Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1998/ Skipsstrand á Hallgeirseyjarsandi 1906
Skipsstrand á Hallgeirseyjarsandi 1906
„Það er bara Union"
Um og eftir aldamótin síðustu voru seglskip í förum milli Íslands og útlanda (Danmerkur). Í Sögu Vestmannaeyja eftir Sigfús M. Johnsen (Rvík 1946, 2. útg. 1989) segir svo frá að vöruskipið „Union" hefði flutt varning til Brydeverslunar í Eyjum, ásamt a.m.k. þrem skonnortum. 65-70 tonna. Til baka fluttu skipin fiskafurðir o.fl. til útlanda.
,,Union" var tvímöstruð skonnorta með svokölluðum bramseglum, smíðuð í Svendborg árið 1876.
Jón Pálsson minnist á „Union" í Austantórum. Hann segir „Union" lítið seglskip sem hefði sennilega stundað hákarla- og fiskveiðar að vetrinum. Svo mun hafa verið um fleiri dönsku vöruskipin.
Hinn 9. júlí 1893 skrifar Árni Filippusson, þá verslunarmaður (í bréfi):
„Union kom í gær með nóga steinolíu held jeg. „Jason" verður víst afgreiddur á morgun. Levinsen „sífulli" er ekki með Union. Stýrimaðurinn. sem var með honum í fyrra, er nú kapteinn."
Saga skonnortunnar Union var öll 19. júlí árið 1906, strandaði á Hallgeirseyjarsandi í Austur-Landeyjum. Skipshöfnin komst á land heil á húfi.
Árið 1920 var saga þessa danska skips flestum gleymd. Eitt minnti þó á örlög þessarar 30 ára gömlu skonnortu. Yfir dyrum nýstofnaðs kaupfélags var fjöl útskorin og á henni stóð: UNION. Öldruð kona þar í sveit var spurð hvað þýddi þetta Union.
„Nú, það er bara Union" svaraði sú gamla.
Frásögn Hannesar Hreinssonar
Í bréf Hannesar Hreinssonar til höfundar, dags. 26. febrúar 1974, segir svo:
„Þetta ár (1906) á útlíðandi vetri fréttist frá sýslumannssetrinu á Hofi að seglskúta með kolafarm mundi koma með vorinu og ætti að losa hana í Hallgeirseyjarsandi. Þá voru menn í Hallgeirsey beðnir að gefa skipinu auga þegar kæmi fram í maímánuð og veita því alla þá fyrirgreiðslu sem þeir frekast gætu.
Einhvern fyrsta dag í júlí var skipið komið inn á grunn. Vindur var af suðaustri og svaðabrim. Það er þarna á sveimi djúpt og grunnt þennan dag allan en hverfur um kvöldið og siglir í suðvestur. Þetta endurtekur sig eina átta daga. Á var ýmist suðaustan, sunnan eða suðvestan strekkingsvindur og svaðabrim. Allir héldu að þó svona byrjaði, þá væri sumar og sjór eftir vindi. Þá var vissa fyrir því að Jón Sturlaugsson hafnsögumaður á Stokkseyri væri um borð og ætti ekki að yfirgefa skipið fyrr en hann væri búinn að koma því á legupáss úti fyrir Hallgeirsey."
Brátt kyrrist sjór og vindar. Von á vélbát úr Eyjum. Hannes Hreinsson átti heima í Hallgeirsey og var kominn eldsnemma í Sand ásamt fleirum. Hann tekur nú við:
„Vel gekk að afgreiða mótorbátinn, enda sjór svo dauður að ekki sprakk bára á lónni, sól hátt á lofti og andvarablær af norðaustri. Meðan verið var að afgreiða bátinn sáum við að kolaskútan kom siglandi úr suðvestri miðsvæðis milli Þrídranga og Sands. Henni miðaði hægt, vindur var svo hægur að varla stóðu segl.
Þó búið væri að afgreiða bátinn biðum við í Sandi til að sjá hvað gerðist.
Skútan siglir nú öllum seglum upp í Sand, en á svo hægri ferð að hún rétt rekur hnísuna í Sandinn en er að öðru leyti á floti, snýr stefni beint í land og hreyfist ekki. Einhverjir sem í Sandi voru höfðu við orð að róa með varpakkeri fáa faðma út og þá mundi leikur fyrir tvo til þrjá menn að losa skipið með handafli. Á þetta var ekki hlustað, enginn gaumur gefinn. Skipsmenn fóru strax að binda utan að seglum. Að því búnu fóru þeir ásamt skipstjóra og hafnsögumanni heim til Guðlaugs bónda og formanns Nikulássonar.
Guðmundur, sonur Guðlaugs, var sendur samdægurs að Stóra-Hofi til Einars Benediktssonar sýslumanns með tilkynningu um strandið. Þá var enginn sími. Sýslumaður var Guðmundi samferða suður að Hallgeirsey til að skipuleggja björgun og halda sjópróf."
