Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1975/Vetrarvertíðin 1975 — Vertíðarspjall

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Vetrarvertíðin 1975 - Vertíðarspjall


Hilmar Rósmundsson, skipstjóri.

Vertíð 1975 hófst hér strax upp úr áramótum, með því að flestir hinna stærri báta, sem stundað höfðu veiðar í þorskanet haustið 1974, héldu þeim áfram, einnig fóru nokkrir trollbátar að leita fyrir sér. Árangur beggja var slakur. Ekki þýddi að leggja netin ofan við 100 faðma dýpi og helst nær 200 föðmum en þar sem stöðugar ógæftir voru, var mjög erfitt að athafna sig við veiðarnar. Fljótlega fóru trollbátarnir að fá góðan afla dag og dag, þegar aðstæður leyfðu, og var það nær eingöngu ýsa.

Bátunum fjölgaði smám saman við veiðarnar, og um mánaðamót Janúar-febrúar má segja, að flestir væru komnir á einhverja hreyfingu. Einn bátur fór á línu, en sú gamla veiðiaðferð brást algjörlega vegna ógæfta, þar sem aldrei var hægt að róa þangað, sem helst var fiskjar von.

Sæmilega hafði tekist að manna flotann, og betur en oft áður. Má það furðulegt heita, þar sem verðákvörðun á ferskfiski drógst mjög óeðlilega, svo að ekki sé meira sagt. Sýnir það vel mátt, eða réttara sagt máttleysi samtaka sjómanna og útvegsmanna, að þau skuli átölulaust láta það viðgangast, að þeir menn, sem þeir eiga að hafa umboð fyrir, skuli ýmist reka útgerð eða stunda sjómennsku, í heilan mánuð, án þess að hafa hugmynd um hvað þeir bera úr býtum, því að auðvitað hlýtur verðið á fiskinum að vera aðalatriðið, hvað sem líður skiftið samdráttur á móttöku í landi.

Loðnuveiðarnar gengu vel, þrátt fyrir erfitt tíðarfar, og náðist nær því sama aflamagn og á vertíðinni 1974, en verðmæti aflans var miklum mun lægra, og hlutur skipverja og ótgerðar því langt um minnien þá. Pó að ekki væri bjart yfir þorskveiðunum, hættu flest smærri loðnuskipin, áður en þeim veiðum lauk, þar sem verðið á loðnunni var orðið það lágt, að útilokað var að liggja lengi með lítinn fram og bíða löndunar.

Netavertíðin glæddist ekkert með febrúar, en trollbátarnir voru af og til að fá ágætis róðra, og sumir gerðu það prýðilegt, sama má segja um marzmánuð, og þegar Páskadagur rann upp þann 30. marz án þess að vart yrði við fisk, að nokkru ráði, gerðust margir vondaufir um vertíðina. Strax upp úr mánaðamótunum marz-apríl virtist þó ganga nokkurt þorskmagn á allstórt svæði vestan Eyja. Þessi fiskur stóð mjög stutt við á miðunum, og má ef til vill kenna veðráttunni um hve fljótt hann hvarf þaðan. Þó fengu bátarnir yfirleitt reitingsafla í eina til tvær vikur, og bjargaði það því, sem borgið var af þessari lélegu vertíð.

Á nótaveiðum við Eyjar.

Um miðjan apríl fluttu margir netabátarnir sig austur fyrir Eyjar aftur, en aldrei kom neitt hlaup þar heldur, en þeir sem best lentu í því fengu reiting af blönduðum fiski í nokkra daga. Trollbátarnir voru þó alltaf af og til að reka í stór ufsahol á milli Hrauna og í Háfadýpi og má segja að þeirra hlutur í vertíðaraflanum hafi verið stærri en oftast áður.

Höfuðeinkenni þessarar vertíðar eru að mínu mati ákaflega erfið veðrátta, og mjög lítil þorskgengd á miðin hér við suðurströnd landsins.

