Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1977/Örfáir þættir úr lífi einstæðs manns
Örfáir þættir úr lífi einstæðs manns
Umsvifameiri fulltrúa þeirra manna, er jafnhliða stunduðu útgerð og sjósókn á fyrri hluta þessarar aldar, áttu Eyjarnar enga er tækju Gísla Magnússyni fram, því auk þess að eignast stór og góð fiskiskip — stundum óþarflega stór fyrir vanbúna höfn — þá skapaði hann þessari útgerð sinni einnig hina bestu aðstöðu í landi, átti myndarlegustu sjóbúð bæjarins, gott aðgerðarhúsnæði og auk þess eigin bryggju, er við hann var kennd og nefnd Gíslabryggja.
Stórhugur þessa manns í útgerðarmálum kemur þó ekki síst fram í því að hann eignast á lífsleiðinni 19 vélknúnar fleytur, þar af fjórar er hann á í með öðrum. Eitt af þessum skipum er línuveiðarinn Óskar, 150 smálesta gufuskip, er haldið var út bæði sunnanlands og norðan ýmist á síldveiðar eða net. Þetta skip strandaði fyrir norðan land árið 1931 og gjöreyðilagðist.
Fyrstur manna gerir Gisli tilraun með þorskanet árið 1912, lagði trossu austur af Bjarnarey, en það veiðarfæri hvarf með öllu og kom aldrei í leitirnar. Seinna varð Gísli þó langþekktastur aflamaður þeirra er fiskuðu í net. En auk þess að verða fyrstur manna til að reyna þetta veiðarfæri hóf hann, einnig á undan öllum öðrum, árið 1921, veiðar í dragnót. Hafði hann á einni af ferðum sínum til Danmerkur frétt af nýrri veiðitækni, er þar væri tekið að beita og fór að kynna sér hana, en þá var einmitt verið að byrja með dragnót.
En hvernig var nú þessi maður i stakk búinn til að takast á við þá erfiðleika, er upp úr aldamótunum fylgdu sjósókn og útgerð? Hafði hann ekki hlotið traust veganesti í uppeldi og menntun og átti hann ekki traustan fjárhagslegan bakhjall? Ó-nei, það var nú eitthvað annað.
Gísli er borinn í þennan heim á bænum Háa-Rima í Þykkvabæ á Jónsmessudag árið 1886. Voru þau tvíburar hann og systir hans Guðrún, sem er enn á lífi og dvelst hjá börnum sínum í Þykkvabænum.
Skömmu eftir fæðingu lendir dreng¬urinn til föðurforeldra sinna, er bjuggu við fádæma fátækt í Tobbakoti í sömu sveit. Hér dvaldist hann, að vísu við besta atlæti hvað ástúð áhrærði, en fátæktin hafði óhugnanlega hönd í bagga hvað viðurværi snerti.
Venja var að gömlu hjónin fengju afsláttarhross á hverju hausti og mun það hafa verið aðaluppistaðan í fæðunni hvað kjötmeti snerti. Hefur þetta lélega hrossakjöt ekki verið girnilegt til átu, því varla mátti Gísli heyra á hrossakjöt minnst eftir að hann náði fullorðins aldri.
Eitt sinn sagði hann mér frá því, að þegar hann var í Tobbakoti hafi afi sinn, einhverra erinda, þurft að skreppa vestur á Eyrarbakka og úr þeirri ferð komið heim með rúgbrauð. Aldrei hafði barnið bragðað þvílíkt sælgæti: „Ennþá er eins og ég geti fundið bragðið góða í munninum á mér," sagði hann. Má af þessu ráða hve vesæll viðurgjörningurinn hefur verið hjá þessum örsnauðu gamalmennum.
Þegar drengurinn var orðinn sex ára voru þetta orðin örvasa gamalmenni, sem ekki gátu lengur haft sonarsoninn á sínum snærum. Hraktist hann þá til vandalausra austur að ritjukoti í Landeyjum. Á þessum bæ var svo sannarlega ekki mulið undir þennan unga munaðarleysingja. Má í því sambandi geta þess, að einhverju sinni á meðan hann dvaldist á þessum bæ skeði það kvöld eitt að haustlagi; snjór var á jörðu og kalt úti. Var drengurinn þá rekinn upp úr rúminu, berfættur og í einni skyrtu, til að reka gripi úr heyi, er kastað hafði verið í tóft við bæinn, en ekki búið að hlaða upp að.
