Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Brimurðarloftin

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


Brimurðarloftin.


Því hefur alltaf verið viðbrugðið, hve reimt væri undir Brimurðarloftum. Urðu menn þar ýmiss varir, er þeir fóru þangað til fugla eða á reka. Það var vani Árna bónda Þórarinssonar á Oddsstöðum, að vara Guðjón fósturson sinn við því, að fara undir Brimurðarloft, þegar hann sendi hann á reka suður í Brimurð. Var Árni talinn rammskygn, en fátt sagði hann mönnum af því, sem fyrir hann bar. Ekki gat hann þess við Guðjón, hvers vegna að hann vildi ekki að hann færi undir Loftin. Einhverju sinni fór Árni með háf undir Brimurðarloft. Þegar hann var kominn á hillu eina á leiðinni niður, fannst honum allt í einu svo hátt upp og niður af henni, að hann treysti sér hvoruga leiðina, og var þó ekki nema um hálfa mannhæð niður af hillunni. Kom fyrir ekki, þó hann mældi hæðina með háfsskaftinu. Þegar nokkur tími var liðinn setti hann kjark í sig og stökk niður af hillunni. Hvarf beygurinn strax úr honum, er niður kom. Árni var einn allra bezti fjallamaður í Eyjum um sína tíð, og var oftast fenginn til allra stórræða í þeim efnum. Þótti honum þetta atvik ekki einleikið. Einhverju sinni voru staddir þar þeir Kristmundur Árnason á Vilborgarstöðum og Einar Bjarnason. Voru þeir að ná í lunda í urðinni og fóru fjarri hvor öðrum. Heyrði Kristmundur þá hvað eftir annað kallað: „Hjálpaðu honum Einari!“ Og Einar heyrði margendurtekið: „Hjálpaðu honum Kristmundi!“ Heyrðu þeir þetta báðir í sama mund, og lögðu þegar af stað til þess að svipast um hvorn annan. Þótti þeim þetta ærið undarlegt, því að hvorugur þeirra hafði verið staddur í nauðum. Ekki urðu þeir varir við mannaferð, og skildu ekki hvaðan hrópin hefði komið, nema um yfirnáttúrlegan fyrirburð væri að ræða.
Annað sinn var Kristmundur staddur í Brimurðarloftum með tveimur bræðrum sínum. Heyrist honum þá kallað til sín og skilur við bræður sína og gengur eftir kallinu. Þegar hann var kominn þeim úr augsýn, veit hann ekki fyrri til en ráðizt var á hann og tekið fyrir kverkar honum. Þegar bræður hans komu til hans eftir nokkra stund, var mjög dregið af Kristmundi og farið að korra í honum, en þá hvarf þetta algjörlega og jafnaði hann sig skjótt og varð ekki meint af.
Gísli Eyjólfsson bóndi á Eystri-Búastöðum og Konráð Ingimundarson, sem þá var unglingur, fóru einhverju sinni saman á reka út í Brimurð. Upp af Brimurðarloftunum kom til þeirra mórauður hundur, sem þeir könnuðust ekki við, og voru vissir um að enginn átti í Eyjum. Var hann með lafandi eyrum og mjög ógeðslegur ásýndum. Stóð Konráði mikill stuggur af skepnu þessari og forðaðist hana eftir megni. Fylgdi hundurinn þeim heim undir Prestastein, en hvarf þeim þar. Ekki gjörði hann þeim neitt mein. Töldu þeir, að hundurinn hefði ekki verið af þessum heimi.
(Sögn Guðjóns Jónssonar og Kjartans Jónssonar).