Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1990/ Björgvinsbeltið

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Björgvinsbeltið

Hönnuður beltisins, Björgvin Sigurjónsson, á tali við formann Björgunarfélags Vestmannaeyja Heimi Sigurbjörnsson.

Björgvin Sigurjónsson er maður nefndur, líklega betur þekktur undir gælunafninu Kúti á Háeyri. Fyrir þremur árum kom hann fram með athyglisverða nýjung í björgunar- og öryggismálum, svonefnt Björgvinsbelti, og hefur síðan unnið að endanlegri hönnun þess.

Björgvin er Akureyringur, fæddur 1947, byrjaði sjómennsku sextán ára að aldri á Akureyrartogurunum en fluttist hingað til Eyja 1967 og hefur búið hér nær óslitið síðan. Auk sjómennsku hefur hann lagt gjörva hönd á margt um dagana, unnið við múrverk, hljóðfæraleik og var atvinnubílstjóri um tveggja ára skeið. En á árunum 1986 og 1987 sat hann á skólabekk í Stýrímannaskólanumm í svokölluðu réttindanámi undanþágumanna og lauk þaðan prófi haustið 1987. Hann er nú skipstjóri á m/b Sigurvík.

Forsvarsmaður Sjómannadagsblaðsins ræddi við Björgvin eina dagstund í aprílmánuði um upphaf og tilurð beltisins góða sem hefur hvarvetna fengið góða dóma. Það spjall fer hér á eftir.
Hver var kveikjan að því að þú fórst að hugsa um beltið?
Það er komið eitthvað á fjórða ár síðan ég fór að hugsa um þetta eða teikna það. Raunar er hugmyndin talsvert eldri, spratt af því þegar menn voru að drukkna vegna þess að önnur björgunartæki dugðu ekki til. Það eru mörg ár síðan ég ræddi um það við bróður minn og fleiri að það þyrfti að finna eitthvert tæki í staðinn fyrir björgunarhringinn sem ekki hefur alltaf hentað við björgun.
Ef menn voru slasaðir eða höfðu ekki nóg afl, þá var hann oft gagnslítill. Svo þegar ég fór að skoða þessa hugmynd mína á blaði fannst mér hún svo einföld að ég taldi víst að einhverjir aðrir hefðu þegar búið til svona tæki og notað það. En það kom svo í ljós að svo var ekki og þá var bara hafist handa. Þetta var 1986 þegar ég var í skólanum, ég fór og spjallaði við Stefán skósmið og bað hann að útbúa fyrir mig belti. Það var upphafið.

Einn af kostunum við beltið, er að sá að gilskrókurinn er notaður til að hífa menn innbyrðis. Ekkert mál er að hafa tvo í sama belti.

Hvert varð svo framhaldið?
Við vorum í tæpt ár með þetta hérna heima. Síðan hvatti Sigmund Jóhannsson mig til að ræða þessi mál við forsvarsmenn á Reykjalundi, athuga hvort þeir væru fáanlegir til að skoða málið. Ég gerði það og var tekið mjög vel. Síðan hefur þetta verið í þeirra höndum hvað framkvæmdina varðar og þeir hafa verið sérstaklega hjálplegir á allan hátt, fundið út hvaða efni væri best að nota. Og þeirra þáttur er ekki sístur í umbúðunum eða hólknum utan um beltið, þeir eiga allan heiður af því. Sjálft beltið hefur ekki breyst mikið frá því upphaflega en umbúðirnar utan um það eru þeirra verk. Og endirinn varð sá að nánast allt efni í þessu er framleitt á Reykjalundi nema það sem er úr stáli, lásar og þess háttar, er aðkeypt. Þeir voru mjög kröfuharðir um efnið, ef þeim fannst eitthvað ekki nógu gott þá var því bara fleygt og leitað að öðru betra. Þetta var raunar unnið í samstarfi við Múlalund að nokkru leyti, góð samvinna þar á milli. Ég tel að ég hafi verið mjög heppinn með samstarfsaðila, varla völ á betra.

Hvenær hófst svo framleiðslan?
Hún hófst í nóvember 1989, þá saumuð nokkur belti. Svo komu smávægilegar breytingar en um síðustu áramót var svo hafin framleiðsla af fullum krafti á beltinu eins og það lítur út í dag. Þetta var mikill skóli fyrir mig að ganga í gegnum, fá að fylgjast með öllum þeim athugunum og tilraunum sem gerðar voru en gott að vita af því að þessir menn vildu einungis nota það besta sem fáanlegt var. En þarna voru mörg ljón á veginum og þetta tók á þolinmæðina meðan á því stóð. Þarna voru miklir peningar í spilinu, þetta er kostnaðarsamt fyrirtæki en Reykjalundur tók fljótlega við öllu sem snerti fjármálin svo að ég þurfti ekki að hafa áhyggjur af því lengur.

