Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1982/Stokkseyrarveðrið 9. janúar 1926

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Stokkseyrarveðrið 9. janúar 1926


Greinarhöfundur Guðmundur Vigfússon

Ekki veit ég til að skrifað hafi verið um ferð þessa sérstaklega og mun þó mörgum í minni, ekki síst þeim sem voru í þessari sjóferð sem hér skal reynt að lýsa.
Ekki er að efa að margir, sem áttu vini og vandamenn um borð í þeim tveim litlu vélbátum sem um getur í frásögn þessari, hafi verið uggandi og kvíðnir um afdrif þeirra sextíu manna sem á bátunum voru. Ég undirritaður var háseti á öðrum bátnum, m/b Gunnari Hámundarsyni VE 271, 17 tonn með 45 hestafla Vickmannvél, smíðaður í Noregi 1924-1925. Bátarnir fóru snemma morguns 9. janúar 1926 frá Vestmannaeyjum og var ferðinní heitið til Stokkseyrar. Hinn báturinn var m/b Svalan VE 274, 16,84 tonn með 20 hestafla Scandíavél, byggð í Færeyjum. Skipshöfn á m/b Gunnari Hámundarsyni var skipstjóri Vigfús Sigurðsson frá Pétursborg, Vestm., eigandi að einum þriðja, vélamaður Arthur Aanes, Norðmaður, nýfluttur til Eyja, starfaði og dvaldi þar lengi, háseti Oddsteinn Friðriksson, Birtingarholti, Vestm. eigandi að einum þriðja, háseti Guðmundur Vigfússon, Holti Vestm.
Þriðji eigandi m/b Gunnars Hámundarsonar Sigurður Friðriksson í Birtingarholti var ekki á bátnum.
Skipshöfn á m/b Svölunni: skipstjóri Sighvatur Bjarnason, Ási Vestm., eigandi að einum fjórða, vélamaður Guðmundur Auðunsson, Nýhöfn Vestm., eigandi að einum fjórða, háseti Jónas Bjarnason, bróðir skipstjórans, eigandi að einum fjórða. Fjórði eigandinn Guðlaugur Brynjólfsson, Odda var ekki á bátnum.
Beðið hafði verið nokkra daga eftir heppilegu leiði í fyrirhugaða ferð. Að kvöldi hins 8. janúar leit út fyrir að fært yrði að morgni, sem og varð. Sjó hafði slétt vel um nóttina og kominn norðan gola og bjartviðri. Eftir að skipstjórar bátanna höfðu ráðgert að hafa samflot var haldið úr höfn um kl. 5.30 árdegis. Allt gekk nú vel í norðan golunni og sléttum sjó að Stokkseyrarsundi. Var komið þar um kl. 10.00. Strax var lagt á sundið því vel sást til sundmerkjanna í bjartviðrinu.
Stokkseyrarsund er vandfarin leið, og ekki á færi nema vel kunnugra manna að sigla krókugt sundið með sker og blindboða þétt á bæði borð. Það hlýtur að hafa verið fyrir og um flóðtímann sem komið var að Sundinu því á lágsjávuðu var ekki dýpi nema fyrir mjög smáa og grunnskreiða báta. Stokkseyrarbátar voru á þessum tíma miklu smærri fleytur en þeir bátar sem um getur í þessari frásögn.
