Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1966/ Garðsverzlun og athafnasvæði Miðbúðar í Vestmannaeyjum
Skýringar við myndina gerði höfundur hennar, listamaðurinn Engilbert Gíslason málari. Hann er fæddur í Vestmannaeyjum 12. október 1877, og alinn upp í foreldrahúsum á Tanganum. Engilbert er enn hinn ernasti, stálminnugur og skemmtilegur. Ber hann aldurinn svo vel, að ótrúlegt er, að hann verði níræður á næsta ári. Gengur hann til verzlunarstarfa dag hvern, en til dægrastyttingar teiknar hann og les dönsk skáldrit.
Aldrei geng ég svo af hans fundi að mér komi ekki í hug: „Hvenær ætla Vestmannaeyingar að sýna Engilbert og öðrum listamönnum verðugan sóma og koma á fót hér listasafni?“.
En kannske þorir enginn að minnast á slíkt í því safnaöngþveiti sem er í Vestmannaeyjum um þessar mundir. — Ritstj.
Frá vinstri: Skansinn, og sér á Kornhól nyrzt, þá sér á flaggstöng, sem ber norðan við stóru flaggstöngina á Skansinum, sem er með fána að hún. Var stöng þessi notuð til merkjagjafa um sjólag á Leiðinni.
Vestan við Skansinn: Kornhúsið, og ber flaggstöngina á Leiðarvörðunni yfir húsið, en Leiðarvarðan og stöngin stendur enn austan við Gjábakka. Vestan við Kornhúsið er Bryde-stofa, sem hverfur á bak við Austurbúðina. Fyrir norðan Kornhúsið, sem var ásamt fleiru notað sem geymsluhús fyrir lýsi (lýsishús) sést bræðsluhúsið, lágur kofi og voru allir veggir hans hlaðnir, nema vesturstafn, sem var úr timbri með dyrum móti vestri.
Beint niður undan bræðsluhúsinu var Steinbryggjan, flöt klöpp og bryggja af náttúrunnar hendi að vestan, notuð til uppskipunar á vörum áður en Austurbúðarbryggjan kom.
Holuklettur, en í hann lágu festar kaupfara á legunni, sést austan við Steinbryggjuna, niður af Skansinum, og skín á klettinn.
Vestan við Austurbúðina sér á þakið á gömlu búðinni. Á henni voru dyr, sem sneru beint á móti nýju Brydebúðinni (Austurbúðinni). Húsin 2, vestan við Austurbúðina, voru notuð sem hér segir: Í syðra húsinu var tekið á móti lifur, hrognum og blautfiski, einnig var afhent þar salt, en í nyrðra húsinu var geymdur þurrfiskur. Í báðum húsum var timburgólf.
Norðurhúsið var alltaf hreinlegt og þokkalegt hús og voru þar haldnar brúðkaupsveizlur og dansað. Þegar veizlur voru haldnar var tjaldað fyrir með segli í vesturenda í norðurhúsinu og þar geymt rommtoddý, sem ætlað var karlmönnum, en fyrir kvenfólkið var rauðvínstoddý (púns); var þetta nokkurs konar búr, og geymt þarna brauð og skonrok, sem borið var fram einhvern tíma nætur.
Dyr með vængjahurðum voru á hliðum þessara húsa og sneru þær andspænis hvor annarri. Ef gott var veður opnuðu menn dyrnar, en fólk dreif að og horfði á veizlugesti. Iðulega hraut þá staup að áhorfendum frá frammistöðumönnum. Guðjón Jónsson á Oddsstöðum var oft frammistöðumaður, en sérstaklega man ég vel eftir Hannesi lóðs sem frammistöðumanni. Man ég vel eftir að Hannes söng eitt sinn borðsálm í einni veizlu, sem ég komst í sem krakki. Í þessu húsi var sett leikrit á svið. Var það Hrólfur og lék Eldeyjar-Hjalti þar ásamt fleirum, en Gísli heitinn Bjarnason lék ungan oflátung. Eitt sinn man ég eftir að í þessu húsi var haldin hlutavelta og var stærsti vinningurinn kommóða.
Vestan þessara húsa, vestan við stíginn, sem liggur upp af bryggjunni, er pakkhús, sem tilheyrði Miðbúðinni (Godthaabsverzlun), og stendur vesturgaflinn fram á klappirnar, sem voru upp af Fúlu, litlu sandviki, sem lá skáhallt upp frá Nausthamri.
Vestur undan pakkhúsinu sér á lágan kofa, er það bræðsluhús Godthaabsverzlunar. Stóð bræðsluhúsið vestan undir stakkstæði, sem lá frá norðri til suðurs. Fyrir vestan bræðsluhúsið er hús, sem snýr í norður og suður og er skúr vestan á húsinu. Er það lýsishús Godthaabsverzlunar (sbr. grein Þorsteins í Laufási). Pakkhús þetta var einnig notað sem geymsluhús fyrir þurrfisk og vestan undir pakkhúsinu stóð þrístaura gálgi með 2 stórum vogarskálum. Var önnur skálin fyrir lóð, en hin fyrir fiskinn, sem veginn var inn. Eitt skippund (320 pd. 160 kg.) var vegið inn í einu.
Notuð voru 100 punda lóð, 160 punda lóð (80 kg.) eða 16 fjórðungar og 5 lýsipundalóð (5 x 16 = 80 pund). 16 punda lóð var kallað 1 lýsipund, 160 punda lóð var kallað 16 fjórðungalóð. Stóðu lóðin vestan við pakkhúsið. Í æsku minni á Tanganum og sagði faðir minn mér frá því, að eitt sinn hefði hann og Gísli Stefánsson á Hól, faðir sr. Jes, gengið þarna framhjá og hefðu þeir þá séð franska sjómenn, sem voru að reyna sig við lóðin. Hnippir þá Gísli Stefánsson í nafna sinn og segir: „Eigum við ekki að sýna þeim hvað við getum, nafni?“ en þeir nafnarnir voru báðir vanir pakkhúsmenn og vanir að taka upp þung lóð og tunnur. Tóku þeir nafnar síðan 400 pd. upp í annarri hendi og blöskraði þá Fransmönnunum.
Var algengt að menn reyndu krafta sína við lóðin, en sérstakt lag þurfti til að taka þau upp, mátti ekki rykkja þeim upp, og ofreyndu margir sig á þessum aflraunum.
Sunnan pakkhússins sést Godtaab með skástöfnum. Var það íbúðarhús, og bjó þar verzlunarstjórinn fyrir Miðbúðinni. Fyrir austan þessi hús er Nöjsomhed með skástöfnum og 2 skorsteinum. Var þar fyrsti barnaskólinn. Uppi á bæjum, efst á hólnum, má sjá myllu Árna Einarssonar á Vilborgarstöðum.