Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1969/ Vetrarvertíðin 1969

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Vetrarvertíðin 1969


Á loðnuveiðum undir sandi. Ljósm. Sigurgeir.

Vetrarvertíðin 1969 hlýtur að teljast einstaklega góð vertíð hér í Vestmannaeyjum og í verstöðvum sunnanlands. Hafa aldrei svo margir bátar aflað yfir 1000 tonn, en auk bolfiskaflans var loðnuaflinn sérstaklega góður og aldrei betri. Þessi vertíð og aflasæld telst enn meiri, þegar haft er í huga, að á línuvertíð var mánaðarverkfall bátaflotans. Aftur urðu svo tafir og aflageta bátanna stórskert, þegar 4ra daga verkfall landverkafólks skall á í endaðan apríl. Þetta öryggisleysi á vinnumarkaðnum skyggði nokkuð á ánægju fólks og öryggiskennd yfir góðum feng.
Tíð var sæmileg, en nokkrir harðindakaflar komu í byrjun vertíðar. Hefði fiskur haldið sig alla vertíðina á sömu slóðum og í fyrra, við Klöppina og á Karganum, hefði verið mun erfiðara að eiga við netin. Fiskur hélt sig mest og allan síðari hluta vertíðar á norðvesturslóð, á Þjórsárhrauni og þar inn af. Er þar oft ágætisveður til veiða, þó að strekkingur sé dýpra úti.
Afli báta var ákaflega misjafn, þó að hann væri yfirleitt sérstaklega góður hjá netabátum. Var afli oftast mjög tregur alla vertíðina hjá togbátum, en rokafli í netin; þó fiskaðist misjafnlega í net, einkum til að byrja með.
Enginn teljandi afli fékkst í þorsknót, einn bátur mun í eitt skipti hafa fengið viðbragð við Drangana, eitthvað um 40 tonn. Afskipanir framleiðslunnar voru tíðar, einkum á loðnumjöli, og því mikil og góð atvinna yfir vertíðina. Vetrarvertíðin hófst strax með janúar, og það var óvenjulegt, að einn bátur, Björg, var þá kominn með net. Hafði Björg lagt net skömmu fyrir áramót og fékk t.d. daginn fyrir gamlársdag 47 tonn eftir þrjár lagnir, mestallt ufsa. Var báturinn með 45 net í sjó og lagði við Reynis dranga. Ekki stóð þó þessi veiði lengi yfir í netin. Fékk þó 10 tonn á þrettándanum.
Ágætis veður og gæftir voru í byrjun janúar, en nokkuð kalt. Miklar blikur voru á lofti. Höfðu öll sjómannafélög sagt lausum samningum í framhaldi af lagafrumvarpi því, sem Alþingi færði sjómönnum í jólagjöf og raskaði öllum grundveili fyrri kjarasamninga.
Skall svo á allsherjar verkfall á bátaflotanum á miðnætti 19. janúar. Hafði þá 21 bátur hafið róðra, voru 7 með línu, 10 á trolli og 4 á netum. Nokkrir bátar fóru út sama kvöldið og verkfallið skall á, þrátt fyrir 10 vindstig af austri og ekkert sjóveður. Höfðu þeir ekkert upp úr krafsinu. Stóð svo í þrefi í mánaðartíma eða til 18. febrúar, en þá var deilan komin út í stífni og sjálfheldu. Var verkfallið leyst með lögum, er byggði á tilboði sáttasemjara og hjó þannig Alþingi á eiginn hnút, enda allt að komast á vonarvöl.

Netin steinuð niður. Ljósm. Sigurgeir.