Á þessum tíma var bryggja á Stokkseyri ekki stór, en í góðu veðri og hásjávuðu gátu bátar legið sinn hvoru megin hennar. Ekki man ég hvort pláss var fyrir fleiri en einn bát hvorum megin. Þegar bátarnir lögðust að byggjunni var komið þar nokkuð margt manna. Margt af þessu fólki, karlar og konur á ýmsum aldri, var ráðið sem vertíðarfólk til Eyja. Einnig voru margir með ýmsar landbúnaðarvörur, svo sem garðávexti, hey, þurrt torf og margskonar pinkla, ásamt farangri fólksins sem fara skyldi til Eyja. Ferð Svölunnar var aðallega farin í þeim tilgangi að flytja búferlum fjölskyldu Sighvats skipstjóra. Móðir hans og tvær systur voru með honum í ferð þessari, en Bjarni faðir hans varð eftir og kom seinna með skipi frá Reykjavík til Eyja. Ferð m/b Gunnars Hámundarsonar var farin í þeim tilgangi að taka farþega og varning. Nú fór fólkið sem með bátunum ætlaði, að koma sér fyrir um borð í þeim, jafnframt því að lestar þeirra voru fylltar af ýmsum varningi, sem áður hefur verið minnst á. Nokkur bið varð eftir fólki, sem vitað var um að ætlaði að komast með úr nærliggjandi sveitum og þurftu sumir langt að fara. Einum frétti ég af, sem náði ekki að komast með. Var það frændi minn, Guðmundur Jóelsson frá Sælundi í Vestmannaeyjum. Bátarnir voru komnir út á Sund þegar hann kom á bryggjuna. Ekki var að sjá, að ég man, neina veðurbreytingu þegar lagt var af stað frá Stokkseyri um kl. 13.00. Norðan gola og bjartviðri. Þegar útfyrir sundið kom voru dregin upp segl á báðum bátunum og bjuggust nú áreiðanlega allir við þægilegri og fljótri ferð til Eyja.
Það var áður minnst á að sextíu manns hafi verið á bátunum báðum, þar með taldar skipshafnir beggja bátanna. Á m/b Svölu voru 25 farþegar og 3 skipsmenn, en á m/b Gunnari Hámundarsyni 28 farþegar og 4 skipsmenn.
Karlmennirnir munu hafa verið nokkru fleiri en kvenfólkið, en hversu þau hlutföll voru kann ég ekki frá að segja. Að sjálfsögðu hafði kvenfólkið forgangsrétt að þeim 5-6 kojum sem í hvorum bát voru í lúkar. Annarsstaðar voru engar kojur. Í sumum kojunum voru tvær saman og fengu þó ekki allar koju. Meðan á góðviðrinu stóð var talsvert af fólki uppi og naut fagrar landsýnar. Þegar siglt hafði verið góðan hálftíma frá Sundi, þá staddir fram af Loftstaðarhól, dettur í dúnalogn. Segl eru þá tekin niður með aðstoð sumra farþega og bundin eins og vera ber þegar þau eru ekki í notkun. Sjáum við frá m/b Gunnari að sama er gert um borð í m/b Svölu, því stutt var á milli. Um leið og lygndi fór að bera á lifandi austan kviku. Biður formaður nú okkur hásetana tvo að breiða yfir og ganga vel frá lestarlúgum. Líklega hefur hann búist við einhverjum kalda og ágjöf. Þegar það hefur verið gert erum við staddir austan til við Þjórsá. Er þá liðinn rúmur klukkutími frá því að lagt var af stað. Nú var úti friðurinn, því á örskammri stundu er komið suðaustan fárviðri. Nú er farið í að koma fólkinu, sem uppi var, fyrir. Ekki komust nærri allir í lúkarinn. Nokkrir fengu pláss í stýrishúsinu hjá skipstjóranum, nokkuð pláss var aftantil í vélarúminu og fengu nokkrir þar afdrep. Við þessi þrengsli í vélarrúmi átti Arthúr Aanes vélamaður erfitt að athafna sig við vélgæsluna. Aðrir voru ekki úrkostirnir, nú voru allir komnir í afdrep nema við hásetarnir tveir.
Nú biður Vigfús formaður okkur hásetana að strengja tóg milli vanta á sitt hvort borð, einnig strengdum við tóg úr framstag og afturí stýrishús. Ég vil segja að þessi fyrirhyggja formannsins hafi bjargað lífi okkar hásetanna því við fórum aldrei af dekki meðan á túrnum stóð nema til að hjálpa og hlynna að farþegum. Kom okkur því vel að hafa böndin til að styðjast við eftir því sem við þurftum að færa okkur til á bátnum.