Hverjir eru að þínum dómi höfuðkostir beltisins?
Það var þrennt sem ég hugsaði mér í upphafi. Að finna upp björgunartæki sem væri einfalt, létt og sterkt. Þetta er fyrst og fremst hugsað sem kastbelti með ákveðnu flotmagni, ekki hugsað þannig að það geti haldið manni á floti. Það opnast mjög vel um leið og það kemur í sjóinn og er auðvelt að smeygja því á sig. En einn aðalkostur þess er sá, að mér finnst, að sá sem fer til bjargar öðrum með beltið, er mun öruggari sjálfur þar sem hann er festur með líflínu við skipið. Það hefur nefnilega svo oft komið fyrir að menn hafa hlaupið fyrir borð til að bjarga félögum sínum án þess að hafa nokkuð hugað að bjarga sjálfum sér. En beltið gefur marga möguleika, til dæmis er mjög auðvelt að synda með það á sér. Einnig er auðvelt að taka þann, sem bjarga á, í sama beltið og hægt að einbeita sér að því að vernda hann. Þá er hægt að hafa annað belti með sér, það á ekki að tefja neitt heldur. En það sem ég tel kannski hvað þýðingarmest í þessu, er að ekki er reiknað með að menn séu að toga á handafli út fyrir borðstokkinn þegar ná á manni inn fyrir, heldur sé gilskrókurinn notaður til þess. Beltið er einmitt hannað til slíks enda eru slíkar hífigræjur á flestum skipum. En aðalkostur beltisins er þó hversu einfalt það er, fer ekkert á milli mála hvernig á að nota það, hver maður með heilbrigða skynsemi sér slíkt strax.

Sé beltið borið saman við önnur björgunartæki, svo sem hring eða net, hver er þá helsti munurinn?
Allt eru þetta náttúrulega ágætistæki og bæði hringurinn og netið hafa bjargað mannslífum. Enda hef ég alltaf sagt að beltið á ekki að koma í staðinn fyrir neitt annað, heldur sem viðbót við önnur björgunartæki. Ef við aftur á móti skoðum hringinn, þá er hann fastur radíus af ákveðinni stærð og óumbreytanlegur þar sem á móti að beltið getur lagað sig eftir líkamanum og lítill vandi að komast í það. Engin hætta er heldur á að það skaði manninn þótt hann fengi það í sig en það gæti hent sig þegar hring er kastað. Og víst er Markúsarnetið hið ágætasta björgunartæki og vil ég ekki á nokkurn hátt kasta rýrð á það. En kannski er það enn einu sinni einfaldleikinn sem er aðal beltisins, það er hreinlega ekki hægt að fá það óklárt, sama hvernig því er kastað eða því snúið. í átaksprófunum hjá Iðntæknistofnun kom í ljós að beltið þolir 1000 kílóa átak, þá fyrst fara saumarnir að gefa sig. Og slíkur styrkur ætti að vera nægur í öllum tilvikum.
Ég tel einnig hólkinn utan um beltið mjög góða geymslu, sérstaklega þar sem líflínan er inni í honum og því engin hætta á að hún veðrist þótt tækið sé geymt utandyra. Raunar mæli ég frekar með að hólkurinn sé hafður inni og þá helst í brú. Þó svo að geymsluhólkurinn sé hannaður til að þola bæði sólarljós, vætu og frost þá sýnir reynslan okkur að þeim tækjum, sem geymd eru utandyra, er alltaf hættara við hnjaski og því betra að hafa þau inni.

Björgvin ásamt nemendum Stýrimannaskólans og skólastjóranum Friðriki Ásmundssyni á æfingu. Nemendur skólans voru ævinlega boðnir og búnir til aðstoðar.

Hefur beltið tekið miklum breytingum frá upphaflegri mynd?
Nei, sáralitlum nema hvað önnur og vandaðri efni eru notuð en voru í fyrsta beltinu. Sjálft útlitið hefur því sem næst ekkert breyst. Aðalmálið var að fá rétt flotmagn í það og eins að þyngdin yrði rétt þannig að gott væri að kasta því. Nú hafa æfingar alltaf farið fram við góð veðurskilyrði en ég hef sjálfur prófað að kasta því upp í vind og kastað því lengra en ég gæti kastað hring. Og undan vindi kastar maður því langtum lengra en bjarghring. Það var einmitt það sem skipverjar á varðskipinu Tý voru hvað hrifnastir af, hversu mikilli kastlengd væri hægt að ná með því, þeir köstuðu því venjulega á enda, þar til líflinan var búin.

