Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1962/ Strönd á Meðallandssandi 1867-1927
Það er ekki sjaldan að greinar með þessari eða líkri fyrirsögn sjást í blöðunum, og nú síðast fyrir fáum dögum kemur fregn um það, að „Eiríkur rauði“ sé orðinn eitt flakið, sem „laushentur Ægir“ leikur sér að að lemja og brjóta á þessum hættulega stað.
Eiríkur rauði strandaði á Meðallandssandi. Þetta kemur óneitanlega við tilfinninguna, af því, að þarna á í hlut íslenzkt skip, íslenzkir eigendur og íslenzk skipshöfn. Þetta er fyrsta íslenzka skipið sem strandar þarna, en enginn veit hvort fleiri slík fari á eftir sömu förina.
Þetta óhapp kemur mér til að rifja upp og skrásetja það sem ég veit um skipreka á Meðallandssöndum og næstliggjandi svæði um síðasta 60 ára tímabil:
Árið 1867 strandaði á Koteyjarfjöru frönsk fiskiskúta. Skipið laskaðist mikið í lendingunni. Matvæli og annað skolaðist úr því. Sumt rak víðsvegar með ströndinni, en sumt tapaðist að öllu leyti. Ofsaveður var og blindhríð. Skipverjar voru alvotir. Ekkert skýli var á fjörunni nema íslenzkur bátur, sem skipbrotsmenn hömuðu sig við þar til veðrinu slotaði og menn komu þeim til hjálpar.
1869 strandaði á Fljótafjöru einnig franskt fiskiskip, þá var og bylur. Af því var brotinn allur reiði og möstur. Mannbjörg varð og mest öllu bjargað úr skipinu.
1871 strandaði kaupskip frá Þýzkalandi, var með saltfarm er fara átti til Reykjavíkur. Þetta var um jólaleytið í ofsaveðri. Menn björguðust með naumindum en farmur eyðilagðist.
Einu eða tveimur árum síðar strandaði í Álftaveri frönsk fiskiskúta. Menn björguðust slysalaust og farmi var bjargað.
1877 strandaði frönsk fiskiskúta austarlega í Meðallandi. Mannbjörg varð.
1877 strandaði í Álftaveri verzlunarskip á leið til Bíldudals. Ofsaveður var og bylur. Skipverjar villtust út á Mýrdalssand og dóu þar, utan 2, er komust að Höfðabrekku mjög þrekaðir. Meðal þeirra sem dóu, var Hákon Bjarnason kaupmaður. Skipið brotnaði.
1881 strandaði á Fljótafjöru frönsk fiskiskúta. Þá var slæm veðrátta. Skipið brotnaði en menn björguðust.
Einu eða tveim árum síðar strandaði í Álftaveri norskt skip, það sökk í brimgarðinum og brotnaði í spón. Hvort allir menn björguðust veit ég ekki.
1891 strandaði frönsk fiskiskúta á Efri-Eyjarfjöru. Skipið brotnaði mikið en menn björguðust.
Um þetta leyti strandaði austarlega í Meðallandi norskt kolaskip. Menn fórust allir.
1895, enn frönsk fiskiskúta á Skálarfjöru. Skipverjar 18 björguðust, utan einn er dó á leiðinni til bæja.
1898 strandaði á Koteyjarfjöru frönsk fiskiskúta, „Maurice“, með 25 mönnum, sem allir björguðust. Mestöllu var bjargað sem í skipinu var, áður en það brotnaði.
Sama ár strandaði þýzkur togari á sandrifi undan Steinsmýrafjöru. Skipverjar 13 björguðust allir, en skipið sökk og náðist ekkert úr því.
1899 enskur togari, „R. Simpson“, strandaði á Skarðsfjöru. Menn björguðust, en skipið fylltist af sjó. Var þó nokkru bjargað af kolum o. fl. Tilraunir voru gerðar að bjarga skipi þessu sumarið eftir, en allt varð það árangurslaust. Varð að lokum að flytja marga menn, sem voru í vinnu við þessar björgunartilraunir, landveg á hestum til Víkur, því brim hindraði samband við skip sem lá úti fyrir.
