Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1977/Lítið brot úr mikilli sögu
Lítið brot úr mikilli sögu
„STÆRÐ:
Lengd: 33,40 m; breidd: 7,20 m; dýpt: 3,40 m. 1. BOLUR.
Efni: Stefni, kjölur, kjölsvín, birnir, skútatré, bönd, skjólborðsstoðir, þilfarsbitar, langstykki undir lestarkörmum og vélarreisn, allur byrðingur, öll innsúð, kjalsýjur, húfsýjur ytri og innri, bjálkasúð, þröm og meginþilja, vélarundirbygging, öldustokkur, skjólborð framan frá stefni aftur fyrir forvant, skútaklæðning fram fyrir hring, m. ö. o. grind öll og bolur skipsins er úr eik."
Á þessari upptalningu hefst smíðalýsing Brynjólfs Einarssonar skipasmiðs á m.s. Helga Helgasyni VE 343, sem hann teiknaði og byggði fyrir Helga Benediktsson á árunum 1941-47. M. s. Helgi Helgason var þá stærsta skip, sem byggt hafði verið hér innanlands og fór smíðin fram við þær aðstæður, sem tæplega þættu við hæfi nú til dags.
Bygging m. s. Helga og m. s. Helga Helgasonar eru merkir viðburðir í sögu Vestmannaeyja. Og þar sem Brynjólfur Einarsson kom svo mjög við sögu í báðum þessum tilvikum, fékk Sjómannadagsblaðið hann til að rifja upp ýmislegt frá þeim tíma — í afar stórum dráttum. Þetta er engin samfelld saga eins eða neins, enda ekki á færi blaðsins að rúma slíkt. En tilganginum með þessari upprifjun væri að fullu náð, ef hún gæti orðið hvatning til skráningar á sögu bátasmíða í Vestmannaeyjum fyrr og síðar, áður en þessir merkilegu þættir úr atvinnusögu Eyjanna falla dýpra í gleymsku en orðið er. Brynjólfur Einarsson segir nú frá:
Aðdragandinn að því að ég byrjaði að vinna hjá Helga Benediktssyni var sá að í ársbyrjun 1936 vildi hann hefja stórskipsbyggingu á þess tíma mælikvarða, undir stjórn og eftir fyrirsögn Gunnar Marels Jónssonar. En Gunnar var í það miklum önnum þegar þetta var, að hann taldi sig ekki geta haft stjórn á verkinu frá degi til dags og bað mig þess vegna að fara í það sem yfirsmiður, og gerði ég það. Þetta held ég að hafi verið 21. apríl 1936. Þarna byrjaði mín nærri 17 ára vist hjá Helga Benediktssyni.
Þessi umrædda nýsmíði varð síðan m. s. Helgi VE 333, og var hann í smíðum til vorsins 1939. M. s. Helgi var 114 tonn að stærð og þá stærsta skip sem stofnað hafði verið til smíði á hér innanlands. Hann var að öllu leyti smíðaður eftir líkani, sem Gunnar Marel gerði, og fékk allra orð fyrir að vera afbragðs sjóskip og alveg sérstakt ferðaskip. Hann var að vísu nokkuð erfiður undir veiðarfærum, því hann var sírólandi eins og stundum virðist vera einkenni góðra skipa.
Ég var sjálfur á m.s. Helga á síldveiðum sumarið 1940 með Ásmundi Friðrikssyni frá Löndum. Ég kunni afbragðsvel við skipið, en það sumar reyndi aldrei á það fyrir alvöru hvernig skip hann var. Það mesta sem ég vissi til að fengist upp úr honum af síld var 1628 mál.
Þegar hafin var smíði á m.s. Helga, átti Helgi Benediktsson fjóra báta fyrir, þá Enok, Auði, Skíðblaðni og Mugg. Allir höfðu þessir bátar verið byggðir hér í Eyjum. Ástgeir Guðmundsson í Litlabæ hafði smíðað Enok fyrir Þórð á Bergi o. fl. og var Þórður lengi formaður á honum. Gunnar Marel byggði hina þrjá, Skíðblaðni og Mugg fyrir Helga Benediktsson einan og Auði fyrir Helga og sameignarmenn hans, sem ég man ekki hverjir voru.
Muggur var byggður á árunum 1934 —35 og var upphaflega 26 tonn, en var síðan lengdur og sett á hann ný yfirbygging. Eftir það mældist hann um 35 tonn.