Réttarpróf hélt sýslumaður dagana 19. - 21. júlí og 27. - 28. júlí. Réttarvitni voru þeir Lárus J. Johnsen og Edward Frederiksen. En einmitt 20. júlí veitti Einar Benediktsson sýslumaður Gísla J. Johnsen verslunarleyfi í Hallgeirsey. Lárus var bróðir Gísla og Edward frændi hans. Líklegt að þeir hafi verið í Hallgeirsey á vegum verslunar Gísla, t.a.m. við ullarmóttöku. Umsvif hans voru þó ekki mikil í Hallgeirsey. Fjórtán árum síðar varð Hallgeirsey aðalverslunarstaður mikils hluta Rangárvallasýslu: Kaupfélag Hallgeirseyjar.
Sýslumaður kom á strandstað kl. 5. Skipið stóð þá beint og rétt í fjörunni, fast í sand með stefni að landi. Farmur enn í skipinu en farangur og nokkrir skipverjar komnir í land. Skipverjar voru sex. Morten H. Mortensen var skipstjóri og Rasmus Stose stýrimaður. Enn fremur var um borð Jón Sturlaugsson sem átti að vega út kol þegar uppskipun hafði farið fram.
Guðlaugur Nikulásson kom í réttinn. Taldi ekki fært að bjarga góssi. Skipið liggi á versta stað fyrir innan eyri eða grunnboða og brýtur á því hvað lítið sem er að sjó. Jón hafnsögumaður kvaðst hafa lent með áhöfnina á skipbátum. Í ólögum var ófært.
Samkvæmt fyrirspurn til Veðurstofu var veðri svo háttað 19. júlí 1906:
Kl. 8 að morgni: logn, léttskýjað.
Kl. 2 (14): suðvestan 2, léttskýjað, hiti 11,5°.
Kl. 9: norðan 1, léttskýjað, hiti 9,5°.
Mortensen skipstjóri áleit að allt sem unnt var hefði verið gert til að bjarga skipinu og óskaði opinberrar meðferðar vegna strandsins. Farmur skipsins var 240 tonn af kolum og 50 tunnur steinolía. 80 tonn af kolunum áttu að fara upp í Landeyjar, hitt til Stokkseyrar. R. Levinsen var aðaleigandi skipsins, líklega sá „sífulli" sem Árni Filippusson nefndi svo.
Hinn 21. júlí tók sýslumaður skýrslu af skipstjóra í lögreglurétti Rangárvallasýslu, að viðstöddum réttarvottum sem töluðu dönsku. Skipstjórinn skýrir svo frá:
„Hinn 19. júlí, kl. 7.30 að morgni, var skipið á leið frá Stokkseyri til Landeyja. Í suðvestur af Hallgeirsey lét skipið ekki að stjórn og stefndi beint á land. Stýrið var þá lagt hart í bakborða en þar sem skipið lét ekki að stjórn hélt það áfram stefnu á land. Var þá reynt að koma út akkeri, en í sama bili tók skipið niðri, sennilega á rifi, þá var lágsjávað og nokkurt brim við sandinn. Um leið og skipið tók niðri var sett út akkeri með 70 faðma festi en það hélt ekki. Skipið hélt áfram að „höggva" og færðist nær landi. Var þá dregið upp flagg til merkis um að aðstoðar væri óskað. Kl. 9.30 komu fimm menn af landi niður að ströndinni, en þá var ekkert hægt að gera vegna brims. Skipið hélt áfram að stingast á endum til kl. 5 (17) en þá hafði fjarað svo mjög að skipið stóð hreyfingarlaust í flæðarmálinu."
Þá er hér var komið var lögreglustjórinn kominn á strandstað. Að gefnu tilefni skýrir skipstjóri svo frá að straumar hafi valdið því að skipið lét ekki að stjórn. Enn fremur tekur hann fram að hann hafi haldið skipinu svo nærri landi vegna þess að þar átti að skipa á land hluta farmsins. Fyrirspurn svarar hann svo að hann sé eigandi tíundaparts í skipinu. Það var endurbyggt árið 1900 fyrir mun hærra verð en það er tryggt fyrir.
Þá komu fyrir réttinn allir aðrir af áhöfn skipsins, reiðubúnir að staðfesta með eiði framburð skipstjórans. Eiðtaka fór fram.
Þennan sama dag hafði tekist að bjarga 50 tunnum af olíu (allri), seglum og nokkru öðru. Guðlaugur bóndi í Hallgeirsey stjórnaði björgun verðmæta með nokkrum mönnum. Hreppstjóri var Gunnar Andrésson bóndi í Hólmum. Hann var í Eyjaferð. Þá var ákveðið í samráði við skipstjóra að uppboð yrði haldið 28. júlí.
Hinn 27. júlí var Einar sýslumaður kominn aftur suður að Hallgeirsey. Tafðist nokkuð því að Þverá var ófær nema á ferju. Gunnar hreppstjóri var þá tekinn við að stjórna björgun og hafði með sér 12 manna flokk. Þá um nóttina náðist talsvert af kolum um fjöru. Skipið lá nú út til sjávar og aðstaða vond.
