Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1977/Þrjú eftirmæli

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

G. H. TEGEDER:

Þrjú eftirmæli

Eftir Heinrich Tegeder

I.
Falið er enn
Eyjarfoldu
Genginn ástvin að geyma.
Í friðsælum faðmi
Fegurri heima
Því fallinn er faðir minn góði.

II.
Slokknuð er á himni
heiðust stjarna
er skærast og ljúfast lysti börnum.
Höggvið er enn
í ættarraðir
og undir ógrónar.

III.
Horfinn er úr heimi
hann er svo þráði
löngu lífi að lifa
fram um aldur.
Því öllum deildi
í annarra þágu ævikröftum.

IV.
Hvað fær sefað
sorgþjáða vini
og börn af grátekka buguð?
Minningin mæta
máttugrar hetju
ein fær harminum hnikað.

Eftir Ágúst Inga Guðmundsson

Athygli heimsins aldrei nær
einmana jurt er í skugganum grær,
fegurstu blómin þó beri.

I.
Ég man svo vel hve hrekklaus og hrein
Hlýja, þér ávallt úr augum skein.
Ó, hve þeim yl ég unni.
Og heiðarleikans helga mál
ég heyrði skærast í þinni sál,
því hljómaði af hjartans grunni.

II.
Hve sárt er ég veit fyrir vissu nú
vinum er skilja, en bjargföst trú
á lífið oss létta mun sporið.
Því hversu skrauti vort hyljum hold
þann hlýtur dóm að verða mold
hvert barn, sem í heiminn er borið.

III.
Til hvers þá að berjast, ef hljótum kjör
sem hljóm, að lokinni sigurför
þagnar í þröngum ranni?
Hvort lífsskeiðið fetum í logni’ eða byl
er lýkur, að hafa þó verið til –
dýrmætast mun hverjum manni.

IV.
Nú lætur úr hinstu vonarvör
vegamóður og hrakinn knör
ó! gæt hans og ver hann grandi
Þess drottin bið, því liggur leið
svo löng, frá mannheima stundarneyð
að friðarins fjarlæga landi.

Eftir Guðmund Jónsson

I.
Elsku blóm, nú birtan dvín,
björt þó vermir minning þín
ljós þitt skært á lífsins braut
lýsti hverjum förunaut.

II.
Friður, ró og rausnarlund
réðu þinni ævistund,
gekkst í slóðir gjafarans,
gladdir hjarta náungans.

III.
Oft var leitað á þinn fund,
aldrei brástu' á raunastund,
hjálpin best í harmi' og þraut,
hvíl þig nú við drottins skaut.