Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1963/ Saga sem endar vel
Þegar þú sérð slík skip á hafinu, dettur þér í hug löngu liðin ár — eða kannski að skipið hafi verið yfirgefið endur fyrir löngu, en síðan rekið stjórnlaust um heimshöfin. Eða hvað . . . það rýkur úr háum skorsteininum og skipið siglir í ákveðna átt, og þarna eru menn um borð. Og þú ferð kannski að brjóta heilann um, hvers konar menn þeir séu — þeir eru sannarlega á eftir tímanum.
Skipið er gamall biksvartur flutningadallur. Skrokkurinn er ryðskellóttur og rauðir menjublettir á bógnum. Stjórnpallurinn hefur ákveðna reisn og lítil vængskýli, sitt á hvoru borði. Strompurinn er einnig svartur — kannski með mjóa rauða rönd um kring, kannski er mynd af skeifu eða bara hvítmálaðir stafir — og það er allt og sumt.
Þér bregður ekki hið minnsta þótt kyndararnir séu sóðar og þvoi sér helzt aldrei. Og vélstjórinn sé iðulega undir áhrifum — og skipstjórinn sé gamall sérvitringur, sem þolir helzt ekki að sjá nýtízkuleg skip án þess að tvinna saman blótsyrðin.
Á s/s Orion var þetta allt fyrir hendi nema hvað vélstjórinn drakk ekki. Hann talaði um vandamál fjölskyldu sinnar við hvern sem hlusta vildi, hlusta vildi. Við hlustuðum og tvístigum og gáfum í skyn, að það væri alls staðar eitthvað, og sögðum:
— Jæja, það er bezt að koma sér að verki.
Við lágum í Immingham í Englandi, þar sem eru raðir lágra sótugra múrsteinshúsa, nokkrir verksmiðjureykháfar — og þegar þú vilt skoða hvað skipaverzlunin niður við höfnina hefur á boðstólum, þá byrjarðu á því að strjúka af gluggarúðunni.
Við lestuðum koks til Kaupmannahafnar, og þegar við fengum okkur bjór á kvöldin, sat kolarykið í froðunni.
Þegar þeir höfðu fyllt lestarnar, byrjuðu þeir að demba þessu á þilfarið. Grátt rykið fauk um allt og settist eins og öskufall á hvítmálaða undirbrúna og björgunarbátana. Við reistum digra planka með borðstokknum og strengdum vírnet á milli. Og að lokum var hraukurinn orðinn jafnhár stjórnpallinum. Skipstjórinn ráfaði um gangana með gamla kastskeytið sitt á höfðinu og rak á eftir. Þeir sögðu að hann ætti sjálfur helminginn í skipinu og væri að safna fyrir útför sinni.
Fyrsti stýrimaður var ungur maður. Hann hafði verið í koksflutningum áður og vildi láta smíða ramma fyrir lensiopin og strengja á þá vírnet. En vegna þess hve tíminn var naumur, var horfið frá því, og lensiopunum var einfaldlega lokað. Bátsmaðurinn hristi höfuðið.
— Hvað gerum við ef við lendum í veðri? sagði hann.
— Ég sagði, að það ætti að loka þeim, sagði stýrimaðurinn og brást reiður við. En um kvöldið þegar farið var, bað hann bátsmanninn afsökunar.
— Ég hef djöfulan ekkert sofið, sagði hann.
— Já, já, sagði bátsmaðurinn. — Það sér bara hver maður, að sjórinn kemst hvergi út. Þetta eru háir borðstokkar — það sér þetta hver maður.
Við skulum vona að við fáum gott yfir Norðursjóinn, sagði stýrimaðurinn brosandi. Og þeir brostu báðir og tókust í hendur — og ónotin fyrr um daginn voru gleymd og grafin.