Um kl. 17.00 þegar dagsbirtan hvarf og myrkrið tók við, samfara æðandi óveðrinu, öldurótinu og stórfelldu vatnsveðri, var skyggni orðið ekkert og sást ekki til annars út frá bátnum en þeirra æðandi brotsjóa sem framan á bátinn féllu. Undir þessum kringumstæðum var úti um samflot bátanna sem að líkum lætur. Áfram er keyrt á móti veðrinu, sem var sem næst beint á móti stefnunni, þó líklega 1-2 strik til bakborða. Oft þurfti að slá af vegna æðandi brotsjóanna sem á móti komu og hvolfdu sér yfir bátinn, sem oft varð lunningafullur milli stafna. En fljótt rann út vegna góðra lensporta. Nú tekur vélin upp á því að hiksta og missa kraft og eftir nokkur feilpúst stoppar hún alveg. Þetta endurtekur sig 4-5 sinnum með misjöfnu millibili. Gekk þetta svona til sérstaklega fyrri hluta leiðarinnar. Mun þetta hafa stafað af vondri olíusíu-útbúnaði. Sem betur fór var Arthúr alltaf fljótur að fá í gang aftur. í einu stoppinu henti það mig að lenda útbyrðis. Við Oddsteinn vorum við dekkdæluna að pumpa, til að fylgjast með hvort sjór væri í bátnum. Vitum við ekki fyrr til en krappur hnútur hvolfir sér yfir bátinn og þrífur okkur með út í stjórnborðshliðina sem var til hlés. Talsvert lagðist báturinn við skvettuna og fór lunningin vel í kaf. Oddsteinn náði sér í bandið milli vantanna og tókst að grípa til mín og halda. Svo þegar báturinn rétti sig fannst mér að ég sogaðist einhvernveginn inn fyrir og þegar sjórinn hafði hreinsast að mestu út af þilfarinu og ég áttað mig, lá ég langsum innan lunningar.
Eftir þetta átti vélin eftir að stoppa tvisvar sinnum. Í síðasta stoppinu vorum við Oddsteinn að fikra okkur fram dekkið eftir miðstagnum til að líta eftir fólkinu í lúkarnum. Rak því að sjálfsögðu undir flötu með stjórnborð til hlés. Þegar við erum komnir fram að lúkarskappa, hvolfir sér yfir bátinn feiknarlegur brotsjór með þeim afleiðingum að litlu munaði að hann legðist alveg á möstur. Nokkra stund lá báturinn svona djúpt í eftir brotið en fór samt fljótlega að rétta sig og þegar hann var kominn vel á stað var eins og hann tæki kipp og hristi ónotin af sér. Okkur Oddsteini tókst að halda okkur, þegar brotið reið yfir. Hefur það líklega verið því að þakka að við vorum alveg við lúkarskappann og hann tekið af mesta höggið. Þegar við komum niður í lúkarinn var heldur ömurlegt ástandið þar: sjór uppundir bekkbrúnir, fólkið hafði þeyst úr bakborðskojunum og það, sem á bekkjunum var, yfir í stjórnborða, og líka blotnaði það meira og minna þegar sjórinn fossaði niður lúkarsniðurganginn. Ekki leyndi sér að mikil hræðsla hafði gripið fólkið þótt margt af því tæki öllu með stillingu, tókst þó ekki öllum að leyna ótta sínum og braust það út á átakanlegan hátt.

Sjór hafði flætt inn um stýrishúsgluggana, en komst þaðan ekki niður í vélarrúm þar sem niðurgangurinn í það var aftan við stýrishúsið. Tiltölulega lítið af sjó fór í vélarrúmið en þó nokkuð. Ekki var tími til að dvefja lengi fyrir okkur hásetana hjá fólkinu í lúkarnum því fljótlega komu fyrirmæli frá skipstjóranum að við ættum að fara að dælunni því sjór rynni framan frá aftur í vélarrúm og treysti vélamaður því ekki að setja vélina í gang fyrr en tekist hefði að dæla það úr bátnum að vélin ysi ekki sjó á sig. Við Oddsteinn vorum snöggir upp og hömuðumst á dælunni sem kraftar leyfðu drjúglanga stund og þegar dælan fór að draga loft og við fundum að þurrdælt var stóðst það á endum að púst kom úr vélinni