Veður var rysjótt verkfallsdagana, frost og kuldi. Fyrstu daga febrúar hélt landhelgismálanefnd alþingis hér góðan fund og fjölsóttan. Hinn 8. febrúar misstu Vestmannaeyingar eitt sinna beztu skipa úr plássinu. Var Gideon VE 7, 300 tonna glæsilegt skip, selt austur á Firði. Þótti Eyjamönnum súrt í brotið, að örsnauð byggðalög með engan rekstrargrundvöll slíkra skipa skyldi með okkar fé (ríkisstyrkjum) geta keypt beztu skipin héðan. Varð að selja skipið vegna fjárhagsörðugleika, þó var það rekið með myndarskap gróinnar útgeiðar og aflaði mjög vel undir stjórn þekkts aflamanns. Misstu þar 20 til 30 fjölskyldur atvinnu sína. Það væri fróðlegt að vita hjá fjármálaséníum þjóðarinna, sem öllu ráða, hvað þjóðarbúið hefur hagnazt á þessum eigendaskiptum eða hitt þó heldur. Þetta var aflahæsta skipið á loðnuvertíð í fyrra, en á þeirri miklu loðnuverríð, sem var s.l. vetur, veiddi það enga loðnu, að því bezt er vitað. Að loknu verkfalli héldu bátar strax á veiðar, og fékk Halkion þá strax 140 tonn af loðnu undan Dyrhólaey. Var síðan landburður af loðnu dag hvern. Fyrstu vikuna tóku verksmiðjurnar tvær hér á móti um 15 þúsund tonnum af loðnu, og var stanzlaus löndun á allar hafnir frá Hornafirði til Akraness þessa daga. Bárust t.d. einn sólarhringinn 23/24 febrúar 2.500 tonn á land, en dagveiði alls flotans var iðulega 8 til 10 þús. lestir. Voru þær víðast hvar yfirfullar og víða gripið til þess neyðarúrræðis að aka loðnunni á tún. Hver loðnugangan kom af annarri, og hélzt loðnuveiðin að mestu út allan marz. Samtals öfluðust 166.500 tonn af loðnu (1968: 78 þús.), og voru Vestmannaeyjar langhæsta löndunarhöfnin með 50.450 tonn, næst var Reykjavík með 34.000 tonn og Keflavík með rúm 18.000 tonn. Heildarverðmæti loðnuaflans mun vera um 350 milljónir króna í erlendum gjaldeyri.
Afli bolfiskbáta var í fyrstu misjafn, tregur hjá trollbátum, þó fékk einstaka bátur góðan túr. Í endaðan febrúar fiskuðu Bjarnarey (skipstjóri Sigurður Georgsson) og Gullborg (Binni í Gröf) ágætlega austur frá. Nokkur ótíð var fyrstu viku af marz, en að henni liðinni varð mokafli í net, og var það að mestu ufsi. Rótfiskuðu margir netabáta, Sæbjörg, Andvari, Sæunn, Huginn, Stígandi o.fl. Var almennur afli á miðum hér sunnanlands og á svæðinu frá Hornafirði til Stykkishólms var heildaraflinn um miðjan marz orðinn 33.800 lestir og aðeins 1300 lestum minni en árið áður þrátt fyrir verkfallið. Höfðu þá borizt 6.300 lestir á land í Vestmannaeyjum á 60 báta, en árið áður 5.225 lestir á sama tíma.
Um miðjan marzmánuð tregðaðist nokkuð í netin, en frá 20. marz var mokafli í net og góð tíð. Var þá fiskur genginn á Þjórsárhraun og síðustu daga marz var almennur afli netabáta 20-30 tonn að meðaltali, en betri bátar öfluðu þaðan af meira.
Við marzlok var heildarafli af bolfiski 14.500 tonn tæp, en árið áður 8.100 lestir, 12 bátar höfðu þá aflað yfir 300 tn., en t.d. aðeins 4 vertíðina 1967. Bátafjöldi svipaður. Sæbjörg var þá langhæst með 827, en 7 bátar voru með yfir 600 tonn í um 40 sjóferðum. Sést bezt af þessu, hvað aflinn var mikill og góður síðari hluta marz. Páskadag bar upp á 6. apríl. Um skírdagshelgarnar gerði suðvestan hvassviðri og stórveltubrim, og náði brimið upp í grös á Bjarnarey föstudaginn langa. Laugardag fyrir páska var sjóveður og allir á sjó. Var ljót aðkoma hjá flestum netabáta. Miklar flækjur og hnútar. Varla nokkur bátur var kominn að fyrir miðnætti, og voru bátar að koma að fram undir 9 á páskadagsmorgun. Það var því lítil páskahelgin hjá mörgum sjómanninum. Löndun lokið um hádegi og svo víða unnið við flækjur og hnúta fram eftir degi. Afli í dræsurnar var ágætur, margir með 40 tonn og upp í 60 tonn. Bárust samtals á land 800 tonn þennan dag. Fiskurinn var þó sem von var mjög lélegur og fór að mestu í skreið. Sumir bátar urðu fyrir miklu netatjóni og áttu lítil veiðarfæri í sjó næstu daga. Kostaði þetta páskahret flotann milljónir króna.
Það var næsta hlálegt öllum, sem finna slagæð þjóðarinnar, að þennan erfiða dag sjómanna hér á miðum sunnanlands, vafði fínt menningarfólk í Reykjavík sig teppum, drakk vatn og spilaði á spil - hélt Hungurvöku svonefnda -vegna hörmunga og hungursneyðar skelfilegrar í Biafra. En ráðherrar og biskup landsins heilsuðu með andakt upp á píslarvottana. Það varð önnur vaka og erfiðari á netabátum hér á miðunum og unnið hörðum höndum við að fram fleyta sér og sinni þjóð. Ekki var þess getið, að ráðherrar hefðu komið á bryggjurnar hér syðra.

Skipshöfnin á Engey vertíðina 1969. Frá vinstri: Matthías Óskarsson skipstjóri, Björtgvin Ólafsson 2. vélstjóri, Hannes Bjarnason 1. Vélstjóri, Rúnar Jóhannsson háseti, Sigmar Magnússon neta maður, Kristján Óskarsson stýrimaður, Baldvin Nielsen matsveinn.