Ég átti vakt klukkan fjögur um nóttina til átta um morguninn. Hafið var svart og himinninn var svartur. Svo kom tunglið undan slitróttum skýfaldi, en hvarf nærri jafnskjótt aftur. Ég sá siglingaljósin á stóru skipi stjórnborðsmegin við okkur. Það var með tvö toppljós og langt á milli þeirra, en græna landternan undir fremra ljósinu. Það mundi vera olíuflutningaskip á gagnstæðri stefnu. Það vor ljós í nokkrum kýraugum — þau voru þarna eins og perlur á bandi. Við höfðum lagt borð yfir koksbynginn á afturþiljum og strengt líflínu frá húsinu aftur á, en þar var niðurgangurinn að vistarverum háseta og kyndara. Borðin skrikuðu til í lausu koksinu, og í veltunum rann koksið yfir þau og gróf þau — og við gáfumst upp á að reyna að stikla eftir þeim, en hlupum upp og ofan bynginn, eins og í lausamöl í fjallshlíð. Og kyndararnir sögðu, að nú fengju svínin á dekkinu smjörþefinn af því hvað það væri að vera til sjós. Elzti kyndarinn hélt langa heilsuræktartölu og upplýsti meðal annars að koks og kolaryk væri hollt.
Fyrsti stýrimaður stóð úti á bakborðsbrúarvæng. Ég bauð gott kvöld og tók við stýrinu af hásetanum á hundavaktinni. Hann sagði stefnuna — ég endurtók, og hann fór út á brúarvænginn að skila af sér við stýrimanninn.
— Norðaustur að austri, muldraði stýrimaðurinn. Hann var sjaldan skrafhreifur á vöktum. Ef hann sagði eitthvað, þá var það venjulega svo almenn athugasemd, að mann rámaði í, að maður hefði heyrt það oft áður.
Annar stýrimaður var aftur á móti alger andstæða hans. Hann óð elginn úr einu í annað og vagaði um brúargólfið klofstuttur og kubbslegur. Skipstjórinn var roskinn maður grár fyrir hærum. Hann var á móti Þjóðverjum og Dönum, og sjómannafélögum og allri þessari nýsmíði sem flaut á hafinu.
Það var hægur andvari þegar ég kom á vaktina og þessir ljósmiklu hringvitar á ensku ströndinni voru að hverfa undir hafsbrún. Þegar ég fór af vaktinni var kominn stinningskaldi og hvítt löðrið pískraði koksbynginn á framþiljum.
Kyndararnir höfðu sér borðsal aftur í. Það var þunnt tréþil milli þeirra og okkar hásetanna. Það hafði verið komið fyrir ofni í þilinu miðju — hugmyndin auðsjáanlega verið, að hann hitaði upp báða borðsalina. Og kannski ofninn hafi gert það í upphafi og með þeim ágætum að þilið var brunnið niður til hálfs, en sviðnir borðendarnir bentu niður, eins og fátækleg tannbrot.
Þegar ég kom aftur í sátu tveir kyndaranna þar og skeggræddu.
— Nú; hvað segirðu Ísland? sagði annar.
— Ég segi lítið, sagði ég.
— Mér þykir þú segja fréttir, sagði hann og glotti til hins kyndarans. Er hann að hvessa?
— Hann hefur hvesst á vaktinni, hvað sem það verður, sagði ég.
Ég fékk mér kaffi inni hjá þeim, og sami kyndarinn tók að segja okkur sögu sem gerðist í London á stríðsárunum. Hann var hafsjór af sögum þessi kyndari, og ef maður byrjaði að hlusta á þær hjá honum þá komst maður venjulega ekki í koju fyrr en eftir dúk og disk. Strax þegar hann hafði lokið við söguna, dreif ég mig inn í klefann minn áður en hann mundi byrja á annarri. Ég skreið undir sængina og sofnaði út frá hljóðskrafi þeirra frammi. Ég veit ekki hve lengi ég hef sofið, en ég vaknaði við byltu og sá óðar að ég lá á gólfinu. Skipið hafði mikinn halla í stjórnborða. Ég brölti á fætur og heyrði sjóinn fossa niður. Þegar ég opnaði hurðina streymdi hnéhátt vatnið inn í klefann, og ég sá grænan fossinn steypast niður stigann. Þeir voru nokkrir komnir fram á ganginn. Við þustum allir að stiganum og reyndum að klóra okkur upp. Þegar upp kom stóðum við allir um stund í einum hnapp og horfðum fram eftir skipinu.