Kolapokum var fleygt í sjó og svo hirtir upp. Á fimmtudagsnótt unnu 24 menn við kolin. Var það síðasta tækifærið því að um morguninn hvessti og gerði óveður með sandfoki. Þó var náð undan sjó plönkum sem flutu um allt.
Föstudag 27. júlí. Sýslumaður og hreppstjóri fóru fram að skipinu. Var þá mikið brotið á stjórnborða er hálft þilfarið úr skipinu og öll kolin flotin úr því nema lítill slatti fram í skipinu, en hættulegt að fara um borð til vinnu. Kol, sem komin eru á land, voru lítill hluti farmsins.
Sýslumaður undirbýr uppboð sem auglýst er um alla sýsluna og mestu verslunarstaði og hefst kl. 12 á hádegi laugard. 28. júlí.
Áður voru dómkvaddir til að segja álit sitt um strandaða skipið, Union, þeir Guðlaugur Nikulásson og Gunnar Andrésson hreppstjóri „og hjálpi þeim guð og hans heilaga orð".
Urskurður þeirra hljóðaði svo:
„Þilfarið er úr skipinu á stjórnborða fram að miðmastri. Miðsiglan farin úr stellingu. Stjórnborðshliðin gengin úr lagi og plankar gengnir út úr bakborðshlið. Við álítum ekki einungis ómögulegt að taka skipið út heldur einnig að það sé með öllu ómögulegt til viðgerðar þó tæki væru til þess. Dæmum við því skipið að sjálfsögðu algjört strand."
Eftir strandið
Fjöldi skipa bar beinin við Suðurstöndina. Strand var guðsgjöf, sér í lagi ef allir komust af. Fjöldi bæja naut góðs af strandi, í þeirra hlut kom margt ætt og óætt og kannski eitthvað gott sem mátti drekka.
Hannes Hreinsson (1892-1983) segir nú frá því sem gerðist eftir strand. Hannes var skýrleiksmaður og minnið traust. Hann var náfrændi Árna hreppstjóra í Stakkagerði, Þórðar biskups í Utah og þeirra systkina. Hann sagði að nokkru eftir strandið hafi hann gengið í austur:
„Skipinu sló flötu, stórt gat brotnar á miðsíðu sjávarmegin og kolin fljóta út og vestur allar fjörur, allt vestur á móts við Skipagerði (bær vestarlega í Út-Landeyjum).
Eftir fyrstu nóttina sást hvað að líkindum hefur valdið strandinu. Skipið var á blettum grautfúið og sagt lekt, en allt nýtt ofandekks, möstur, segl og þilfar, enda varð lítið úr sjóprófum eftir að skipið brotnaði og innviðir sáust. Fljótlega var hafist handa að ná þeim kolum sem sjórinn skolaði ekki á land. Nokkuð af þeim var selt á uppboði, en sumir, sem voru á uppboðinu, keyptu lítið en voru þó ekki eldiviðarlausir.
Svo átti að selja skipið í opinberu uppboði. Um 20 menn sammæltu sig og skyldi einn bjóða fyrir alla. Þetta voru aðallega Austur-Landeyingar, Fljótshlíðingar, Hvolhreppingar og Rangvellingar. Einar Jónsson, alþingismaður á Geldingalæk, bauð í skipið og kostaði það með legufærum og öllu ofandekks 320 krónur. Áttu allir jafnan hlut.
Möstur, segl og legufæri seldu hluthafar aftur Ólafi Árnasyni kaupmanni á Stokkseyri fyrir meira virði en skipið kostaði með rá og reiða.
Segl og keðjur voru flutt til Stokkseyrar á fjórhjóluðum vagni, en möstrum var fleytt aftan í skipi til Reykjavíkur. Svo var farið að rífa skipið og lenti mest á okkur í Hallgeirsey. Við vorum næstir og gripum hvert tækifæri sem bauðst. Verst var áhaldaleysið til að byrja með. Fyrst var þilfarið rifið, svo var höggvið á vanta og möstrin látin falla, allur stýrissaumur var úr eir. Kjölboltar úr kopar, 30 þumlunga langir og gildir sem tveggja tommu rör. Þessi málmur var mjög eftirssóttur af þeim sem þá voru að steypa ístöð og beislisstangir.
Þetta strand var mesta happasending. Hjá okkur (í Hallgeirsey) var byggt íbúðarhús, öll húsgrindin var úr eik, brenni og furu. Við byggðum líka lambhús og þrjú hesthús í vesturrönd bæjarins og stafir og árefti allt úr eik. Mest af þessu timbri var flutt heim á dráttarsleðum á ís. Svo var sett upp hálfgerð sögunarstöð."
Eins og fyrr segir voru ekki langdregin sjópróf. Skipstjóri mun hafa talið skipið ósjófært og strandið dæmt á þeim forsendum. Strandmenn voru rúma viku í Hallgeirsey en Mortensen skipstjóri dálítið lengur. Farangur skipverja var fluttur á þrem hestvögnum til Reykjavíkur. Sjálfir fóru þeir ríðandi með fylgdarmanni eða mönnum.