Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1965/ Halldór Kolbeins sóknarprestur
Mér finnst fara vel á því að minnast sr. Halldórs Kolbeins í blaði sjómanna, því að auk þess að vera sérstakur mannvinur var hann einlægur vinur sjómanna.
Hann hélt sjaldnast svo ræðu, að hann en-aði hana ekki á sérstakri bæn fyrir sjómannastéttinni:
„Breiðist, Guð, þín blessun yfir bát á miði,
skip á sjó.
Leið þú aftur heilu og höldnu heim til lands
hvem unnarjó.
Forsjá þinni felum vér fiskimanna djarfan
her —“.
Mér er sr. Halldór minnisstæðastur þar sem hann stóð í stólnum og boðaði fagnaðarerindið af eldmóði, breiddi út faðminn og sagði í anda Páls postula: „Guð er ekkeir nema kærleikur, kærleikurinn trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. Keppið eftir kærleikanum“. Sr. Halldór Kolbeins var vissulega kærleikans maður.
í Sjómannadagsblað Vestmannaeyja skrifaði hann oft. Er þar margt fallega sagt um sjómannastéttina. Um sjómannsstarfið sagði sr. Kolbeins: „Sjómannslífið er fagurt lif og sjómannsstarfið er göfugt starf, þegar það er rétt skoðað. Þér vitið öll, hvernig það getur orðið rangsnúið. Því þarf ekki að lýsa. Ég á við, hvernig það getur, siðferðilega séð, fengið yfir sig óheilbrigðan blæ, svo að orðfæri og framkoma minni ekki á lærisveina Jesú Krists. En sjómannslífið er samt helgað Guði. Það er heilagt starf. Og Guð er með yður á vötnunum. Það sem ég vildi lýsa var þetta, hvernig vér sjáum Guð í lífi og starfi sjómanna. Því að Guð er í fegurðinni. Guð er í tigninni, Guð er í kjarkinum, sem birtist á sjónum. Guð er í stormunum og báruföllunum og Guð er í lognsléttum sjónum. Allir, sem sjá eitthvað fagurt og göfugt við sjómannslífið, sjá þar Guð að starfi. Sjómannslíf í herrans hendi, helgast fósturjörð, segir skáldið“.
Sr. Halldór var mikill tungumálamaður og víðlesinn, var bæði stórfróðlegt og skemmtilegt að eiga samræður við hann stundum var flugið svo mikið að erfitt gat reynzt að fylgjast með honum.
Auk þess að vera trúr og traustur kirkjunnar þjónn lét hann sig öll menningarmál varða, og var honum í sannleika ekkert mannlegt óviðkomandi.
Hann var í kynnum við alla helztu andans menn þjóðarinnar og rithöfunda, og verður saga stórskálda eins og Laxness og fleiri ekki rituð né skilin til fulls, nema könnuð sé og þekkt þau áhrif kærleika og andagiftar, sem þeir fengu frá hinum einlæga boðbera fagnaðar og friðar, sr. Halldóri Kolbeins.
Fæddur var sr. Halldór að Staðarbakka í Miðfirði 16. febrúar 1893, var hann góðra og merkra ætta í báðar ættir.
Hann var kvæntur hinni mestu ágætis- og gáfukonu, Láru Ólafsdóttur frá Hvallátrum.
Þau eignuðust 6 börn og ólu auk þess upp 2 fósturbörn.
Sr. Halldór lézt í Reykjavík 29. nóvember 1964.
Allir þeir, sem kynntust sr. Halldóri, minnast hans með hlýju og þakklæti og senda ekkju, börnum og öðrum vandamönnum kveðjur.
En á Sjómannadegi í Vestmannaeyjum minnast sjómenn hans sem eins úr sínum hópi.
Blessuð sé minning hans.