Frá þessu „sómafólki" komst hann svo einhverra hluta vegna til Vestmannaeyja, þá ellefu ára — ef til vill fyrir atbeina föður síns. Er hann þarna ráðinn til snúninga að Svaðkoti, er seinna nefndist Suðurgarður. Bjuggu þá í Svaðkoti hjónin Jón Jónsson, síðar í Brautarholti og Guðríður kona hans. Þetta var árið 1898.
Í Svaðkoti bar það við einn daginn, að bóndi var ásamt vikadreng sínum að koma fyrir girðingarstaurum. Var það hlutverk drengsins að halda staurunum meðan húsbóndinn hugðist gera þá jarðfasta með aðstoð þungrar sleggju. Þá verður það óhapp að eitt högg bónda geigar með þeim afleiðingum að sleggjan lendir utanvert á höfði vikadrengsins, svo að af verður töluverður áverki. Þó náði sár þetta furðu fljótt að gróa.
Þarna í Eyjum kemst Gísli í einhverja snertingu við skólalærdóm, lærir lestur, skrift og einfaldan reikning auk hinna hefðbundnu kristnu fræða. Mig minnir hann segja mér að samanlagt hafi skólalærdómur hans staðið í þrjá mánuði. Þessa vöntun á nauðsynlegum lærdómi reyndi hann að bæta sér upp, þó að orðinn væri fullorðinn, með því að kaupa sér tímakennslu í erlendum málum og öðru. Vitað var að hann gat allstaðar á Norðurlöndum gert sig skiljanlegan á sinni „Skandinavísku” eins og hann sagði, enda hafði hann þar oftar en einu sinni haft eftirlit með smíði skipa er hann lét byggja þar fyrir sig. í þessum löndum eignaðist hann marga vini er hann heimsótti þegar tækifæri gáfust, og það jafnvel einnig í Englandi.
Vegna þeirra fátæklegu tækifæra er hann hafði fengið til náms hafði hann alltaf brennandi áhuga fyrir því að börn hans öfluðu sér þekkingar og taldi ekki eftir sér stuðning í þeim efnum.
Fjórum árum eftir komuna til Eyja er hann ráðinn, þá 15 ára, sem kokkur til Eldeyjar-Hjalta á skútuna Svift. Á slíkum farkosti var í þá daga ekki sérlega nákvæmt með eldamennskuna. Þótti slíkt starf best hæfa liðléttingum.
Skútukarlar lögðu sér soðninguna til og voru ósjaldan kröfuharðir um að þeir fengju skilvíslega fiskstykki sín eða kinnar, er þeir höfðu merkt sér hver á sinn hátt. En þetta vildi stundum soðna fullmikið og falla frá beinum. Varð þá ekki glögglega séð hvað hver átti. Kom þá stundum fyrir að einhverjir þóttust eiga óuppgerðar sakir við kokkinn. Var þó sökudólgurinn ekki ætíð auðsóttur, því oftast hafði Gísli skörunginn í eldavélinni og tilbúinn til að bregða þessu glóandi vopni þá er óvinir sóttu að. Varð þá oftastnær minna úr atförinni en ætlað var. Auk þessa vopnabúnaðar átti matsveinninn ungi sér ýmsa meðhaldsmenn á skipinu, er ekki létu það afskiptalaust að illa væri farið með unglinginn.
Rétt átti kokkurinn á því, að renna færi gæfist tóm til, og lét ungi maðurinn þennan rétt ekki ónotaðan. Kaup matsveinsins gekk til húsbænda hans, en þann fisk sem hann dró átti hann sjálfur. Blóðugt þótti sumum skútukörlunum að kokkurinn, sem var að skjótast til að renna færi milli skyldustarfa, næði jafnvel hærri hlut eftir úthaldið en þeir.
Hér kom þegar fram hin eindæma aflasæld Gísla Magnússonar sem fylgdi honum til hinstu stundar.