og hún fór að ganga. Eftir það stoppaði hún aldrei í túrnum. Nú var frekar hugað að fólkinu og aðgætt hvort nokkur slys höfðu orðið. Reyndist ekki svo vera, ekki reyndist heldur neitt sérstakt hafa bilað eða farið úr skorðum hvað bátinn viðvék. Ekki hafði kastast til í lestinni því báturinn hafði ekki slagsíðu. Auðvitað hjálpaði það að troðið hafði verið eins og hægt var í lestina alveg upp í lúgur þegar báturinn var lestaður á Stokkseyri. Áður en farið var að keyra aftur segir skipstjórinn við okkur hásetana: „Þið skulið nú halda ykkur aftan við stýrishúsið. Það er hægt að fylgjast með ykkur og kalla til ykkar ef á þarf að halda." Þar húktum við hátt í þrjá tíma og börðum okkur til hita því ekki var þurr þráður á okkur. Annars var ekki kalt í veðri. Um kl. 23.00 er hægt á og rekur nú karlinn hausinn út um afturglugga stýrishússins og segir við okkur að hann treysti því ekki lengur að keyra svona án þess að hafa útkíkk frammá bátnum. „Ég veit," segir hann „að þetta sem ég er nú að fara frammá við ykkur er ekki nein sæld en ef þið treystið ykkur í þetta áminni ég ykkur um að binda ykkur. Einn mann hef ég í stýrishúsinu hjá mér og verður hann á útkíkki í stjórnborðsglugganum og ef þið skylduð grilla í land á annar ykkar að veifa sjóhattinum. Sjálfur verð ég að hafa mig allan við að halda strikinu: Svo mun ég stilla ferðina eftir því sem ykkur reiðir af." Auðvitað fórum við eftir tilmælum skipstjórans og fórum að öllu eins og hann lagði fyrir. Þegar við vorum búnir að súrra okkur framundir stafni var farið að smáauka ferðina. Vistin sem við Oddsteinn áttum þarna frammá bátnum í þrjá tíma, þar til að við grilltum í land framundan, verður varla kölluð sólbað, heldur ekki sturtubað. Nærri sanni væri að kalla hana köfun með smáöndunarhléum á milli. Kl. var um 02.00 er við vorum fullvissir að hafa landsýn, en veðrið hamlaði því að ekki var hægt að átta sig á hvar við vorum staddir. Náttmyrkrið, suðaustan fárviðrið, ferlegt vatnsveður og sjórinn rjúkandi sem mjöll. Allt spilaði þetta saman svo við gætum fullvissað okkur hvar við værum staddir. Tvo tíma tók það okkur að vera vissir. Það sem hjálpaði okkur til þess var að allt í einu birtist okkur eða réttara sagt grillum við í háan bergstand, háttrísandi upp úr hafinu örstutt framundan á bakborða. Þá könnuðumst við við hvar við vorum. Jötunn heitir drangur, rétt vestan við Hænu, einn af fjórum smáeyjanna vestur af Heimaey. Þegar fullvissan var fengin var greið leið í var uppundir Ofanleitishamar. Var nú stefnan sett þangað og eftir nokkra tíma fórum við að greina ljós sem fjölgaði eftir því sem nær dró. Reyndust ljósin á togurum í vari. Þegar að skipunum kom var klukkan á seinni tímanum í 5 um morguninn 10. janúar.
Rögnvaldur Jónsson frá Túnprýði, Stokkseyri, kunningi minn og jafnaldri, var einn af þeim sem fór með m/b Svölu frá Stokkseyri þess ferð. Hann var fyrirfram ráðinn sem háseti hjá Sighvati þessa vertíð og var því annar hásetinn á m/b Svölu þessa ferð ásamt Jónasi bróður Sighvats. Rögnvaldur hefur sagt mér að þegar fólkið hjá þeim var komið niður, þegar veðrið skall á, hafi hann og tvær stúlkur holað sér niður aftan við stýrishús og húkt þar alla leiðina og minnir hann að nógu þröngt hafi verið orðið niðri og því orðið að taka þennan kostinn. Stúlkurnar sem þessa vist fengu með Rögnvaldi hétu Guðrún Þórðardóttir frá Garðstöðum á Stokkseyri og Jóna Bjarnadóttir frá Dalbæ á Stokkseyri.