Það var sannarlega ekki uppörvandi sjón. Þessi hái skorsteinn hallaði undir flatt og við sáum hvernig máttvana skipið lyftist og hné á öldunum. Strompurinn gubbaði svörtum reykflóka sem vindurinn þreif með sér og tætti yfir hallandi skipið. Einhvern veginn minnti það á uppgefinn stórgrip.
Við sáum Finnlendinginn renna sér skriðuna niður koksbynginn, og þegar hann kom til okkar kallaði hann:
— Allir á dekk! Þið eigið að mæta uppí brú. Hann talaði sænsku með þumbaralegum áherzlum.
— Hvern andskotann eruð þið búnir að gera? sagði kyndarinn.
— Ho-o. rumdi Finnlendingurinn og sneri um hæl.
Við vorum þegar holdvotir, svo það hefði verið hreint pjatt að fara að galla sig. Við þokuðum okkur fram eftir og upp á stjórnpall. Þar var skipstjórinn fyrir og báðir stýrimennirnir.
— Jæja drengir, sagði skipstjórinn og gerði sér auðsjáanlega far um að sýnast rólegur. Það mátti þó heyra á mæli hans að hann áliti mikla alvöru á ferðum. Hann sagði:
— Ég hef kallað ykkur hingað á ráðstefnu. Hver einstakur hefur rétt til að segja álit sitt. Við höfum komið okkur saman um að höggva netið og róta út koksinu — bezt væri að reyna að komast að einu lensiopanna stjórnborðsmegin. Hefur nokkur ykkar nokkuð við þetta að athuga?
Hann leit á hópinn — og þegar enginn svaraði spurði hann bátsmanninn sérstaklega.
Bátsmaðurinn var hæglátur maður á miðjum aldri og hann hafði enga tillögu í málinu. Þá sneri skipstjórinn sér að okkur hinum og við höfðum heldur engar tillögur.
Það var orðið ljóst af degi og vindurinn þaut um siglur og stög. Aldan var breið og þung en ekki kröpp — þetta var svo sem ekkert ofsaveður, og allir vissu hvað hafði skeð. Skipið hafði tekið inn yfir — sjórinn ekki getað runnið út, og þunginn sett það á hliðina. Þeir héldu uppí, og við heyrðum vélina slá hæg reglubundin slög. Hafið var blýgrátt og hvítir faldarnir steyptust fram yfir sig og urðu að stórum iðandi froðuflekkjum, sem runnu undir næstu rísandi öldu. Við fengum allir skóflur og axir í hendurnar og hófumst handa á framþiljum. Við hjuggum á vírnetið og borðin sem héldu því upp, og rótuðum út koksinu. Fyrsti stýrimaður gekk í þetta með okkur og bölvaði:— Nú sér hann það . . . nú sér hann það, sagði hann í sífellu. — Nú sér hann það . . .
Við sáum hvar annar stýrimaður stóð aftur í ganginum. Hann var í regnkápu og með sjóhatt og hafði hnýtt band um sverustu miðjuna. Hann hrópaði eitthvað sem enginn heyrði. Og enginn skeytti heldur neitt um hvað hann var að hrópa.
Fyrsti stýrimaður mokaði eins og óður maður, og þegar hann hafði grafið holu niður fyrir borðstokkinn flutti sjórinn koksið jafnóðum í holuna, og allir sáu að þetta var unnið fvrir gýg — við mundum seint komast að lensiopunum. Samt héldum við áfram að róta og moka og höggva. Við unnum að þessu látlaust í fimmtán klukkustundir. Axirnar og skóflurnar, sem í byrjun höfðu gengið ótt og títt í höndum manna, gerðu loks varla meira en lyftast og falla máttlítið og eins og út í hött.