Ég fer svo sumarið 1939 norður til Siglufjarðar, — var ráðinn beikir hjá Guðmundi Hafliðasyni. En söltun varð engin þetta sumar og vinnan stopul. Guðmundur hafði ráðið fjóra beikira, en hafði lítið að gera fyrir einn hvað þá fleiri. Ég varð auðvitað einn þeirra sem lentu á hrakhólum. Þarna flæktist ég svo um og snapaði vinnu og að éta eftir því sem ég gat, og það gerðu víst fleiri sumarið það.
Og það ætlaði ekki að ganga þrautalaust að komast heim aftur, því nú var stríðið skollið á og allar áætlanir runnu út í sandinn. Ekki var því annað að gera en treysta á síldarbátana.
Konan mín hafði verið á Akureyri hjá foreldrum sínum, meðan ég var á Siglufirði, og með henni drengirnir okkar tveir, Hálfdán Brynjar og Gísli Hjálmar, og komu þau nú til Siglufjarðar og biðu með mér eftir fari. Allir voru til með að taka mig og jafnvel strákana, en kvenmann vildu þeir helst ekki. Sumir báru því við að þeir færu heim með frosna síld og yrðu að halda áfram á hverju sem gengi, og ekki væri því hægt að hafa kvenfólk með.
Svo var það Páll heitinn Jónasson í Þingholti, sem þá var með Mugg, sem ekki horfði í að lofa konunni að fljóta með. Þetta sumar var Muggur gerður út sem tvílembingur með Nönnu, sem Óskar Matthíasson átti seinna.
Ferðin heim gekk nú svona og svona. Við fengum blíðu að Langanesi, en þaðan höfðum við alltaf á móti. Það var alveg sama hvernig bátnum var snúið, hann sneri alltaf beint í vindinn alla leið til Vestmannaeyja.
Svo atvikaðist þetta þannig þegar heim kom, að ég held áfram vinnu hjá H. B., það var nóg að gera við að búa báta hans til vertíðar. Svo kom fljótlega að því að búa þurfti Helga út til siglinga með ísfisk. Og þennan vetur — veturinn 1940 — eignast H. B. Skaftfelling, og það þurfti sannarlega að taka til hendi í honum, því strax var farið að gera hann úr garði til að sigla með ísfisk. Honum var siglt með ísfisk öll stríðsárin, eins og Helga.
1940 vill H. B. láta hefja byggingu á nýju skipi, sem yrði töluvert stærra en Helgi, og bað hann mig að semja yfirlit yfir efni sem til þess þyrfti, sem ég og gerði.
Örðugt var orðið um efnisútvegun, því ekki var lengur um að tala að fá smíðaeik frá Danmörku, vegna stríðsins, en langhelst höfðu menn fengið eikina þaðan. Þá fékk H. B. Gísla Gíslason til að panta efni frá Ameríku. Það kom svo seint á árinu 1941 og ekki þá alveg eins og ég hafði ætlast til, því þetta var allt kantskorið. En til innviðarbyggingar þýðir helst ekki annað en hafa bolina eins og þeir eru lagaðir, því að það eru svo breytilegar breiddir sem menn þurfa.
Sumarið 1941 fór ég að nokkru leyti fyrir áeggjan H. B. til Akureyrar. Hann hafði þá frétt að þar væri að byrja bygging á stóru skipi í skipasmíðastöð K. E. A. Þetta var m.s. Snæfell, sem nú er að berja nestið við bryggju á Akureyri. Ég var svo þarna um þriggja vikna tíma og hafði frjálsan aðgang að því sem var að gerast. Þar kynntist ég Gunnari Jónssyni skipasmið, sem þá var fyrir skipasmíðastöðinni. Hann var einstaklega prýðilegur maður í viðkynningu og ágætur smiður. Hann var óþreytandi við að leiðbeina mér um nýjungar, sem hann vissi um.
Af ýmsum ástæðum dróst að byrjað væri á nýbyggingunni, enda nóg að gera við bátana sem á floti voru. Um þetta leyti varð þessi vísa til:
Svona bæti ég, — seint og snemma,
sýknt og heilagt ár um kring,
og hef ekki undan, — hvað þeir skemma
helst á Mugg og Skaftfelling.