Þegar drengurinn hefur náð 16 ára aldri ræður hann sig í vinnumennsku til þeirra Norðurgarðshjóna, Einars og Árnýjar. Fer hann á þeirra vegum austur á Seyðisfjörð og er þar tvö sumur formaður fyrir róðrarbát hjá Guðmundi Jónssyni á Árnastöðum þar í bæ. Guðmundur og kona hans áttu mikinn fjölda barna, en til marks um það hve vel þeim hjónunum líkaði við formanninn er það, að næsta barn sem þau hjón eignuðust er var drengur var skírt í höfuð Gísla.
Þriðja sumarið var Gísli á Seyðisfirði, þá vélamaður hjá ekkju er gerði út vélbát frá Þórarinsstaðaeyrum, en hann var fljótur að tileinka sér meðferð vélarinnar. Kom þá stundum fyrir að hann þurfti að vera hvorttveggja í senn formaður og vélstjóri.
Er hér var komið sögu taldi Gísli sig fullnuma í því tvennu, að stjórna jafnt skipi sem vél. Settist hann því um kyrrt í Eyjum og gerðist lausamaður, skráður til heimilis að Byggðarholti hjá Antoníusi Baldvinssyni. Eitthvað hefur hann haft upp úr sér í lausamennskunni, því árið 1907 kaupir hann sjötta part í átta smálesta vélbát, sem hann er þó ekki sjálfur formaður fyrir. Er Gísli þar með orðinn útgerðarmaður og nú skráður til heimilis að Fagradal.
Fyrsti báturinn, er hann eignast í tvo fimmtu parta og er sjálfur með heitir ísak, tæplega sjö smálestir.
Næstu árin sækir hann fast sjóinn á smáum fleytum.
Það mun hafa verið í byrjun vertíðar 1913 að hann er einskipa á sjó eins og stundum áður. Báturinn sem hann er með heitir Hlíðdal, níu smálestir, keyptur austan af Seyðisfirði. Þeir voru að leggja línuna nokkuð suður af Súlnaskeri þegar skyndilega brestur á ofsaveður af suðvestri. Ekki treysti Gísli sér í myrkri og stórsjó að snúa undan, heldur hélt upp í veðrið. Lét hann skipverja sína fara undir þiljur, skorðaði sig við stýrið, en stýrishús var ekkert á bátnum. Hélt hann um stjórnvölinn hægri hendi en með þeirri vinstri á olíubrúsa, er hann var smám saman að skvetta úr á þilfarið, en sjórinn skolaði olíunni óðara aftur fyrir farkostinn, sem nú var látinn reka í áttina heim. Dró þetta mjög úr ágjöf á bátinn. Heima voru flestir búnir að telja þessa bátskel af þegar hún í birtingu kom í ljós, öllum til undrunar, fyrir innan Eiði.
Ekki lét Gísli sér lengi nægja neinar smá fleytur, því upp frá þessu fer hann að færast meira í fang og eignast nú hvern bátinn öðrum stærri og betri.
Árið 1911 kvæntist Gísli Sigríði Einarsdóttur úr Reykjavík, er um hríð hafði dvalist að Miðhúsum hjá þeim hjónum Hannesi lóðs og Margréti konu hans. Er Sigríður ein sú ágætasta kona sem ég hef kynnst um dagana.
Í fyrstu bjuggu þau Gísli og Sigríður við þröngan húsakost í kjallaranum á Akri. En það varð hjá Gísla með húsnæðið eins og með skipin, hann vildi ekki lúta að litlu, því örskömmu síðar reisti hann þeim húsið Skálholt við þá götu, er síðar hlaut nafnið Landagata, veglegt hús á þeirra tíma vísu, með fallega afgirta lóð og veglegu inngönguhliði.
Þarna eignuðust ungu hjónin fjögur barna sinna: Sigríði Margréti, Óskar, Ágústu og Harald. Auk þess höfðu þau tekið í fóstur stúlku á fyrsta ári, Ernu Gunnarsdóttur, systurdóttur Sigríðar. Í þessu húsi bjuggu þau til ársins 1926, en þá fluttu þau í hið veglega hús Skálholt við Urðaveg. Um það leyti er hafist var handa um byggingu þessa húss hafði Gísli fengið lífstíðarábúðarrétt á jörðinni Eystri-Gjábakka og byggt hús sitt þar í túninu. Rétt norðaustan við Skálholt, nokkurn veginn í miðju túninu, stóð Leiðarvarðan uppi á dálitlum hól, en sá hluti túnsins er lá austan hæðar þessarar nefndist Akur, þar sem hinn velþekkti Akurdraugur hafði starfsvettvang sinn um langa hríð, svo sem frá segir í þjóðsögum.