Rögnvaldur segir að þau hafi haft það sér til hita og uppörvunar að syngja mikið af leiðinni aðallega dægurlög og ástarsöngva en á milli þess að mest gekk á ákölluðu stúlkurnar almættið. Örfá nöfn af farþegum bátanna vitum við Rögnvaldur um. Gunnar í Hellukoti á Stokkseyri var með m/b Svölu, einnig Guðrún Sæmundsdóttir frá Bræðaraborg á Stokkseyri, vistráðin til Vestmannaeyja, og Vigdís Oddsdóttir, einnig frá Bræðraborg á Stokkseyri, vistráðin hjá Ársæli Sveinssyni, nú vistkona á DAS í Hafnarfirði. Vel man hún ferð þessa. Hún sagðist hafa getað haldið sér í slá í efri kojunni sem hún var í og ríghélt sér alla leiðina, annars bjóst hún ekki við að hafa haldist í kojunni. Af farþegum á m/b Gunnari Hámundarsyni veit ég aðeins tvö nöfn, annað var Ásta Sigurðardóttir, Oddgeirshólum í Vestmannaeyjum, frá Nýjakastala á Stokkseyri kona Friðfinns Finnssonar, líka Siggeir Gíslason, en hann var lengi sjómaður í Vestmannaeyjum.
M/b Svala náði að komast uppundir Eiðið um miðnóttina en hélst þar ekki við fyrir sjógangi, og ofsanum og hleypti því vestur fyrir Hamar og þar tókst bátnum að halda sig um nóttina og hjálpaði það til að þar lágu við festar nokkrir togarar. Um morguninn þegar vart var við bátana frá landi voru mannaðir út tveir bátar úr Eyjum, að mestu leyti formönnum. Þegar nokkuð hafði lægt um miðjan dag héldu þeir út til móts við okkur, þó illfært væri. Þegar þeir á hjálpar bátunum höfðu fullvissað sig um að hrakningarbátarnir voru sjófærir var ákveðið að halda til hafnar því tvísýnt þótti að innsiglingin í höfninni yrði fær, þegar meira fjaraði. Allt fór nú samt vel þótt Flóinn væri illa skipgengur á ekki stærri fleytum og leiðin inn á höfnina á takmörkunum fær. Kl. mun hafa verið að ganga þrjú eða að verða þrjú síðdegis þegar inn var komið. Ekki var hægt að leggjast að bryggju vegna ókyrrðar í höfninni enda bryggjur þá ekki burðugar í Eyjum, því var fólkið flutt á skjögtbátum í mörgum ferðum í land, og heyrðist nú á mörgum að þeir fögnuðu því að sjóferð þessari væri lokið.
Bátarnir sem til hjálpar fóru voru Skógarfoss VE 236, skipstjóri Pétur Andersen á Sólbakka og m/b Lundi VE 141, skipstjóri Þorgeir Jóelsson á Sælundi. Ekki er hægt að skilja svo við þessa frásögn að ekki sé lítillega minnst á þann mannskaða og skipstap sem varð við Eyjar framangreinda nótt. En þar sem mér er kunnugt um að Eyjólfur Gíslason frá Búastöðum á greinargóða frásögn um þá atburði þá læt ég nægja að minnast lauslega á þá.
Þennan morgun, 9. jan. 1926, lá við Eyjar norskt flutningaskip sem hét Hartfell, 600-800 tonn, og var um morguninn byrjað að skipa upp salti, sem var farmur þess, þar sem það lá á ytri höfninni. Þegar tók að hvessa átti að hífa akkerið en það gekk í brösum, þar af leiðandi náði það sér ekki upp í vind til að komast inn og vestur fyrir Eyjar en flatmagaði suður með Heimaey og mátti engu muna að það strandaði þar. Á tæpasta vaði tókst að komast vestur úr Suðureyjarsundi. Þar fóru fjórir eða fimm menn af skipinu í óþökk yfirmanna skipsins í lítinn bát sem hvarf samstundis út í óveðrið og spurðist ekki af þeim framar. Skipið rak í ofviðrinu um nóttina og var mönnunum sem eftir voru, óvíst hvað mörgum, bjargað yfir í togara daginn eftir, en skipið yfirgefið og spurðist ekki til þess framar. Þá mun skipið hafa verið vestur eða norð-vestur frá Dröngum, óvíst hvað langt. Þessa sömu nótt fórst vélbáturinn Goðafoss VE 189 með allri áhöfn. Haraldur Ólafsson var formaður á bátnum, þegar hann fórst, nýgiftur og fluttur til Eyja. Þetta var hans fyrsti formannsróður frá Eyjum. Vélamaður var Björn Guðmundsson frá Gíslholti, Austur-Eyjafjöllum, þekkti ég hann vel þar sem ég hafði verið þrjú sumur unglingur á æskuheimili hans. Ekki er mér kunnugt um nöfn annarra sem með bátnum fórust.