Það var svo loks vorið 1943 að hafin var smíði þess skips, sem hlaut nafnið Helgi Helgason VE 343. Brúttóstærð hans mældist 189 tonn eða allnokkru meiri en m.s. Snæfells á Akureyri. Þar með var Helgi Helgason þegar hann kom á flot, eins og Helgi hafði einnig verið á sínum tíma, stærsta skip sem fram að því hafði verið smíðað innanlands.
Helgi Helgason var byggður í fjörunni norðan við Mylluhól, sem kallaður var. Þar eru nú þrær Fiskimjölsverksmiðjunnar h.f. Þarna var lítill skúrgarmur, sem Sveinbjörn byggingafulltrúi hafði átt og stundað í steinagerð og fleira. Maður hafði hugsað sér að byggja bátinn norðan við skúrinn og láta hann snúa skutnum því sem næst í horn framarlega á Básaskersbryggju, með bryggjuna í huga sem berghald við framsetninginn, því það varð að búa sig undir hann þar sem ekki var byggt í dráttarbraut.
Þarna í fjörunni voru steyptir stöplar, sem kjölurinn var síðan reistur á. Ofan á stöplana voru felld eikarstykki, sem hægt var að leggja bakkastokkinn á, þegar til kæmi að setja skipið í bakkastokk. Svo notuðum við gamla skúrinn fyrir smíðahús og af vinnuvélum höfðum við bandsög og hjólsög, engan þykktarhefil, og af rafknúðum handverkfærum höfðum við bara borvél. Auk þessa höfðum við svo eigin handverkfæri.
Við byrjuðum á bandasmíðinni 24. júlí 1943. Þá höfðum við fengið betra efni en borist hafði með fyrstu sendingunni. Við vorum búnir að smíða böndin í allan framhelminginn áður en kjölurinn var lagður.
Þessir menn voru með mér við upphaf smíðinnar á Helga Helgasyni: Jón Þórðarson (hann réðst til náms í skipasmíði 1942); Jóhann Guðmundsson frá Kolsholtshelli í Flóa, hann lærði einnig skipasmíði hjá mér; Jón Ólafsson frá Mosum; Óskar Vigfússon á Hálsi; Sveinbjörn Guðlaugsson og Svend Andersen. Yfirleitt voru þetta hörkuduglegir menn. Til dæmis held ég að Sveinbjörn Guðlaugsson hafi verið albesti naglreki, sem ég nokkru sinni kynntist.
H. B. kom þarna daglega. Sumir voru að spyrja, hvort mér leiddist ekki að fá hann á hverjum degi. En það var ekki tilfellið. Ég hafði aldrei af H. B. að segja sem ströngum húsbónda, ég held að hann hafi haft gaman af að koma og líta eftir hvað var að gerast frá degi til dags. Eftir að grindin var komin upp, þurfti hann helst á hverjum degi að koma upp á skip.
En hann sagði einu sinni: „Ég er alltaf hálfhræddur í stiga." Og einhvern tíma þegar hann var að staulast þarna upp, varð mér að orði:
Ekki er ráð að senda til siga
svimagjarna á örðugum stað.
Húsbóndinn er hræddur í stiga,
hefur sýnt og viðurkennt það.
Það var ákaflega erfitt að koma Helga Helgasyni á flot. Það var það erfiðasta af öllu verkinu og áhættusamasta líka. Það þurfti að setja hann um 70 metra á þurru. Við byrjuðum á því að lyfta honum í bakkastokkinn. Svo var sett á hann brók og grafið niður stórtré fyrir framan hann. Þar um gekk keðja upp úr jörðu og þar í var lásað stoppvírunum, sem áttu að halda honum frá því að æða. En aftur úr honum var svo tengt austur í Básaskersbryggju. Við höfðum geysistórar blakkir frá landhelgisgæslunni á fleka. Hlauparinn frá dráttarvírnum var svo tekinn inn á botn og sett á hann aukatalía aftan í stórri beltadráttarvél, sem hér var þá. Og á flot fór skipið eftir mikið umstang og erfiði.
Smíðin á Helga Helgasyni tók nálega fjögur ár. Hann var mikið hafður í hjáverkum, því annir kölluðu að vegna hinna bátanna, sem allir voru í notkun. Hann fór á flot 7. júní 1947. Það var sem sagt á afmælisdaginn minn, þegar ég varð 44 ára.