Skipstjórinn stóð bak við brúargluggana og horfði yfir framskipið eins og meitluð granítmynd. Menn hans höfðu það á tilfinningunni, að hvað sem ske kynni mundi hann berjast við að halda virðingu sinni og óskeikulleika — og það var kannski nauðsynlegt.
Skyndilega settist fyrsti stýrimaður í miðja holuna sína og hló upp í loftið. Blaut húfan hans sat aftur á hnakkanum og það var svört skán í munnvikjunum.
Bátsmaðurinn lét öxina síga og horfði vorkunnlátu augnaráði á stýrimanninn.
— Haltu bara áfram, bátsmaður, sagði stýrimaðurinn. — Haltu bara áfram. — Það er segl fyrir klussinu þarna í horninu, sagði bátsmaðurinn og benti.
Stýrimaðurinn horfði þegjandi á bátsmanninn.
— Ég var að hugsa um það, ef við gætum rist á það með hníf eða einhverju beittu, sagði bátsmaðurinn. Við sem næstir stóðum létum verkfærin síga og lögðum við hlustirnar. Það glömruðu í okkur tennurnar. Augnhvítan og tennur þeirra sýndust hvítari en áður. Finnlendingurinn bauð þeim dálkinn sinn.
— Við hnýtum hann á skaft, sagði bátsmaðurinn og fór með dálkinn.
— Reyniði að grafa ykkur niður þarna í hornið, skipaði stýrimaðurinn. Og við héldum áfram að róta út koksi. Sem betur fór hafði veðrið heldur skánað þennan tíma. Það var löngu tekið að skyggja og komið myrkur og grænt skin stjórnborðslandternunnar hvimaði um freyðandann við skipshlið.
Loks kom bátsmaðurinn aftur með hnífinn bundinn á langt skaft — og þeir byrjuðu að reyna að stínga gat á klussseglið utan frá. Þeim heppnaðist að rista á það og samstundis fór helmingurinn af koksbyngnum á hreyfingu. Við sáum svart vatnið og koksið streyma út um klussið. Von bráðar tók skipið að rétta sig.
Annar stýrimaður var kominn til okkar og ræddi ástandið af miklum fjálgleik. Hann var ekki frá því að þetta hefði verið það eina skynsamlega úr því sem komið var. Við hlustuðum á bollaleggingar hans og bátsmaðurinn snéri sér frá og spýtti svörtu munnvatni.
— Það er að draga niður í honum, sagði annar stýrimaður. — Það er orðið tunglbjart.
Við litum ósjálfrátt til himins og sáum að hann hafði lög að mæla.
— Tunglið er góður félagi á hafinu, sagði fyrsti stýrimaður og snéri sér að Finnanum. — Við brutum hnífinn þinn Finnland, bætti hann við.
Ho-o, sagði Finnlendingurinn. Svo sagði hann eitthvað á finnsku og enginn skildi hann.
Skipið hélt förinni áfram, og þegar við vorum búnir að ganga frá á þilfari átti ég vakt. Á leiðinni upp á stjórnpall varð mér litið á hrörlega björgunarbátana. Þeir sátu í stólunum eins og leiktjöld. Ég hafði aldrei veitt þessu neina sérstaka athygli áður. Nú braut ég heilann um hvernig það hefði orðið ef við hefðum þurft að yfirgefa skipið. Ég var ennþá að hugsa um þetta þegar ég kom upp. Skipstjóri og fyrsti stýrimaður stóðu inni í kortaklefa og ég heyrði karlinn segja:
— Þið hafið átt strangan dag. Það veit hamingjan að ég hef líka reynt sitt af hverju um ævina.
Já, sagði stýrimaðurinn og beygði sig yfir sjókortið.