Fyrst ég er farinn að rifja upp frá gömlum dögum freistast ég til að segja frá tveimur hæpnum atvikum sem hentu mig á m/b Gunnari Hámundarsyni seinni vertíðina sem ég var þar háseti 1926. Það var í marsmánuði að við vorum að draga línu undir flötu með Helliseyjarhrauni með vindinn á bakborða, komið var sunnan-suðvestan leiðindaveður, ég sat á línustólnum við forvantinn bakborðsmegin og var að draga af spilinu. Nú veit ég ekki fyrr en kröpp brotkvika hellir sér yfir þar sem ég sat og þrífur mig með. Báturinn mun hafa lagt sig nokkuð en rétti sig fljótlega. Nokkuð mikill sjór fór niður um lestaropið, sem fiskurinn var blóðgaður niður um. Eftir skvettuna var farið að dæla úr bátnum en jafnframt er skimað eftir mér, en ég sést hvorki utanborðs né innan. Ekki datt félögum mínum í hug annað en ég væri horfinn að fullu og öllu í hafið. Reyndar var ég nú kominn í sjóinn en annarsstaðar en í hafið. Ég hafði nefnilega stungist með kvikunni beint á höfuðið niður um fiskilúguna og þar var ég buslandi í sjónum í félagsskap þorskanna í lestinni. Nokkuð langan tíma tók mig að ná mér upp því að ég hafði eitthvað dasast við þetta ferðalag en var ómeiddur. Þegar ég hafði að reka hausinn upp um lúgugatið sem var nú ekki stærra en það að maður gat rétt smokrað sér þar niður um voru félagarnir fljótir 'að draga garminn allan upp sem jafnaði sig furðu fljótt. Hellt var úr stígvélunum og ánægður var ég að fá mitt sæti aftur, en nú þótti öruggara að binda mig í sætið svo ég færi síður í slíkt ferðalag aftur. Það sem eftir var af línudrættinum gekk áfallalaust.

Hitt atvikið gerðist í apríl. Við vorum þá að koma úr netaróðri vestan af Eyjabanka. Ég hafði þann starfa að hita og laga kaffi á heimleiðinni og leysti þá oftast formanninn af við stýrið þegar kaffið var tilbúið. Nú umrætt skipti er ég á leið aftur dekkið úr lúkarnum og er kominn þvert aftur með stýrishúsinu og er að teygja mig upp í stýrishús í hurðarhúninn til að opna og fara inn. Hurðin var á hlið hússins, skrikar mér þá fótur með þeim afleiðingum að ég lendi á bakið þversum á öldustokkinn og þar vó ég salt drjúgalanga stund eins og planki á búkka með höfuðið utanborðs og að sjálfsögðu fæturna innanborðs. Á rólinu gafst mér tími til að hugsa: hvora leiðina fer ég? Austan strekkingur var á og talsverð ylgja í sjónum. Var því talsverður veltingur á bátnum og þar af leiðandi vó ég eftir hreyfingum bátsins. Ómögulegt var mér að ná nógu langt með höndunum til að ná taki á öldustokknum. Ekki tók formaðurinn eftir því hvað mig hafði hent vegna þess hvað ég var þvert af stýrishúsinu. Eftir mjög hæpin og tvísýn úrslit, sem mér fannst langt að bíða, vóst ég samt innfyrir og gat fótað mig. Á þessari stundu var ég þakklátur og hrærður að mér var gefið lífið. Og þegar ég var kominn að stýrinu og Vigfús formaður farinn að drekka ketilkaffið með mannskapnum í lúkarnum, fór ég að hugleiða: var þetta tilviljun, glópalán eða heppni? Nei, ég vil heldur hugsa og halda að það hafi verið æðri máttug hönd sem gaf mér lífið áfram.
Guðmundur Vigfússon.