Þrátt fyrir það, að tækninni hafi fleyft mjög fram á flestum sviðum, á síðustu árum, þá er mannskepnan ekki orðin þess megnug að stjórna veðráttunni. Um hitt eru skiftar skoðanir hvort mjög lítil þorskgengd á hinar hefðbundnu hrygningarstöðvar stafi af mannlegum mistökum eða ekki. Mitt álit er það, að engan þurfi að undra þó að hrygningarsvæðin hér, séu ekki auðug af stórþorski, eins gífurleg og vaxandi rányrkja er stunduð hér við land. Það er keppst við að kaupa inn ný og fullkomin skip, en svo dýr að útilokað er að reka þau. Jafnvel á sama tíma, sem verið er að veita ríkisábyrgð fyrir öðrum skipum, eins að öðru leyti en því, að þau eru mun dýrari. Furðuleg stjórnviska það.

Hverjir eiga svo að greiða fyrirsjáanlegan taprekstur? Eru það þeir sem teljast eigendur?
Ekki aldeilis, það er ríkið, þú og ég. Þessum skipum er síðan beitt á grunnsævið í kringum landið, þar sem þau ennþá ná í þokkalegan afla. En því miður er það að stórum hluta fiskur, sem skilyrðislaust þyrfti að fá að lifa nokkuð lengur. Hann er ókynþroska og gefur ekkert af sér nema sína eigin þyngd, sem síðan er jafnvel erfitt að koma í peninga. Ekki má heldur gleyma stóraukinni notkun á smáriðnum vörpum, sem engu lífi eira, sem fyrir þeim verður.

Árið 1975 er sérstaklega útvalið kvennaár!

Allt er þetta gert, að því að sagt er, til þess að auka og jafna atvinnu á landsbyggðinni. En þær spurningar hljóta að leita á, hvað sú atvinnuaukning endist lengi, og hve lengi sé hægt að ausa upp smáþorski án þess að stofninum sé veruleg hætta búin. Mér finnst þannig á málum haldið, að þeir, sem þessu stjórna, hafi gert sér það ljóst, að þeir verði ekki ellidauðir við stjórnvölinn, og því verði það annarra höfuðverkur að leysa þann vanda, sem óhjákvæmilega skapast, ef ekki reynist unnt að stunda arðvænlegar fiskveiðar á Íslandsmiðum.

Ég held að skynsamlegra væri að fara hér að með meiri gát, hvort sem íslenskur efnahagur þolir, á þessum síðustu og verstu tímum, að missa nokkra togarafarma af þyrsklingi af útflutningstekjum sínum eða ekki, þá mundi minna smáfiskadráp áreiðanlega skila sér aftur í mörgum förmum af verðmætum stórþorski, sem auk þess væri þá búinn að auka kyn sitt öldnum og óbornum til hagsbóta. Auk þess er það álit margra, sem um þessi mál hugsa, að miðin séu nú þegar ofnýtt, og að hvert það skip, sem við bætist, taki aðeins afla frá þeim sem fyrir eru. Þar sem um aflaaukningu geti ekki verið að ræða hvað sem sókninni líður.

Ég hef nú gerst nokkuð langorður, og ef til vill farið út fyrir efnið, en að endingu má geta þess til marks um hve vertíðin var léleg, að einungis tveir Vestmannaeyjabátar ná afla yfir 700 tonn, en það þótti þokkalegur meðalafli fyrir nokkrum árum. Þórunn Sveinsdóttir ber af með fast að 1000 tonna afla, en þess ber að gæta að stóran hlut hans, fékk báturinn austur í Meðallandsbug, og ég veit að það hefur oft verið harðsótt hjá Sigurjóni Óskarssyni og hans mönnum að stunda þau mið í veðráttu eins og var í vetur. Það verður ekki gert nema á stórum og góðum bátum með harðsnúið lið.

Í Vinnslustöðinni. Myndskreyting eftir Matthías Ástþórsson frá Sóla.

Hilmar Rósmundsson.