Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1991/Tölvur

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Tölvur

Í sjómannadagsblaði Vestmannaeyja hafa oft birst ritgerðir eftir nemendur Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum, þá oftast lokaritgerðir þeirra í íslensku þar sem þeir hafa skrifað um mál sem tengjast sjómennsku á einhvern hátt. Þarna hefur oftast verið fleyttur rjóminn ofan af ritsmíðum nemenda, valdar þær ritgerðir sem kennara og prófdómanda hafa þótt bera af öðrum. Víst er og að margar af þessum ritgerðum hafa verið ágætlega vel gerðar, mikil vinna lögð í þær og býsna góðan fróðleik af þeim að hafa. Umsjónarmaður þessa blaðs, sem hefur m.a. af því sitt lifibrauð að kenna nemendum Stýrimannaskólans íslensku, fer seint ofan af þeirri skoðun að skipstjórnarmönnum sé ekki síður nauðsyn, auk siglingarfræða, að kunna að gera skil og koma á framfæri skoðunum sínum á vönduðu máli. Oft er það að jafnvel hin bestu mál vekja ekki athygli, sé skrifað um þau kauðalega eða á lítt áhugavekjandi hátt. Einn af þáttum íslenskukennslu er og á að vera að temja mönnum vinnubrögð sem færa þá nær því marki að koma skoðunum sínum á framfæri á sem frambærilegastan hátt.

Eitt af tækjum nútímamannsins er tölvan. Hvort sem mönnum er það ljúft eða leitt, verður að viðurkenna að þetta tæki er að verða æ snarari þáttur í daglegu lífi manna, jafnt til sjós og lands. Skólakerfið fer ekki varhluta af þeirri þróun og tölvubúnaður þykir orðið sjálfsagður í flestum skólum nú á dögum. Fyrir u.þ.b. fimm árum stóðum við í Stýrimannaskólanum frammi fyrir þeirri staðreynd að ekki yrði lengur umflúið að veita nemendum fræðslu um þessa gripi og einhverja kennslu í notkun þeirra. Nú er Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum ekki ýkja efnuð stofnun og tölvuvæðing hefði orðið fullstór biti að kyngja. Okkur datt þá í hug af fara ódýrari leið að markinu, leita eftir notuðum tækjum og náðum að kaupa inn fimm gamla "hlunka" af Applegerð, tölvur sem vissulega eru ekki það fullkomnasta á markaðnum í dag en hafa þjónað hlutverki sínu ágætlega hjá okkur sem byrjendakennslutæki í tölvufræðum.
Því miður eru allt of fáir tímar vikulega sem varið er til að kenna nemendum á þessi tæki og enn sem komið er eru það einungis nemendur II. stigs sem fá kennslu á þær. En raunin er sú að margir þeirra sem koma í skólann hafa talsverða kunnáttu í meðferð slíkra tækja og getur það létt þeim námið á marga lund.

Notkun þessara tækja þjálfar ekki einungis skyn nemenda fyrir tæknibúnaði yfirleitt, heldur er hér hægt að nýta tækin til annarra greina. T.d. eigum við tvö ágæt forrit til þjálfunar í ensku auk þess sem hver tölvutími er æfing í íslensku og gefur góða möguleika til þjálfunar í ýmsum þáttum móðurmálsins. Eitt af verkefnum II. stigs nemenda á hverjum vetri er að semja ritgerð um tölvur og vinna þær ritgerðir á tölvur. Umsjónarmanni Sjómannadagsblaðsins flaug í hug að e.t.v. hefðu lesendur blaðsins gaman af að sjá nokkur "hugverk" manna frá þeim vettvangi. Sjá að sjómenn geta skrifað um önnur efni en þau sem alfarið tengjast sjómennsku. Sjá að sjómenn þurfa ekki endilega að "kaupa"sér einhverja "skríbenta" í landi til að koma skoðunum sínum og hugsunum á framfæri. Sjá að sjómenn geta skrifað vandað mál og stílfært þegar sá gállinn er á þeim. Því látum við hér flakka nokkrar ritgerðir sem nemendur II. stigs skráðu inn á tölvuskjái nú í vetur og viðfangsefnið var: Tölvur.

