsbanka til Steina stóra bankastjóra og bað um lán til að kaupa nýjan bíl. Steini kannaði stöðu mála og sagði Viðari að því loknu að hann þyrfti ekkert að taka lán, hann ætti nóg af sparifé inni á bankabókinni sinni.

Viðar leit með hneykslunarsvip á Steina og sagði:

„Hvað meinaru eiginlega, Steini, helduru að ég ætli að fara að nota mína peninga í að kaupa bíl?“


Heimildir

  • Árni Johnsen. Lífins melódí. Reykjavík: Vaka-Helgafell, 2004.