Sigurður Ólafsson (Bólstað)
Sigurður Ólafsson á Bólstað formaður, útgerðarmaður, smiður fæddist 15. október 1859 í Hrútafellskoti u. A.-Eyjafjöllum og lést 2. september 1940.
Foreldrar hans voru Ólafur Guðmundsson bóndi, f. 4. ágúst 1825, d. 24. desember 1890, og kona hans Þorgerður Oddsdóttir húsfreyja, f. 26. ágúst 1821, d. 5. febrúar 1895.
Sigurður var með foreldrum sínum til 1890, en þá lést faðir hans.
Hann var vinnumaður í Syðra-Hrútafellskoti hjá Guðmundi bróður sínum og Valgerði konu hans 1891-1893, er hann fluttist að Kirkjulandshjáleigu í A.-Landeyjum.
Þar var hann vinnumaður, ráðsmaður hjá Guðrúnu Jónasdóttur ekkju Sigurðar Þorbjörnssonar og formaður á Fortúnu. Þau Guðrún eignuðust Sigurbjörgu 1895.
Sigurður var skamma stund á Önundarhorni u. Eyjafjöllum líklega án fasts heimilis þar.
Hann flutti til Eyja 1909, var trésmiður, formaður eina vertíð á Fortúnu, en varð útgerðarmaður, átti hlut í Bergþóru, VE 88. Bátur þessi sökk 20. febrúar 1908. Aftur eignaðist Sigurður Ólafsson hlut í vélbát. Hann átti um skeið í v/b Olgu Esbjerg VE 147. Lengst átti Sigurður hlut í v/b. Hjálparanum VE 232 og var útgerðarmaður 1910 og enn 1937, sjúklingur 1938 og lést 1940.
Þau Auðbjörg giftu sig 1909, eignuðust þrjú börn, bjuggu á Bólstað við Heimagötu 18.
Sigurður lést 1940 og Auðbjörg 1968.
I. Barnsmóðir Sigurðar var Guðrún Jónasdóttir, þá ekkja í Kirkjulandshjáleigu, síðar húsfreyja hjá Sigurði syni sínum á Hæli.
Barn þeirra:
1. Þorgerður Sigurbjörg Sigurðardóttir húsfreyja á Stað við Helgafellsbraut, f. 5. maí 1895, d. 16. mars 1969.
II. Kona Sigurðar, (18. desember 1909), var Auðbjörg Jónsdóttir frá Tungu í Fljótshlíð, húsfreyja, f. 6. mars 1886, d. 9. október 1968.
Börn þeirra:
2. Óskar Sigurðsson endurskoðandi, f. 1. júní 1910 á Bólstað, d. 4. júní 1969.
3. Lilja Sigurðardóttir húsfreyja á Eyrarbakka, f. 26. mars 1919 á Bólstað, d. 22. nóvember 1999.
4. Bára Sigurðardóttir húsfreyja, verslunarmaður, f. 16. desember 1925 á Bólstað, d. 14. apríl 2015.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Íslendingabók.is
- Landeyingabók – Austur-Landeyjar. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjóri: Ragnar Böðvarsson. Austur-Landeyjahreppur, Gunnarshólma 1999.
- Manntöl.
- Prestþjónustubækur.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.