Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1994/Geisli 20 ára
Geisli 20 ára
Haustið 1973 stofnaði Tóti sendill Geisla. Hér í Vestmannaeyjum var þá nýlokið gosi og byggðin að vakna til lífsins eftir stórátök við móður náttúru. Gífurleg vinna var framundan við hreinsun bæjarins og enduruppbyggingu atvinnulífs. Um vorið, á loðnuvertíð, þegar gosið stóð sem hæst, fannst skipstjórum loðnubátanna ekki fýsilegt að fara inn til Vestmannaeyja til að landa. Til að fá þá til að landa hér var tekið það ráð að bjóða þeim viðgerðarþjónustu og Þórarinn fenginn til að annast hana. Þegar svo Viðlagasjóður tók yfir þessa þjónustu fylgdi Þórarinn með. Um haustið stofnar hann svo Geisla og var fyrirtækið fyrstu árin í „keleríinu“ sem kallað var, en það var kennt við Halla Kela.
Hugmyndin var að þetta yrði svo sem tveggja manna vinnustaður, fyrir Þórarin og einn starfsmann, en strax árið 1975 voru starfsmenn orðnir átta og „keleríið“ orðið allt of lítið. Þá var ekkert að gera annað en að byggja og sama ár hefst bygging hússins við Flatir. Ekki gekk það þrautalaust en upp komst húsið að lokum og haustið 1976 flytur fyrirtækið í húsnæðið og þar er það enn. Þegar flest var voru um 20 starfsmenn hjá Geisla enda annast fyrirtækið verkefni langt út fyrir sína heimabyggð, t.d. hefur fyrirtækið séð um raflagnir í hús Krabbameinsfélagsins og Kringluna í Reykjavík.
Á þessum tímamótum eru starfsmenn ellefu talsins og verkefnastaða góð.