Löngu seinna var þetta veglega hús, Skálholt, gert að elliheimili bæjarins. Enda hafði ekkert verið til sparað, þá er það var byggt, til alls vandað jafnt utan húss sem innan. Var þar bæði baðherbergi og vatnssalerni, sem þá þekktust í hæsta lagi í einu öðru húsi í bænum. Þá var og öllu neysluvatni dælt upp með rafdælu, sem þá var algjör nýjung. Hér lá og hvergi hlutur húsfreyjunnar eftir hvað myndarskap snerti.
Í þessu nýja Skálholti misstu þau hjónin fósturdóttur sína úr taugaveiki og þar eignuðust þau tvö síðustu börnin: Garðar Þorvald og Ernu, er lést aðeins tveggja ára að aldri. Og árið 1945 lést svo Ágústa dóttir þeirra, eiginkona Lárusar Ársælssonar, frá þremur ungum börnum. En yngsta barnið, Ágústu, sem þá var nýfædd, tóku þau Sigríður og Gísli að sér til fósturs.
Alltaf var Gísli jafn aflasæll, sem, þó undarlegt megi virðast, átti eftir að koma honum illilega í koll, því árið 1930 má segja að hann aflaði sig næstum á höfuðið. Er það til marks um misjafna verðleika hins Frjálsa framtaks, því þetta ár fiskaði hann meira en nokkru sinni. Aflinn var saltaður, þurrkaður, staflað í hús, umstakkað, burstaður æ ofan í æ vegna jarðslaga, allt fram undir nýjár, er hann loks var seldur úr landi langt undir kostnaðarverði. Þannig urðu þeir verst úti er mestra verðmæta öfluðu. Löngu seinna sagði Gísli við mig: ,,Ég hefði sloppið, ef ég hefði hent öllum aflanum í sjóinn við bryggjuna." Slíkt gat skeð á sama tíma og þriðjungur mannkyns átti í stöðugri baráttu við hungurdauðann.
Eftir þetta voru allar eignir Gísla teknar og fengnar öðrum í hendur, er engan veginn gátu talist hans jafningjar, hvorki að dugnaði eða mannkostum.
En drengurinn sem rekinn var út í snjóinn berfættur á skyrtunni einni til að reka úr heyinu varð ekki knésettur þó að hart væri að honum vegið. Hann sótti fram að nýju með tvær hendur tómar, enda þótt kominn væri á miðjan aldur, og tókst von bráðar að koma aftur undir sig fótum, afla sér nýrra farkosta og reisa sér nýtt hús.
Það var eins og áhugi þessa manns væri ódrepandi. Oftast mátti sjá hann í bíl, á reiðhjóli eða jafnvel gangandi, en alltaf að flýta sér. Stöðugt var eitthvert starf er ljúka þurfti eða hafa eftirlit með. Reyndar naut hann þess í góðu veðri um helgar að sumrinu til að skreppa með fjölskyldu sína og heimafólk vestur í Hraun, þar sem dvalið var í góðviðrinu, spjallað saman og eitthvað haft meðferðis til að nærast á.
Oft voru í Eyjum hörð átök um kjaramál verkafólks og sjómanna. Einhverju sinni var það á útifundi þar sem tekist var á um kjaramál sjómanna að einhver dróttaði því að Jóni Rafnssyni, sem var forsvarsmaður sjómanna, að hann hefði aldrei verið að neinu gagni sem sjómaður. Þessu svaraði Jón með því að biðja Gísla um að segja álit sitt um þetta efni, því hjá honum hafði Jón stundað sjóróðra. Stóð þá Gísli upp og lýsti því yfir að Jón hefði reynst sér hinn ágætasti sjómaður.