Sama ár strandaði á Koteyjarfjöru franskt spítalaskip, „St. Paul“. Skipverjar 20 björguðust allir. Meðal þeirra var prestur og læknir. Þetta skip var mjög vandað og skrautlegt og áhöld þess öll hin vönduðustu. Veður var gott en þoka. Á skipi þessu voru mikil matvæli, vönduð húsgögn og áhöld en margt af því skemmdist og sumt eyðilagðist, því skipið lagðist fljótt á hliðina, hálffyllti af sjó og brotnaði talsvert.
1900. Þýzkur togari, „Friederich“, strandaði á Steinsmýrafjöru. Menn björguðust og nokkru var bjargað af fiski og ýmsu öðru, sem í skipinu var. Tilraun var gerð að ná skipinu á flot sumarið eftir, en misheppnaðist og það brotnaði.
1900. „Lindsey“, enskur togari, strandaði á Grímsstaðafjöru. Menn björguðust og talsvert af veiðarfærum.
1905, II. marz, strandaði frönsk fiskiskúta á Ásafjöru. Menn björguðust og mestöllu var bjargað af því sem í skipinu var.
Sama ár, 13. marz, strandaði einnig frönsk fiskiskúta á Slýjafjöru. Með miklum örðugleikum tókst að bjarga mönnunum. Varningi skipsins var síðar bjargað. Bæði þessi skip brotnuðu talsvert strax, en voru síðan rifin að nokkru leyti.
1910 strandaði enskur togari, „Thomas Humling“, á Skarðsfjöru í janúar. Einn maður drukknaði og annar fótbrotnaði. Hinir komust sjálfir til bæja. Nokkru var bjargað af kolum, veiðarfærum o. fl. áður en skipið fylltist af sjó og sandi.
1910 í nóvember, fórst þýzkur togari framundan Landbrotsfjörum með allri áhöfn.
1910, 12. des., strandaði enskur togari, „Macenzie“, á Skarðsfjöru. Menn björguðust með hjálp tveggja manna er komu af tilviljun á strandstaðinn. Nokkru var bjargað af munum en fljótlega sökk skipið í sand og sjó.
1911 strandaði enn enskur togari, „Ugadale“, á Steinsmýrafjöru. Annar stýrimaður var íslenzkur, Gísli Oddsson (er síðar varð skipstjóri á Leifi heppna og fórst með honum). Skipverjar voru 12. Björguðust þeir allir.
Fjórir af skipverjum héldu svo til nálægt strandstaðnum og höfðu gát á skipinu og sjávarlagi í 18 daga. Allan þann tíma var gott veður, og lítið brim. Talsverðu af kolum var kastað fyrir borð og loks náðist skipið á flot lítið skemmt og gátu þessir fjórir, ásamt tveimur mönnum úr Meðallandi, komið því til Reykjavíkur.
Sama ár, í marz, strandaði á Fljótafjöru frönsk seglskúta, „Babetta“, með saltfarm. Skipverjar 7 og kona stýrimanns björguðust slysalaust, en farmur ónýttist. Skipið síðar rifið. Sama ár strandaði vestanvert við Kúðaós enskur togari, „Volante“. Skipverjar 12, einn íslenzkur, komust á land slysalaust. Skipið losnaði eftir fáa daga og komst út óskemmt.
Sama ár, í desember, strandaði á Klaufarfjöru þýzkur togari. Menn björguðust. Skipið fyllti af sjó og sökk. Litlu var úr því bjargað.
1912, seinni part vetrar, strandaði á Þykkvabæjarfjöru franskur togari, „Corsair“. Einn maður drukknaði, hinir, 30 að tölu, björguðust. Sjór kom strax í skipið, en þó tókst að bjarga talsverðu af veiðarfærum, matvælum o. fl., en fljótlega sökk skipið í sand og sjó.
1914 strandaði á Mýratanga kútter frá Færeyjum. Menn björguðust slysalaust. Fiski o. fl. er var í skipinu var bjargað lítið skemmdu. Skipið síðar rifið.
1916 strandaði á Slýjafjöru enskur línuveiðari, „Conisbro Castle“. Menn björguðust. Sjór kom fljótt í skipið, þó var bjargað matvælum, veiðarfærum og nokkru af kolum og síðar rifið nokkuð af innviðum.
