Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1994/Töfrar fjörunnar
Töfrar fjörunnar
Hafsteinn Stefánsson, sem sendi blaðinu þetta efni, þarf ekki að kynna fyrir Vestmanneyingum sem komnir eru á miðjan aldur. Hafsteinn er Austfirðingur, fœddur 31. mars 1921 á Högnastóðum við Eskifjörð, en fluttist til Vestmannaeyja 1943. Stundaði sjómennsku og var þá stýrimaður og skipstjóri, einnig var hann lœrður skipasmiður og vann við skipasmíðar í allmörg ár. Hafsteinn var skipaeftirlitsmaður frá 1969-73. Hann fluttist frá Vestmannaeyjum eins og margir í gosinu 1973. Kona hans er Guðmunda Gunnarsdóttir Marels. Sjómannadagsblað Vestmannaeyja þakkar Hafsteini fyrir þetta efni og annað sem hann hefur sent blaðinu á undanförnum árum.
Stundum hendir það undirritaðan að fara með veiðistöng og tilheyrandi búnað fram í Ölfusárós við Óseyrarnes. Þá er farið með aðfallandi sjó og reynt að fanga sjóbirting. Það væri nú ekki alveg rétt með farið ef ég segði að veiðin væri alltaf mikil, en að ýmsu öðru leyti eru þessar ferðir ánægjulegar og gefandi.
Fjaran býr yfir sínum töfrum, óendanlegum ævintýrum. Tilurð kvæðisins, sem ég sendi að þessu sinni Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja, bar að með þeim hætti að ég var staddur fram á Óseyrarnesi. Veðrið var bjart og því gott skyggni yfir stórt sögusvið. Þarna mátti sjá yfir fiskimið gömlu áraskipanna sem róið var út frá höfnum Árnessýslu, vestur á Selvog og svo langt til hafs og til austurs sem augað eygði.
Í Vestmannaeyjum hafði ég kynnst mörgum dugmiklum hugprýðismönnum sem ungir höfðu sjóast á þessum miðum. Þessir menn fluttust síðan út í Eyjar og lögðu sína krafta fram við uppbyggingu þessa mikla fiskibæjar. Þess skal getið, og því ber vissulega að fagna, að þeir létu eftir sig afkomendur sem staðið hafa vel fyrir sínu.
Ekki er auðvelt að gera sér glögga grein fyrir vinnuháttum þeirra manna sem sóttu sjó á þess¬um stöðum fyrir meira en heilli öld. Þrautseigir, glöggir og bjartsýnir hafa þeir verið og þá hlýtur trúin á almættið að hafa veitt þeim styrk. Trúin á litla súðbyrðinginn, árarnar, seglin og fyrst og síðast guð, því engin voru öryggistækin.
Frá Eyrarbakka og út í vog er það
mældur vegur.
Átjánhundruð áratog
áttatíu og fjegur.
(Höf. ókunnur.)
Þess ber að geta að góður vinur minn, listamaðurinn Ólafur Th. Ólafsson, kennari á Selfossi, teiknaði myndirnar sem fylgja kvæðunum. Ég bið Vestmanneyingum öllum velfarnaðar í störfum og guðs blessunar.
- Hafsteinn Stefánsson