Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1951/Tækni og menntun
Á þeim tímum sem við lifum á hefir véltækninni fleigt meira fram en dæmi eru til áður. Það leiðir því af sjálfu sér, að þeir menn sem fyrst og fremst verða að „fylgjast með tímanum“ eru vélstjórarnir. Jafnframt því að fiskibátarnir hafa stækkað og vélarnar orðið orkumeiri, hafa bátarnir verið útbúnir með allskonar tækjum, bæði til öryggis, þæginda og til aflafanga. (talstöð, rafstöð, dýptarmælir og fisksjá).
En hvernig er búið að þeim mönnum sem vélanna og tækjanna eiga að gæta, svo þeir geti aflað sér þeirrar tilsagnar, sem nauðsynleg er til að leysa þeirra vandasama starf vel af hendi? Því er fljót svarað: Þar hefur þróunin ekki orðið jafn ör. Löggjöfin hefir að vísu hvað eftir annað neyðt til að gera breytingar um réttindi vélstjóra og einnig um námið að nokkru, en við það hafa myndast ýmsir vankantar og misrétti, sem ekki er við unandi.
Fleiri og fleiri hafa séð og kveðið upp úr með að gagngerðra breytinga er þörf í þessum efnum og mun nú vera starfandi stjórnskipuð nefnd, sem gera á tillögur um framtíðarskipan þessara mála. Nefndin hefur aflað sér ýmissa tillagna um þessi efni og hafa sérstaklega komið fram tillögur frá kennurum vélstjóraskólans í Reykjavík, þar sem lagt er til, að námskeið Fiskifélagsins og Vélskólinn í Reykjavík verði sameinuð í eina stofnun, sem hafi svo framkvæmd um alla kennslu, vélstjórum til handa. Ég tel tillögur kennaranna að ýmsu leyti athyglisverðar og þar sé fyrst og fremst miðað við Reykjavík og þá, sem þangað geta sótt nám, en ekki komi nægilega skýrt fram hvað ætlast er fyrir með kennslu út um land. Við verðum því að vera vel á verði þegar þessi mál koma endanlega til umræðu og fylgja fast eftir tillögum okkar um að hér í Eyjum verði starfandi skóli sem veitt geti okkur þá fræðslu, sem nauðsynleg er til þess að við hér heima getum öðlazt þá kunnáttu og þau réttindi sem með þarf til vélgæzlu á fiskibátunum hér. Ég hefi varpað fram þeirri tillögu, að vélskólinn okkar starfaði aðeins yfir haustmánuðina og að nemendur gætu byrjað nám að hausti þar sem frá var horfið s.l. haust, og þar væri hægt að fá þá framhaldsmenntun, sem hver og einn æskti eftir, jafnhliða starfinu. Ég tel að við skólann þurfi að vera aðeins einn fastur kennari (skólastjóri), vel menntaður vélstjóri. Starfstími skólans ár hvert yrði með þessari tilhögun að vísu stuttur, en ég tel verkefni kennarans næg þrátt fyrir það. Kennarinn gæti varið tíma sínum í þágu skólans og nemendanna t.d. með því að þýða og semja kennslu- og fræðibækur en á þeim bókum hefir til þessa verið allt of mikill hörgull.
Að endingu vil ég minna á að hér er til staðar skólahúsið og kennslutækin. Eftir er aðeins að semja og samþykkja reglugerð fyrir skólann og rekstur hans í samræmi við framtíðarskipan þessara mála.