Jóhann B. Benónýsson:

Jóhann B. Benónýsson

Tölvur
Tölvur eru óðum að ryðja sér til rúms í okkar nútíma þjóðfélagi. Margir nefna 20. öldina tölvuöld vegna stórstígra framfara á því sviði nú síðustu árin. Fyrstu tölvurnar sem komu fram á sjónarsviðið voru ekki nándar nærri eins fullkomnar eins og þær sem við eigum að kynnast í dag. Það sem þótti næstum fullkomið í gær, þykir úrelt í dag, svo ör er þróunin. Nú er hægt að fá þessa fínu tölvu í rassvasann, áður fyrr þurfti minnst fjörutíu fermetra undir jafnfullkomna tölvu sem átti að þjóna sama tilgangi. Þróun tölvunnar felst aðallega í því að auka geymslurými og vinnsluhraða en hafa þær samt sem minnstar, samt sem áður hafa framleiðendur kostað miklu til þess að meðferð tölvunnar yrði sem allra auðlærðust og öll verk notanda skjótunnari en áður hafa þekkst. Upphaflega var tölvunni ætlað það hlutverk að fækka starfsfólki og auka afkastagetu hvers einstaklings fyrir sig þannig að framleiðslugeta fyrirtækisins skertist ekkert, þrátt fyrir fækkun starfsfólks og sparnaðar í sambandi við launagreiðslur. Þrátt fyrir marga góða kosti tölvunnar verður ekki litið framhjá þeirri staðreynd að hún getur aldrei komið í stað mannsins vegna þess að allt sem tölvan framkvæmir er frá manninum komið, því ennþá getur tölvan ekki hugsað sjálfstætt (kannski er það okkur fyrir bestu.)
Í dag eru tölvur komnar á nær hvern einasta vinnustað og einnig á fjölmörg heimili til einkanota. Þær eru ekki einungis ætlaðar sérmenntuðu fólki til notkunar við sérstök störf, heldur eru þær sniðnar þannig að jafnt ungir sem aldnir geti notað þær til leiks og starfs. Einnig má minnast á þann hóp í þjóðfélaginu sem hefur ekki hvað síst þörf fyrir tölvurnar en það eru þeir sem eiga við mikla fötlun að stríða (fjölfatlaðir) og hafa þar af leiðandi ekki átt mikla möguleika á að tjá sig. Gott dæmi um eitt slíkt tilfelli er ungur maður að nafni Christopher Nolan. Hann hafði árum saman verið læstur ofan í líkkistu eigin líkama, en með hjálp tölvunnar komst hann í samband við umheiminn og skrifaði lífssögu sína "Undir augliti klukkunnar" sem hlaut einróma lof gagnrýnanda og fjölda eftirsóttra verðlauna um allan heim.

Tölvur hafa einnig til dæmis aukið til muna öryggi og þægindi sjómanna en það felst aðallega í nýtískulegum tækjum til siglinga og staðsetninga. Einnig er tilkynningaskyldan hér á landi að taka upp mjög háþróaðan búnað sem auðveldar mönnum þar að fá nákvæma staðsetningu á skipum við Ísland. Þar geta menn strax séð ef hættu hefur borið að. Þetta eykur ekki bara öryggi sjómannanna sjálfra heldur einnig vina og ættingja. Það sem ég held að tölvum sé helst til lasts er það hvað þær geta verið miklir tímaþjófar, þá aðallega hjá börnum sem geta setið tímum saman við svokallaða sjónvarpstölvuleiki sem eru til á mörgum heimilum. Tölvur þessar stela bæði tíma frá skólabókum og hollri og góðri útivist. Í þessari stuttu grein minni hef ég stiklað á stóru um tölvur og notkun þeirra þó svo að ég sé hinn mesti tölvubjáni. Þrátt fyrir það vona ég að þið hafið haft gagn af og einnig nokkurt gaman.

Njáll Kolbeinsson:

