Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1990/Stýrimannaskólinn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Stýrimannaskólinn 1989 – 1990

Á þessu skólaári varð Stýrimannaskólinn 25 ára. Það var 18. des. 1964, sem lög um hann voru samþykkt á Alþingi.
Guðjón Ármann Eyjólfsson núverandi skólastjóri Stýrimannaskólans í Reykjavík var skólastjóri frá upphafi til 1975 að undirritaður tók við starfi hans.

Nú á vordögum 1990 hafa 272 nemendur lokið 2. stigs prófi. Við höfum einnig útskrifað menn með 80 og 200 tonna réttindum á svokölluðum undanþágumanna námskeiðum. Og þrjú 30 tonna réttindanámskeið hafa verið haldin við skólann á síðustu árum. Það síðasta á þessu skólaári en á því voru 13 karlar og 1 kona.
Í 1. stigi voru 12 nemendur til áramóta en 13 síðan og í 2. stigi 12 til áramóta og 11 eftir áramót. Ein lítil breyting varð á kennaraliði skólans frá 1988 - 1989. Í stað Einars B. Steinþórssonar, sem kenndi stærðfræði frá áramótum var nú Helga Kristín Kolbeins stærðfræðikennari.
Séra Halldór Kolbeins okkar gamli góði sóknarprestur var afabróðir hennar. Annars starfa þessir við skólann.

Undirritaður kennir í 1. stigi: Sigl.reglur, stöðugleika og bókl. sjómennsku, og í 2. stigi sigl.fræði, stöðugl. og hleðslu skipa, sigl.reglur, ratsjársigl. og mors og merki.
Sigurgeir Jónsson kennir í 1. stigi: Sigl.fr., ísl.,stærðfr., dönsku, ensku og í 2. stigi: ísl., ensku, vélfr., tölvur og stærðfræði ásamt Helgu K. Kolbeins.
Í 1. og 2. stigi kenna Brynjúlfur Jónatanssin á siglinga-og fiskileitart., Jón Hauksson sjórétt, Einar E. Jónsson heilbrigðisfr., Kjartan Bergsteinsson fjarskipti og Katrín Magnúsdóttir sund.
Í 1 stigi kenna Hjálmar Brynjúlfsson eðlisfr. og Viðar Elíasson fiskmeðferð, og í 2. stigi kenna Bjarni Jónasson veðurfr., Guðbjörg Jónsdóttir bókhald og Hrefna Brynja Gísladóttir dönsku.
Guðjón Magnússon og Hallgrímur Þórðarson kenna veiðarfæragerð í 1. stigi og Hallgrímur Júlíusson og Haraldur Óskarsson í 2.stigi.

Skólanefnd skipa: Hilmar Rósmundsson form. Þórður R. Sigurðsson varaform., Bergvin Oddsson, Björgvin Magnússon, Sævaldur Elíasson,Þorsteinn Sigurðsson og Kristgeir Friðgeirsson og varamenn í sömu röð: Jón R, Eyjólfsson, Richard Sighvatsson, Ágúst Bergsson, Sigurjón Óskarsson, Guðmundur Guðlaugsson og Halldór Gunnarsson.
Síðan höfum við afbragðs starfskrafta, húsvörðinn okkar Hjörleif Guðnason, Jónínu Björgvinsdóttur skólaritara og Guðrúnu Sigurjónsdóttur, sem þrífur heimavistina og hugsar um strákana á þann hátt að ekki er hægt að gera betur.

Á fyrsta ári skólans stofnuðu bræðurnir Björn Guðmundsson, útgerðarmaður og Tryggvi Guðmundsson, kaupmaður, minningarsjóð um foreldra sína, Áslaugu og Guðmund Eyjólfsson í Miðbæ. Hlutverk sjóðsins er og hefur verið að styrkja efnalitla nemendur til náms í skólanum. Hefur það komið mörgum vel, sérstaklega hin síðari ár. Breytingar á kostnaðarhlutdeild

Nemendur II stigs Stýrimannaskólans fagna sigri í árlegu boðsundi skólans.

Í upphafi 1964 var kostnaður við skólahaldíð greiddur af bæjarsjóði. Hann færðist síðan alveg á ríkissjóð til 1979 að hann varð hálfur á bæ og ríki. Um síðustu áramót færðist hann aftur alveg á ríkissjóð. Fram að þessu hefur það verið mjög slæmt. Helmingi of lítil fjárveiting, sem er fyrir misskilning að sögn starfsmanna fjármálaráðuneytis, og þegar þetta er skrifað hefur engin greiðsla borist í tæpa tvo mánuði vegna tölvuástands að sögn sömu aðila.
Það á því vel við hér nú. „Að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur." Síðustu árin hefur samstarfið við starfsmenn Vestmannaeyjakaupstaðar verið ánægjulegt. Þakka ég það hér nú. Breytingar á skipstjórnarnáminu?
H. 8. júní 1989 skipaði menntamálaráðherra nefnd, sem ætlað var það hlutverk að semja tillögur um skipan og þróun skipstjórnarnáms í Stýrimannaskólanum í Reykjavík og annarsstaðar á landinu, sem slíkt nám fer fram. Í nefndinni voru Vilmundur Víðir Sigurðsson stýrimannaskólakennari, Guðmundur Baldur Sigurgeirsson skipstjóri og Helgi Kristjánsson skipstjóri og með þeim starfaði Stefán Ól. Jónsson deildarstjóri í menntamálaráðuneytinu.
Þeir félagar hafa nú skilað greinargóðum tillögum um fyrrnefnt efni. Þar er nánast um byltingu að ræða frá því sem nú er.

Í fáum orðum sagt vilja þeir gera stýrimanna skólana að algerum fagskólum. Þ.e. að þar að þar verði einungis kennd fög, sem beint varða skipstjórnarnámið. Þeir leggja til að eftirfarandi falli burtu úr námsefni skólanna: Ísl., enska, danska, stærðfræði, eðlisfr., efnafr., tölvur og bókhald. Þessara námsgreina þurfa því væntanlegir nemendur stýrimannaskólanna að afla sér í framhalds - eða fjölbrautarskólum á 3-4 námsönnum fyrir stýrimannaskólanámið. Námið lengist því um þetta. Í staðinn komi svo eftirfarandi nýtt námsefni í stýrimannaskólana: Alþjóða samþykktir um öryggismál skipa, mengunarreglur og varnir, haf-og fiskifræði, veiðarfærafræði, veiðiaðferðir, rekstrarfræði, viðhaldsfræði, vinnusálfræði og verkstjórn.

Nefndin vill stytta siglingatíma fyrir skóla, þannig að sá tími sem nemendur fá á sjó, sumrin frá 8. Bekk grunnskóla nægi til þess að hægt sé að halda námi óslitnu þar til skipstjórnarnáminu lýkur. Enginn veit nú hvernig þessi mál þróast. Þessar tillögur verða ræddar nánar í skólanefndum og menntamálaráðuneyti og að lokum verða þær að fara fyrir alþingi til þess að þær verði að lögum. Við skulum vona að skipstjórnarnámið þróist þannig að það verði eftirsótt fyrir unga menn að fara í stýrimannaskólana. Það er mjög mikilsvert að þaðan komi mikið af góðum mönnum. Við þurfum á þeim að halda á flotann okkar, sem er okkur svo mikilsverður, og allt byggist á.
Ég óska sjómönnum, ættingjum og vinum til hamingju með daginn.

Friðrik Ásmundsson