Hvernig hefur æfingum verið háttað við prófanir á beltinu?
Nemendur Stýrimannaskólans hafa alltaf verið boðnir og búnir til æfinga, dyggilega hvattir af skólastjóranum Friðriki Ásmundssyni sem hefur alla tíð sýnt þessu máli mikinn áhuga og verið aðaldriffjöðrin í öllum æfingum. Þeirra þáttur er mikill og ómetanlegur. Strákarnir í skólanum hafa einnig haft mikinn áhuga á að fylgjast með framgangi þessa máls. Einn þeirra lenti í því fyrir tveimur árum að bjarga félaga sínum sem féll útbyrðis við Reykjanes í frosti og slæmum sjó. Þeim tókst það eftir langan tíma og mikið stímabrak. Hann hringdi í mig skömmu eftir þennan atburð og sagðist hafa óskað sér að hafa belti við höndina þá. Sennilega hefði þá ekki tekið nema tíu til fimmtán mínútur að ná manninum úr sjónum.

Verður þessi búnaður lögskipaður um borð í skipum?
Nú veit ég ekki. Við erum búnir að sækja um einkaleyfi og það veitir ákveðna vernd a.m.k. til að byrja með og tryggir að aðrir geta ekki farið að framleiða þetta hér. Annars er mikil skriffinnska og bras í kringum einkaleyfi og dýrt að standa í slíku. Siglingamálastofnun fékk eitt belti sent og þeir Sæbjargarmenn tvö. Siglingamálastofnun sendi beltið um borð í varðskip þar sem það var prófað, viðurkennt sem björgunartæki og var af þeim talið mjög athyglisvert sem slíkt. Í greinargerð frá stofnuninni skilst mér að þeir mæli með að það komi um borð í skip í staðinn fyrir þriðja bjarghringinn eins og nú er. Þetta er mjög jákvætt finnst mér, því að þessi stofnun hefur haft orð á sér fyrir að vera nokkuð íhaldssöm með að viðurkenna ýmsa nýja hluti. En þessi viðbrögð þykir mér lofa góðu fyrir framtíð beltisins. Þá hefur beltið verið kynnt erlendis og vakið athygli. Þeir Sæbjargarmenn hafa lokið á það lofsorði og sömuleiðis varðskipsmenn. Það má segja að komið sé grænt ljós frá öllum þessum aðilum og öllum þykir þeim höfuðkostur beltisins hve einfalt það sé í notkun og þó öruggt.

Hverjar hafa svo viðtökurnar verið hér heima?
Ég hef alltaf fengið góðan stuðning hér heima.
T.d. er það alveg ólýsanlegt hvað konurnar í Slysavarnafélaginu eru búnar að gera, gefa belti á allan flotann, maður á ekki til orð yfir þetta, það er alveg einstakt og ég er þeim innilega þakklátur. Þá finnst mér rétt að geta þeirra þriggja aðila sem gerðu mér það kleift fjárhagslega að koma þessu í framkvæmd. Það eru Kiwanisklúbburinn Helgafell, sem styrkti mig vel í upphafi og svo Útvegsbankinn og Sparisjóðurinn. Öllum þessum aðilum vil ég þakka sérstaklega góðan stuðning, auk fjölmargra annarra sem hafa aðstoðað mig á ýmsam hátt.

Vart fer milli mála að þessir tveir eru að ræða hafnarmál. Bergsteinn Jónasson frá Múla, yfirhafnarvörður um árabil og jón Í Sigurðsson, lóðs, frá látrum, hafnsögumaður einnig um árabil.

Er eitthvað nýtt á teikniborðinu?
Það er nú það. Ég er með smávegis hérna í kjallaranum sem ég hef verið að vinna við undanfarið og er svona á sömu nótum, þ.e. að stuðla enn betur að öryggi þeirra sem stunda sjó. Hvað úr því verður veit ég ekki. Sjómennska er hættulegt starf sé ekki farið með gát að öllu og þess vegna sé ég ekki eftir þeim tíma sem ég hef varið til að vinna að því að auka öryggi sjómanna. Ég held að þeim tíma hafi verið vel varið.