Afli togbáta var misjafn. Engey er langsamlega hæsti togbáturinn, skipstjóri Matthías Óskarsson. Hefur hann sýnt og sannað að hann er mikill fiskimaður, sem stundar veiðarnar af kappi, eins og hann á kyn til. Er þetta önnur vertíð hans sem formanns. Í endaðan marz gerði Engeyjan t.d. tvo 50 tonna túra hvern á eftir öðrum. Um þetta leyti öfluðu togbátar mest á hörzlunum vestan Surtseyjar, en erfitt var að ná þar fiski, nema hafa bobbingatroll. - Af ungum formönnum, nýbyrjuðum formennsku, sem vöktu athygli fyrir ágætis fiskirí og sjómennsku, má nefna Sigurð Georgsson á Bjarnarey og Jóhann Guðjónsson frá Vallartúni á Þristi. Afli í apríl varð ekki eins mikill og óvenjugóður afli marz-mánaðar hafði vakið vonir um. Þó var afli aprílmánaðar ágætur, en tíð var rysjótt í byrjun mánaðarins og gæftir stirðar. Góður afli fékkst á norðvesturslóð.
Í byrjun maí fékk Lundinn (Siggi Vídó) ágætis viðbragð við Rófuna, um 20 tonn í róðri. En fiskur var brellinn og hvarf fljótlega af þessum slóðum. Togbátar fengu gott viðbragð fyrstu dagana í maí, 25-35 tonn í túr. Um miðjan mánuðinn tregðaðist mjög afli í öll veiðarfæri.
Netabátar fóru almennt að taka upp net, er vika var af maí, og 14. maí tóku síðustu bátar net sín úr sjó. — Lauk þar með einni beztu vertíð, sem komið hefur um nokkurt árabil í Vestmannaeyjum.
Á vertíðinni gengu 8 trillur og litlir þilfarsbátar. Reru þeir með línu og handfæri og fiskuðu vel. Hæsta trillan er Hlýri með 77 tonn ósl., formaður Bjarni Guðmundsson í Háagarði. Hyggur hann nú á kaup stærri báts. Á vertíðinni gengu 74 bátar, þegar flest var. Flestir á togveiðum voru 43 bátar, á netum 29 og línu 7.
Meiri háttar slys urðu ekki, en 2 menn féllu í höfnina og drukknuðu. Á netvertíð slasaðist Ingi Einarsson vélstjóri á Kap illa, er dreki kom í höfuð hans.
Vertíðaraflinn og móttaka hans.
Bolfiskur lagður á land frá áramótum til 15. maí var 31.500 lestir (vertíðina 1968: 27.800 lestir).
Lifrarmagn á vertíðinni var 1340 tonn ('68: 1348) og nýting lifrar 57%. Virðist sem lifur sé ekki hirt á öllum bátum og fara þar mikil verðmæti og erlendur gjaldeyrir forgörðum.


Bolfiskafli báta vetrarvertíðina 1969, 1.janúar til 15. maí.- Netabátarnir, sem öfluðu yfir 700 tonn:


Samtals náðu 13 bátar yfir 700 tonnum, en í fyrra náðu 7 bátar þeim afla, 1967 6 bátar yfir 700 tonn og 1966 aðeins hæsti bátur með 725 tonn.
Togbátar með afla yfir 300 tonn:

Móttaka aflans.
Af aflanum var mun meira fryst en árið áður. Í skreið fóru aðeins morkur bænadagaaflans.
Fjölbreytni framleiðslunnar vex heldur, og í fyrsta skipti var loðna fryst hér til manneldis. Frysti Fiskiðjan 102 tonn af loðnu fyrir japanskan markað. Kom japanskt skip hingað síðari hluta vetrar og tók farminn. Var það í fyrsta skipti, að japanskt skip kom hér til hafnar. Samtals seldu Íslendingar 750 tonn af loðnu til Japans. Vinnslustöðin frysti 60 tonn af loðnu til beitu. Fiskiðjan frysti 76 tonn af svilum. Eru svilin notuð til lyfjaframleiðslu í Noregi. Því miður gengur hér ennþá hægt með niðursuðu.

Móttaka bolfiskaflans, heildarmagn ósl. m.h. (20% lagt við slægðan afla) 1. jan. til 15. maí 1969:



Hæstu loðnubátar á vertíðinni voru Gísli Árni með um 7.800 tonn, Gígja, 7.000 tonn, Eldborg, 6.400 tonn og Örfirisey, 6.300 tonn.
Heildaraflinn á land í Vestmannaeyjum vetrarvertíðina 1969 var því:


Eru þetta rúmlega 22% af heildarafla landsmanna vetrarvertíðina 1969.
Heildarafli bátaflotans til 1. maí var 181.400 tonn. Togaraflotinn var með 21.500 tonn. Heildarloðnuaflinn var 166.500 tonn. Aflamagn samtals um 370 þúsund tonn. — Grindavík er vaxandi löndunarhöfn. Var landað þar 36.000 tonnum af bolfiski sl. vertíð, en tveim þriðju hlutum þessa afla var ekið til nærliggjandi verstöðva á Suðurnesjum.