Njáll Kolbeinsson

Skáktölvan mín
Til eru margs konar tölvur en það er ekki ætlun mín að kafa ofan í allar þær tegundir sem til eru eða þá tækni sem er þar á bakvið. Ég ætla aðeins að fjalla um skáktölvu. Skáktölvuna mína.
Sumarið 1989 fór ég í siglingu til Englands á Gullberginu VE og eitt af því sem ég keypti var skáktölva. Það var þannig að við fórum nokkrir saman í stóra raftækjaverslun sem þar er þ.e.a.s. í Englandi (Grimsby) og þar sem ég ráfaði um kom ég auga á skáktölvuna á tilboðsverði og keypti hana að sjálfsögðu. Þetta er ágætis gripur með átta styrkjum, sem hafa nú ekki allir verið kannaðir, einnig er hægt að taka leiki til baka og hefur það komið sér mjög vel. Ég sem sagt keypti hana og þegar við strákarnir komum um borð tók ég hana úr umbúðunum og fór að prufa. Kom þá í ljós að ég er ekki mikill skákmaður þar sem tölvan vann mig alltaf mjög auðveldlega á fyrsta styrk. En þá uppgötvaði ég einn möguleika í viðbót sem sagt; það var hægt að láta tölvuna taka við minni stöðu og ég tók við hennar og fór nú allt að ganga betur. En þessi tölva, þ.e.a.s. skáktölvan mín, hefur verið mjög góður félagi úti á sjó. Ég hef notað hana mikið og lært nokkuð af því, er meira að segja farinn að tefla við hana á 3. styrk, einnig hafa skipsfélagarnir fengið að kenna á henni og hafa bara nokkuð gaman af.
En sem sagt þá má nota tölvur sér til skemmtunar og dægrastyttingar. Tölvur eru einnig notaðar í öðrum og alvarlegri tilgangi svo sem við alls konar útreikninga, bókhald, í fiskleitartæki, í staðsetningartæki o.s.f. o.s.f. en eins og ég hef áður sagt ætla ég ekki út í þá sálma. Skáktölvan mín; já skáktölvan mín; ég er nefnilega farinn að vinna hana á 3. styrk og um daginn reyndi ég með okkur á 4. styrk. En sem fyrr er þessi indæli takki sem maður ýtir á og einfaldlega skiptir um stöðu við hana blessaða þegar henni gengur illa eða þannig sko.
Nóg um það.

Ágúst Kárason:

Ágúst Kárason

Tölvutal
Ef skrifa ætti greinargóða ritgerð um tölvur tæki það meiri tíma en okkur er gefinn hér í tölvutímunum. Þess vegna hef ég ætlað mér að skrifa eina stutta sem nær kannski yfir það helsta sem gerst hefur frá því að fyrsta tölvan var gerð. Fyrsta tölvan var heljar mikið bákn sem tók mikið pláss. Var þetta svokallaður "Diffurreiknir", var hann smíðaður 1930 og notaður til að reikna afleiðingajöfnur og í síðari heimstyrjöldinni var hann notaður til að reikna feril byssukúlna. Hann var að mestu leyti úr járni og af myndum að dæma var þetta lítið annað en raðir af öxlum og tannhjólum. Seinna var bætt í hann rafrofum og var þá rafreiknirinn á næsta leiti.

Útvarpslampar voru notaðir í næstu kynslóð tölva. Voru þeir mun hraðvirkari en eldri gerðir og mun fjölhæfari en lítið minni. Stóra stökkið kom síðar með tilkomu smárans (transistor). Minnkuðu þá allar einingar tölvunnar gífurlega og hafa verið í örri þróun síðan. Að bera saman eina af fyrstu tölvunum og nýjustu gerðir í dag er ekki hægt því þróunin hefur verið svo gífurleg. Hvert sem litið er; allstaðar sér maður tölvur í hinum ýmsu formum og ætla ég nú að segja frá minni reynslu og mínum skoðunum á þessum töfratækjum.

Fyrstu kynni mín af tölvum voru þegar vinur minn fékk í jólagjöf svokallað sjónvarpsspil. Gátu menn spilað eins konar fótbolta auk annarra boltaíþrótta og haft af því mikla skemmtan. Árin liðu og áhuginn á fótboltaspilinu dvínaði ekki fyrr en flugstöðvar og aðrir almenningsstaðir fylltust af tölvuspilakössum. Varð pyngjan æði létt við heimsóknir á slíka staði og var það því kærkomið þegar bróðir minn fékk sér litla heilistölvu (Sinclar Spectrum) og var þá hægt að hamast í henni án þess að eiga á hættu að verða gjaldþrota. Fleiri gerðir fylgdu í kjölfarið og ekki var laust við smá leiða á tilbreytingarleysi og einhæfni leikjanna sem þeim fylgdu. Af ofantöldu mætti ætla að ég hafi verið forfallinn tölvuleikjafíkill!
Unglingsárin runnu sitt skeið á enda og kom þá lægð í tölvumálið. Það var svo ekki fyrr en fyrir tveim árum síðan að allt fór af stað aftur. Hafði ég verið áhugamaður um tónlist og átti þrjú hljómborð þegar ég rakst á auglýsingu í blaði um tónlistarforrit fyrir vissa gerð tölvu. Var nú rokið upp til handa og fóta og tölvan með forritinu keypt í snarhasti. Seint mun ég sjá eftir þeim kaupum því að möguleikar tölvunnar og forritsins eru með ólíkindum. Hægt er að kaupa í tölvuna fjölmargar gerðir forrita af ýmsum toga s.s. ritvinnslu, teikniforrit fyrir arkitekta, ættfræðiskrár ásamt heilmörgu öðru sem ekki verður tíundað hér.

