Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1994/Breytingar á Frá VE 78

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Breytingar á Frá VE 78

Gerðar í Skipalyftu Vestmannaeyja Hf.

Í nóvember sl. lauk breytingum á Frá VE 78 sem áður hét Frigg VE 41. Skipið var smíðað í Campbelton í Skotlandi árið 1977, en Jóhannes Kristinsson keypti skipið frá Færeyjum 1981 og skírði það Helgu Jóh. Frár hf., sem er í eigu Óskars Þórarinssonar og fjölskyldu, keypti skipuð sl. vor af Vinnslustöðinni hf. og var þá ákveðið að fara í umfangsmiklar breytingar á skipinu. Samið var við skipalyftuna um breytingarnar og samningurinn undirritaður 5. apríl 1993. Helstu breytingar sem gerðar voru á skipinu voru þessar: Sett var í skipið ný og glæsileg brú og var henni lyft um 2 metra til að skapa sem besta vinnuaðstöðu á veðurþilfari. Öll tæki, sem voru í gömlu brúnni, voru flutt yfir í þá nýju, auk þess voru sett nokkur ný tæki, svo sem gíróáttaviti, dýptarmælir og siglingatölva af nýjustu gerð. Byggt var yfir aðalþilfar og togbúnaður, sem var á aðalþilfari, var fluttur upp á efraþilfar, en togvíraspil eru á milliþilfari. Vindukerfi skipsins var að verulegu leyti endurnýjað og sett í skipið fótreipistromla, útdráttarvinda og tvær hjálparvindur ásamt nýjum þilfarskrana.<br> Smíðaður var nýr skutur á skipið ásamt tog- og pokagálga. Fiskmóttaka var sett á millidekk og komið fyrir nýju aðgerðarkerfi. Þá var sett á skipið perustefni og stefni endurnýjað. Einnig var settur á skipið kassakjölur. Fremst á millidekkið var settur nýr borðsalur, stakkageymsla auk þess var eldhús og mestur hluti íbúða skipsins endurnýjað, allt mjög vistlegt og vel fyrir komið. Aftast á millidekki var komið fyrir viðgerðarverkstæði.
Árið 1988 var sett ný aðalvél í skipið ásamt ljósavélum, rafmagnstafla og rafkerfi endurnýjað. Það má því segja að Frár VE 78 sé nú eins og nýtt skip, öll vinna og frágangur er til fyrirmyndar og þeim iðnaðarmönnum til sóma sem unnu að breytingunum. Eins og áður sagði var aðalverktaki Skipalyftan hf. og sá hún um alla járnavinnu, vélavinnu, hönnun og yfirumsjón með verkinu. Helstu undirverktakar voru Geisli sem sá um alla raflagnavinnu. Skipaviðgerðir sáu um alla trésmíðavinnu, Vélaverkstæðið Þór smíðaði aðgerðarkerfið, Nippill sf. sá um miðstöðvarkerfið.<br>
Á meðfylgjandi myndum má sjá hvernig til tókst. Þetta er orðið glæsilegt skip sem vonandi á eftir að skila miklum afla á land í framtíðinni. Megi gæfa fylgja skipi og skipshöfn um ókomin ár.