1918 strandaði dönsk skonnorta, „Asnæs“, frá Kaupmannahöfn fermdpappír. Tveir skipverja fórust en 5 komust af. Skipið varð fljótt fullt af sjó. Ýmsum áhöldum var þó bjargað. Síðar var það rifið eftir að sjórinn hafði brotið það nokkuð.
1920 strandaði á Koteyjarfjöru þýzk mótorskonnorta, fjórmöstruð, „Martha“, frá Hamborg. Skipverjar 13 björguðust slysalaust og fundust bráðlega í fjörunni. Farmurinn (salt) ónýttist. Matvælum bjargað, seglum, köðlum og ýmsu öðru lauslegu, þó ekki öllu. Síðar um veturinn brotnaði skipið og ónýttist með öllu er í var. Martha strandaði rétt fyrir jólin, var allstórt skip, næstum nýtt.
Sama ár, fáum dögum síðar, strandaði dönsk mótorskonnorta, „Elísabeth“, frá Saxköbing, fermd timbri. Skipverjar 7 björguðust og komust sjálfir til bæjar. Skipið rak upp í þurran sand og var þar óhreyft með farmi, öllum nema því sem var á þilfari og lauslegum reiða og seglum, þar til um sumarið, að björgunarskipið „Geir“ tókst með löngum tíma og mikilli fyrirhöfn að ná því út lítið skemmdu. Þetta strand var á Lyngafjöru.
1921 strandaði á Skálarfjöru þýzkur togari, „Carsten“, frá Geestemunde. Skipverjar 13 björguðust. Mikill fiskur var í skipinu, honum var bjargað að mestu leyti ásamt matarforða og fatnaði skipverja. Skipið fylltist af sjó og sandi, þó var síðar rifið úr því þilfarið. Þetta var í apríl í allgóðri veðráttu. Sama ár, 31. des., strandaði annar þýzkur togari, „Greta“, frá Geestemunde, með 13 mönnum, er allir björguðust. Skip þetta rak vel upp, því það strandaði um háflóð og kom enginn sjór í það. Strax var bjargað úr því fiski sem það var með og síðar er það hafði verið selt, var öllum kolum og öðru lauslegu bjargað, og síðar rifið úr því allt timbur o.fl.
1924, um sumarið, strandaði á Landbrotsfjörum útlendur togari. Menn björguðust og skipið náðist út eftir fáa daga.
1924 strandaði á Skarðsfjöru fiskikútter frá Færeyjum, „Bonita“. Menn komust af og öllu var bjargað sem í skipinu var og það síðan selt og rifið að mestu leyti.
Þetta sama ár strandaði á Landbrotsfjörum annar fiskikútter frá Færeyjum. Menn komust af og farmi var einnig bjargað.
Sama ár í vetrarbyrjun, strandaði á Fljótafjöru norskt eimskip, „Terneskær“, (Langesund), með kolafarm. Bylur var er skipið strandaði, þó björguðust skipverjar slysalaust. Nokkru var bjargað af matvælum og fatnaði skipshafnar, en eftir 2-3 daga kom stormur og hafrót svo skipið fylltist af sjó og sökk með öllu sem í var. Þetta skip var vandað og snoturt með vistlegum herbergjum.
1925, snemma í janúar, strandaði enskt eimskip, „Riding“, 1800 smálestir að stærð. Farmur þess var kol, veiðarfæri, matvara ýmis konar o. m. fl. Átti þetta að fara til togaraútgerðarfélags, sem hafði aðsetur í Hafnarfirði. Skip þetta strandaði og sökk á blindrifi skammt frá landi. Dimmviðri var en ekki mikið brim. Skipverjar björguðust á land, en lentu svo í hrakningum og liðu mikið vos og kulda, unz þeir fundust þreyttir og þjakaðir, en óskemmdir á leið til bæja. Úr skipi þessu varð engu bjargað, en allmikið skolaðist úr því og rak upp á næstliggjandi fjörur. Var þetta matvara, timbur, botnvörpur o. fl. Margt af þessu var skemmt að meira eða minna leyti. Uppboð var haldið á þessu rekagóssi. Sama vetur strandaði á Grímsstaðafjöru lítil fiskiskúta frá Færeyjum. Menn björguðust og komust sjálfir til bæja. Öllum farangri var bjargað og skipið selt og rifið.