Tónlistarforritinu verður ekki lýst hér þar sem það yrði löng og leiðinleg upptalning á flóknum og illskiljanlegum aðgerðum. Um nytsemi tölva væri hægt að skrifa heila bók en ég ætla rétt aðeins að minnast á siglingar í því sambandi. Velflest siglingatæki um borð í nýtísku skipum í dag eru ekkert annað en tölvur og því ekki seinna vænna en að leyfa stýrimannanemum að fá smá nasasjón af tölvum og tölvuvinnslu. Mín reynsla er sú að gamlir skipstjórar kunna hreinlega ekki á þessi nýju tæki og reyna lítið sem ekkert að læra á þau. Aðeins menn nýútskrifaðir úr Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum virðast hafa einhverja þekkingu á þeim og sýnast hafa gaman af að fikta í tökkunum sem þeim fylgja. Því segi ég það, að þó að sú reynsla sem nemendur hér fái í tölvutímum sé misjöfn, þá sé hún vel þess virði að menn setjist niður með tölvu sér við hönd og skrifi smá tölvuritgerð.

Gísli P. Ingólfsson:

Gísli P. Ingólfsson

Tölvur til gagns og gamans
Fyrir skemmstu var oss nemendum fengið það verkefni að skrifa ritgerð um tölvur. Það kom eins og þruma úr heiðskíru lofti fyrir mig sem veit lítið sem ekkert um þessa gripi, en samt ætla ég hér á eftir að reyna að koma smá fróðleik um þær á blað. Mínar fyrstu minningar um tölvur eru síðan á mínum yngri árum, er flestir félagar minna áttu tölvur sem heita Sinclair Spectrum og voru og eru sennilega enn vinsælar mjög. Aðallega voru þær notaðar fyrir leiki, en sumstaðar notuðu góðar húsmæður þær einnig fyrir heimilisbókhaldið. Ekki náði neinn sérstakur áhugi að skjóta rótum hjá mér, því að ég var meira fyrir útileiki en að sitja náfölur og sljór inni og leika mér í Pac man.

Tölvur eru eins og flestir vita að ryðja sér til rúms í flestum atvinnugreinum í meira eða minna mæli. Ég tel það af hinu góða enda spara þær mikla vinnu og fyrirhöfn, þó geta komið upp vandamál með þær eins og annað, þær geta klikkað eins og annað. Þar sem ég er sjómaður er mér efst í huga að fjalla um tölvur í því sambandi. Í mörgum norskum nótaskipum eru nótadragararnir tölvustýrðir, þannig að tölva sér um að rétt víralengd sé úti þó að sé bræla og þó að beygt sé. Eins sér hún um að átak á víra verði ekki of mikið svo sem í festum og passar að hífa ekki skarpar inn en vírarnir þola. Tölvur eru einnig notaðar við siglingu skipanna yfir höfin. Fyrst ber að nefna Loran tækin sem hafa verið í skipum í mörg ár . Þau taka á móti sendingum frá stöðvum í landi og reikna út staðarákvörðun eftir upplýsingunum sem hún fær. Lorantækin eru ekki mjög nákvæm og á sumum stöðum, s.s. nálægt fjöllum og víðar, má passa sig á að taka tækin ekki of trúanlega.

Nú eru fyrir nokkru komin á markað enn nákvæmari tæki en Loraninn, en það eru G.P.S. tækin. Þau taka á móti sendingum frá gervihnöttum og reikna út stað út frá því. Fleiri tæki má nefna s.s. "plotter" sem sýnir í lengd og breidd staðinn sem skipið er statt á, miðað við útreikninga Lorantækisins.
Radarar verða æ fullkomnari og eru margir þannig útbúnir að þeir sýna hvar skipið er statt í lengd og breidd. Eins og sjá má eru tölvur orðnar stór þáttur í störfum sjómanna og eiga vafalaust eftir að verða enn stærri þáttur er fram líða stundir.

Jóhannes Sigurðsson:

Jóhannes Sigurðsson

Hluturinn
Í þessari grein ætla ég að lýsa þekkingu og reynslu minni á tölvum, þannig að hún verður sennilega stutt.!
Tölvur hafa á síðustu árum verið að ryðja sér til rúms á markaðnum, því þær hafa sannað notagildi sitt. Þær voru dýrar fyrst í stað þegar þær komu á markað en með aukinni samkeppni og þróun tölvufyrirtækja, lækkuðu þær mikið og nú er svo komið að hægt er að fá fullkomnar tölvur fyrir lítinn pening.

