Victor Hans Halldórsson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Victor Hans Halldórsson.

Victor Hans Halldórsson úr Reykjavík, sjómaður, bifreiðastjóri fæddist þar 26. mars 1923 og lést 1. maí 2010 á Landspítalanum í Landakoti.
Foreldrar hans voru Halldór Einarsson bifreiðastjóri, f. 25. nóvember 1884 í Saurbæ í Holtum, Rang., d. 22. ágúst 1942, og Öndís Önundardóttir verkakona, síðar húsfreyja í Reykjavík, f. 15. maí 1903 í Ólafsvík, d. 31. mars 1984.
Fósturforeldri frá sex ára aldri var föðursystir Victors Ágústa Ófeigsdóttir húsfreyja í Borgarkoti á Skeiðum og frá 12 ára aldri hálfsystir hans Guðrún Ágústa Halldórsdóttir húsfreyja á Valdastöðum í Kjós.

Victor stundaði verkamannastörf og sjómennsku frá 16 ára aldri, fór til Eyja og var þar sjómaður, réri með mörgum, Sigmundi Karlssyni, Willum Andersen á m/b Skógafossi, Guðmundi Vigfússyni á m/b Voninni, Steingrími Björnssyni á m/b Jökli og síðast með Guðjóni Jónssyni í Hlíðardal á m/b Skuld.
Eftir flutning til Reykjavíkur var hann leigubifreiðastjóri hjá Bifreiðastöð Steindórs og síðar á Hreyfli. Þá ók hann langferðabifreiðum hjá Landleiðum og Vestfjarðaleið og hjá Vestfjarðaleið vann hann til starfsloka 73 ára.
Þau Jóhanna giftu sig í Eyjum 1946, eignuðust sex börn. Þau dvöldu í fyrstu á Reykjum í Eyjum, en lengst á Hjallavegi 1 og Fellsmúla 16 í Reykjavík. Victor Hans lést 2010 og Jóhanna 2017.

I. Kona Victors, (4. ágúst 1946), var Jóhanna Guðjónsdóttir frá Reykjum, sjúkraliði, húsfreyja, f. 5. júní 1922, d. 26. júní 2017.
Börn þeirra:
1. Lilja Viktorsdóttir, f. 3. febrúar 1945 á Reykjum, d. 3. mars 1945.
2. Lilja Viktorsdóttir, f. 18. maí 1946 á Reykjum, d. 6. nóvember 1953.
3. Vigdís Victorsdóttir húsfreyja, kennari, f. 15. september 1950. Maður hennar Sigurður Þorvarðarson.
4. Lilja Dóra Victorsdóttir húsfreyja, sjúkraliði, f. 19. febrúar 1956. Maður hennar Halldór F. Frímannsson.
5. Bergþóra Viktorsdóttir húsfreyja, sjúkraliði, f. 17. apríl 1957. Maður hennar Ævar Scheving Valgeirsson.
6. Guðjón Þór Victorsson viðskiptafræðingur, bankastarfsmaður, f. 25. nóvember 1959. Kona hans Aðalbjörg Benediktsdóttir.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Lilja Dóra.
  • Manntöl.
  • Morgunblaðið 10. og 20. maí 2010. Minning.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.