Fólk, sem starfað hefur á vegum Gísla Magnússonar, skiptir mörgum hundruðum, þó að margir hafi starfað hjá honum árum saman, nefni ég hér aðeins örfáa, sem öllum Vestmannaeyingum eru vel þekktir, svo sem Ragnar Benediktsson verkstjóra, Þórð Benediktsson, síðar alþingismann. Stefán Árnason lögregluþjón , Þorstein Þ. Víglundsson skólastjóra, Theódór Friðriksson rithöfund, er víða minnist á Gísla í ritum sínum og verkalýðsleiðtogana Guðmund Helgason og Jón Rafnsson.
Hér hefur aðeins verið drepið á örfáa þætti úr lífi þessa einstæða manns, ekkert vikið að merkum tillögum um fiskirækt í sjó, er hann lagði fyrir fiskiþing og oftlega ítrekaði, því síður að því, er honum sýndist engan varða, að hann viki einhverju að örsnauðu fólki eða veitti því svokölluð lán er aldrei var kallað eftir greiðslu á. Hér hefur heldur ekkert verið að því vikið er hann bjargaði skipshöfnum úr sjávarháska. Þó get ég ekki látið vera að tilfæra hér eina stutta sögu. Svo vildi til sem oftar að við Gísli vorum að ræða eitthvað um afskipti æðri máttarvalda af mannfólkinu, en ég dró allt slíkt mjög í efa. Sagði hann mér þá sögu sem mér er minnisstæð.
Þeir voru að koma að, enda orðinn því sem næst ófær sjór. Gísli var eitthvað lasinn og fór því beint í rúmið. Nokkru seinna hringdi síminn. Er það Gísli Johnsen sem flytur þær fréttir að eins báts sé saknað og biður Gísla um að fara að leita. Segist Gísli vera sárlasinn og biður hinn um að leita til einhverra af hinum formönnunum. Nokkru seinna er aftur hringt og er það Gísli sem segir, að hann fái engan til að fara í þessu veðri. Nú úr því svo er, segir Gísli Magnússon, er varla annað að gera en hóa saman einhverjum af skipverjunum og fara að leita, þó að litlar líkur séu til að finna bátinn í kolsvarta myrkri og vitlausu veðri. Skömmu seinna er haldið út í sortann án þess að hafa hugmynd um hvert halda skuli. Gerir Gísli þó frekar ráð fyrir að báturinn hafi haldið eitthvað austur fyrir Eyjar. Eftir svo sem klukkutíma stím móti veðrinu kemur formaðurinn auga á einhverja ljósglætu og er nær dregur sér hann að þetta er báturinn með eina smátíru uppi í mastri. Leggja þeir nú eins nálægt bátnum og telja má vogandi og taka að hrópa og kalla, en enginn ansar lengi vel. Loks eftir langa mæðu gægist einhver upp um lúkarsgatið. Komst þá líf í skipshöfnina og tekst furðu fljótt að koma taug í bátinn, sem þarna hafði lengi verið á reki með bilaða vél. Sögðust bátverjar allir hafa verið komnir niður og búnir að gefa frá sér alla von um björgun og að hending ein hefði ráðið því að þeir heyrðu til okkar.
Söguna endaði Gísli með þessum orðum: „Gat það verið tilviljun ein sem réði því að við hittum þannig beint á bátinn í glórulausu myrkri og ofsaroki?"
Sjómennskan var Gísla í blóð borin, þangað stefndi hugurinn. Þegar hann svo kveður þennan heim, 76 ára að aldri, er hann að útbúa til veiða sitt tuttugasta vélknúna fley — þó að nú væri það minna í sniðum en honum þótti áður við hæfi. En áður en þessi farkostur yrði fær til að flytja hann út á hafið bláa, var hans saga öll.
Sigurganga drengsins frá Tobbakoti var á enda.
Ég sem þetta rita átti því einstæða láni að fagna að verða tengdasonur þeirra Skálholtshjóna og eignast fyrir konu Sigríði dóttur þeirra. Frá þeim Sigríði og Gísla og allri þeirra fjölskyldu á ég ótal hugljúfar minningar, sem endast mættu í margar blaðagreinar, en slíkt er utan við tilgang þessarar ritsmíðar.