Í vetrarbyrjun 1925 strandaði á Steinsmýrafjöru þýzkur togari. Skipverjar björguðust fyrir góða framgöngu heimamanna, en skipið lagðist og sökk fljótlega án þess að nokkru væri bjargað úr því.
Sama ár, 14. des., strandaði á Efri-Eyjarfjöru norskt eimskip, „Eina“, með kolafarm. Skipverjar 14 komust í bátana, en treystust ekki til að leggja að landi. Sáust bátarnir á siglingu langt austur með, þegar menn komu á vettvang. Nú fóru nokkrir menn austur ströndina, og er þeir gátu látið bátverja verða vara við sig, gerðu þeir þeim bendingu um að nálgast landið. Brim var nokkuð. Staðnæmdust landsmenn þar sem þeim leizt helzt viðlit að lenda, þótt mjög tvísýnt væri hvernig heppnaðist. Bentu þeir nú bátverjum að róa að landi, hvað þeir gjörðu og heppnaðist að lenda slysalaust, en holdvotir urðu þeir flestir. Talsverðu var bjargað úr skipi þessu, af farmi, áhöldum og forða, einnig rifnir innviðir þess, það sem sjórinn braut ekki. Síðan fylltist það af sandi.
Haustið 1926 strandaði á Landbrotsfjörum norskt eimskip, „Nystrand“. Menn björguðust fyrir drengilega hjálp landsmanna, en skipið sökk með öllu.
Og loks 1927 strandar „Eiríkur rauði", á Sandafjöru með 20 mönnum, fermdur kolum. Menn bjargast með naumindum, hraktir mjög, en skip og farmur lendir strax í sandinn fyrir fullt og allt.
Þetta er raunaleg óhappaupptalning, en eigi að síður sönn. Er mikið verðmæti, sem þarna er að engu orðið, bæði beinlínis og óbeinlínis, að ógleymdum hrakningunum, stríðinu og slysunum, sem þessir mörgu vesalings skipbrotsmenn hafa liðið og þolað, þótt furðu fáir hafi líftjón beðið.
Er nú ekkert hægt að gera til öryggis sjómönnum á þessum hættulega stað? Í sumar voru reist á Meðallandssandi tvö leiðbeiningarmerki - annað er mjög nálægt þeim stað, þar sem Eiríkur rauði strandaði - þau koma vitanlega ekki að neinu liði, nema þegar bjart er og þá er líka hættan auðvitað minnst.
Góður ljósviti mundi gjöra mikið gagn ef hann væri á heppilegum stað. Og ég býzt við, að óvíða sé nú meiri þörf á vita á ströndum Íslands, en einmitt á þessum slóðum. Strandlengjan öll frá Ingólfshöfða að Dyrhólaey, er ljóslaus, sléttur, svartur sandur. Og þegar þess er gætt að framundan þessu svæði er fjölfarin skipaleið og fiskimið, þar sem fjöldi skipa stundar veiðar, má segja árið um kring, þá þurfi ekki að undra þótt mörgum verði villugjarnt.
En ljósviti á söndunum kemur ekki að fullu gagni, nema hægt sé í sambandi við hann, að gefa hljóðmerki, því oft er þar - ekki síður en annars staðar - þoka, snjófok eða svo mikill sandbylur, að ekki sér nema skammt frá sér, þá gætu sterk hljóðmerki komið til hjálpar.
Þess skal ennfremur getið, að auk áðurtaldra skipreka, sem allir hafa orðið milli Skaftáróss og Mýrdalssands - hafa í minni tíð nokkur skip strandað framundan austur-Síðunni, Fljótshverfi og Skeiðarárssandi og skipshafnir stundum orðið fyrir miklum hrakningum og lífs- og limatjóni. Nefna má t. d. „Veiðibjölluna“. Sömuleiðis hefur strandað á Mýrdalssandi. En mesta hættusvæðið er milli Skaftáróss og Kúðaóss.
Verið getur að fleiri óhöpp af þessu tagi hafi orðið þarna, sem ég man ekki eftir, en víst er, að ekkert er of talið.
Ritað 1927.