Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1976/„Hver liðin stund er lögð í sjóð"
„Hver liðin stund er lögð í sjóð"
Í þessum þætti vilja sjómenn minnast þeirra félaga sinna, eldri og yngri, sem horfið hafa af sviðinu frá seinasta Sjómannadegi, og einnig þeirra, sem staðið hafa sjómönnum nærri í ýmsu tilliti, atvinnulega eða félagslega. Ennfremur vilja sjómenn senda öllum þeim, sem um sárt eiga að binda vegna slysa á sjó eða landi eða annarra orsaka vegna, sínar innilegustu samúðarkveðjur.
Margir þeirra, sem sett hafa svip sinn á byggðina í Vestmannaeyjum á liðnum árum og áratugum, — hver með sínum hætti, — hafa horfið yfir móðuna miklu á liðnu sjómannadagsári. Flestir þeirra höfðu lokið löngum og ströngum starfsdegi til farsældar sínum nánustu, byggðarlagi sínu og landi og þjóð. Slíkum er hvíldin Guðs gjöf. Brottkvaðning gamals manns til meiri starfa Guðs um geim er í eðli sínu ekki sorgarefni. Þar sem tímans rás fær að hafa eðlilegan og réttmætan framgang, skyldi heilög gleði ríkja. Þeir gömlu mennirnir eru kvaddir með virðingu og þökk.
Hitt er öllum mikið efni sorgar og samúðar með vinum og vanda-mönnum, þegar menn á góðum starfsaldri með lítt skerta starfskrafta og í miðri önn dagsins eru burt kallaðir. Og mikil raun er að sjá á eftir ungum mönnum, sem mikils mátti af vænta og miklar vonir höfðu verið bundnar við, sem fyrir slys eða af öðrum óvæntum ótímabærum sökum hverfa á braut á morgni lífsins.
Vestmannaeyingar eru því sem næst allir nátengdir sjónum og því sem úr sjónum fæst. Þeir vita og skilja manna best, að harðsnúin sjómennska við erfiðar og tíðum hrikalegar aðstæður er forsenda þess, að við Íslendingar fáum enn staðist sem þjóð meðal þjóða. Vestmannaeyingar finna til skyldleikans við alla sjómenn á íslandi, hvaðan sem þeir róa og hvar sem þá kynni að bera að landi. Gæfu íslenskrar sjómannastéttar telja Eyjamenn sína gæfu. Sjóskaðar og önnur slys, sem að höndum bera við strendur landsins, fara alls ekki fram hjá Vestmannaeyingum, og þær raunir sem af hljótast, telja Vestmannaeyingar einkum og sér í lagi sínar raunir. Þannig hefur þetta verið frá ómunatíð.
Eyjabúar senda öllum þeim, sem um sárt eiga að binda, sínar innilegustu samúðarkveðjur. Þar eru einnig höfð í huga sjómannaheimili í nágrannabyggðunum, sem nýlega urðu fyrir þyngri sorgum en svo að orð fái lýst. Guð blessi ykkur öll, nær og fjær, og sendi ykkur huggun og styrk.
Sjá laufið hrynur, en lífið er eilíft.
Lát lindirnar hníga í dimman sjó.
Því eitt sinn vor kynslóð skal eignast
í aldanna skögi sitt bergmál þó.
Ó, megi það hljóma sem heilagt ljóð,
er himninum blessar vort land og þjóð
og nýrri og fegurri veröld vísar
á veg hinna eilífu stjarna,
er skína yfir aldanna skóg.
(Tómas Guðmundsson).