Mín fyrsta snerting á tölvu var þegar ég var í yngri deild gagnfræðaskóla og var það lítil reiknitölva sem ég bar enga virðingu fyrir. Það var ekki fyrr en ég kom í 9. bekk að ég komst fyrst í svona "tipikal" heimilistölvu, sem var þá notuð sem kennslutölva á héraðskólanum á Laugum. En þar sem ég var ekki á réttri braut, var mér ekki veitt sú aðstoð sem ég þurfti til að læra á gripinn. Það var nú í lagi því að ég djöflaðist þeim mun meira í tölvuleikjunum. Haustið eftir eignaðist ég svo litla ódýra tölvu sem hét Sincler spectrum 48K, hana tengdi maður við sjónvarp og með segulbandi hlóð svo maður forritin inn í hana með agalegum látum. Það eina sem ég þurfti að gera var að stimpla inn í hana "LOAD" og ýta svo á Enter takkan, setja segulbandið í gang og þá kom leikurinn inn. Það var gaman að spila á þessa tölvu því bæði var grafíkin góð og svo kostaði leikurinn ekki neitt.

Einnig var hægt að fara inn í forritið og breyta því, þannig að maður var ekki eins fljótt úr leik. Frá því ég eignaðist tölvuna, fann ég fljótt einn stóran galla á henni og hann var sá hvað þetta litla apparat getur stolið miklum tíma frá manni, það náði svo langt að maður gat verið í henni frá morgni til kvölds, allt þangað til fréttirnar í sjónvarpinu byrjuðu. Eftir þær byrjaði maður aftur og gat verið fram eftir nóttu eða þangað til afi kom fram og sló rafmagninu út, þá nennti maður ekki að hlaða "geimið" inn aftur og fór að sofa.

Þrátt fyrir að ég hafi kynnst tölvu sem tímaþjóf, þá held ég að fleiri hafi kynnst henni sem mikilvægu hjálpartæki í alls konar útreikningum og þó aðallega í bókhaldi. Í dag eru flest öll siglingatæki orðin tölvuvædd hvort sem er í skipum eða í flugvélum. Þess vegna tel ég að tölvukennsla í stýrimannaskólum sé bráðnauðsynleg, því að það flýtír fyrir því að við lærum á siglingatækin þegar við komum út á vinnumarkaðinn. Í dag held ég að mannveran geti ekki komist af án tölvunnar þrátt fyrir að forfeður okkar hafi getað það vegna þess að tölvan er orðin hluti af lífi hvers manns því jú, við erum víst alltaf að flýta okkur og reyna að spara bæði tíma og fyrirhöfn. Ekki alls fyrir löngu kom á Reykjavíkurflugvöll tölva sem er alveg stórsniðug og heitir því skemmtilega nafni "Flugfinnur". Hún er til þess gerða að flýta fyrir farseðlakaupum hjá þeim ferðalöngum sem greiða fargjald sitt með kre¬ditkortum. Með þessu sparast mikill tími hjá bæði afgreiðslufólki og eins hjá ferðalöngum, því hver kannast ekki við að standa í röð, leiður og fúll, alveg að missa af flugvélinni. Þetta á alveg eins við um hraðbankana, þar er hægt að koma á öllum tímum sólarhringsins og taka út peninga, leggja inn pening eða borga reikninga, án nokkurra samskipta við fólk.
Inn á tölvur með diskettudrifi er svo hægt að geyma og flytja hluti sem maður þarf að nota eða vinna með, bara með því að stinga diskunum í og kveikja á tölvunni. Með þessu er hægt að spara mikla vinnu og fyrirhöfn. Eitt er það sem ég vil að lokum nefna og er það hinn frægi tölvuvírus sem er alveg baneitraður, sér í lagi fyrir þá sem ekkert kunna með hann að fara. Vírus þessi berst á milli tölvanna með forritunum og hefur þá einhver sett inn á disk einhvern djöfulskap sem veldur því að einn og einn stafur dettur af skjánum og svo hverfur jafnvel allt einn daginn. Tölvur eru því ágætar á meðan þær eru í góðra manna höndum.
Ég lít því á tölvur sem einn hinn þarfasta þjón mannsins.

Guttormur Einarsson dreif sig til Vestmannaeyja og tók þátt í Guðlaugssundinu ásamt nemendum Stýrimannaskólans, Hér fagnar Guðlaugur Friðþórsson honum að sundi loknu.