Þetta var þá allt komið í eindaga, síldveiðitíminn að hefjast og skipstjórinn, þessi mikli aflamaður, Arnþór Jóhannsson, var fyrir löngu kominn og beið eftir skipinu. Þó fór þetta allt skaplega á endanum, því það var vinnudeila um síldarkjörin þetta vor og tafði hún síldveiðarnar dálítið. Menn voru sífellt að spyrja hvenær báturinn yrði til. Þá gegndi ég einu sinni þessu:
Þó ennþá sé hann ófullgerður,
ekki er sagt hvað verða kann,
eða sýnt hvort seinna verður,
samningarnir eða hann.
En svo var nú loksins samið og þá varð ljótur hvellur, því ýmislegt var þá enn ógert. Helgi Helgason komst af stað í sína fyrstu veiðiferð 11. júlí 1947.
Til gamans má geta þess, að þeir lærlingar mínir báðir, Jón Þórðarson og Jóhann Guðmundsson, áttu sín sveinsstykki um borð í Helga Helgasyni. Sveinsstykki Jóns var formastrið en sveinsstykki Jóhanns var stýrið og uppsetning á því. Geta má þess einnig, að Jóhann hlaut 10 í einkunn. Prófdómendur voru Runólfur Jóhannsson og Gunnar Marel.
Áður en Helgi Helgason fór af stokkunum, hafði mig dreymt það, sem mér fannst hryllilegan draum. Það var búið að mála skipið og það hafði fengið allt sitt útlit eins og það átti að vera.
Þá dreymdi mig að ég kæmi niður að Helga Helgasyni. Hann var allur hvítur ofan sjávar, utanborðs og innan. En þegar ég kom norður fyrir hann, það er stjórnbörðsmegin að honum, sé ég að sú síðan er svört alla leið upp á öldustokk.
Ég hugsaði mikið vegna þessa draums, hvort mér hefði mistekist þannig með skipið, að það yrði háskalegt. Og þegar óhapp eitt gerðist við sjósetninginn, verð ég að viðurkenna, að ég stirðnaði upp og hélt að nú væri draumurinn að koma fram og skipið mundi verða fólki að bana þarna uppi í fjöru.
En það varð nú ekki.
Ég veit ekki hvort Emil á Sólbakka, sem var stýrimaður á Helga Helgasyni fyrsta sumarið og afburða ágætur maður, hafði einhvern tíma skilið á mér, að í mér væri einhver óhugur. En svo mikið er víst að snemma morguninn eftir að báturinn fer héðan á síldina, hringir Jónas í Skuld heim til mín og segist vera með kveðju frá honum Malla og þau skilaboð til mín, að hann finni ekki annað en báturinn hagi sér eins vel og frekast verði á kosið. Og eftir þetta fékk ég tvisvar eða þrisvar sinnum kveðju frá honum með lofsamlegum ummælum um bátinn.
Það var sama. Það var alltaf einhver óhugur í mér. Var eitthvað að bátnum og mér að kenna, sem orðið gæti afdrifaríkt? En 7. janúar 1950 fórst Helgi VE 333 og með honum báðir yfirmennirnir af Helga Helgasyni. Eftir það flökraði aldrei að mér að neitt væri að bátnum.
Fyrsta vorið var Helgi Helgason nokkuð seinn norður á síldina, en þó mun hann hafa orðið annað eða þriðja skip með afla þá um sumarið. Síðan fór hann á Hvalfjarðarsíldina veturinn 1947 — 48. Yfirleitt sigldi hann þaðan til Siglufjarðar með þá síld, sem hann komst með í lest, en losaði dekkfarminn í Reykjavík.
Ég hygg að einu sinni hafi hann komið með úr Hvalfirðinum 2700 mál, þar af 1200 mál á dekki og 1500 mál fór hann með til Siglufjarðar. 135 kíló voru talin vera í hverju máli.
Ég man að ég var alltaf að spyrja þá, sem á bátnum voru, hvernig þeim líkaði við hann. Maður lagði sig að verulegu leyti í þetta um langan tíma og treysti sér kannski heldur illa. Fræðileg þekking var heldur takmörkuð. Ég hafði lært að vinna og kunni það sæmilega, en ég gat ekki sagt að ónýtur gripur væri góður, í krafti þess að sanna það með tölum.
Helgi Helgason fór víða um á sinni tíð og honum stjórnuðu ýmsir valinkunnir menn og á hann fékkst oft mikill sjávarafli. En það er önnur saga.