Saga Vestmannaeyja II./ V. Verzlun og viðskipti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




V. Verzlun og viðskipti.


Í Vestmannaeyjum hefir verið verzlunarstaður mjög snemma, þótt ekki sjáist þess sérstaklega getið. Vegna hafnaleysis við suðurströnd landsins hafa kaupmenn fljótt komizt upp á að sigla skipum sínum til eyjanna og reka þar verzlun bæði við eyjamenn og nærsveitamenn af landi, er þegar frá fyrstu tímum hafa haft víðtæk viðskipti við eyjamenn og samgöngur miklar milli lands og eyja. Skipakomur hingað hafa og snemma orðið tíðar, bæði skipa, er voru í utanlandssiglingum, sbr. t.d. Sturlungu, og í förum milli landsfjórðunga. Verzlunin hér hefir blómgazt og eflzt, er fiskveiðarnar jukust og skreið varð eftirsótt útflutningsvara.
Meðan norskir eða norrænir kaupmenn ráku hér verzlun, mun það hafa verið venja lengi, að kaupmenn, er hingað sigldu, hafi lagt skipum sínum hér á höfninni, er þeir komu á vorin, og selt bæði eyjamönnum og landmönnum vöru sína hér. Þegar kaupmenn höfðu hér vetrarsetu, sem tíðkaðist fyrrum, hefir kaupskipum verið lagt hér á land, og vörur geymdar í vörugeymsluhúsum eða í skipunum sjálfum. Vörugeymsluhús munu frá fyrstu tíð hafa staðið nálægt Hafnareyri og höfninni, þar sem aðalkaupstaður eyjanna varð síðan. Nokkuð af vörum sínum munu kaupmenn hafa flutt á bátum til lands og selt þær á landi um veturinn, og komið síðan aftur af landi út hingað með aðkeyptu vörurnar, og siglt út aftur frá eyjum. Vetrarsetu hafa einhverjir kaupmanna og skipshafnarmanna og haft hér, til þess að annast sölu varanna. Seinna, eftir að Englendingar hófu verzlun í Vestmannaeyjum á öndverðri 15. öld, höfðu enskir kaupmenn þar vetrarsetu.¹) Sama hefir og gilt síðan, meðan enskir kaupmenn og aðrir ráku hér með konungsleyfi verzlun, áður en eiginleg fastaverzlun var stofnuð. Munu kaupmenn hafa haft vetrarsetumenn, til þess að selja vörur og kaupa fisk og til þess að annast útgerðarrekstur, eða að þetta hefir verið falið trúnaðarmönnum kaupmanna.
Höfn var að vísu eigi góð í Vestmannaeyjum og hefir svo verið frá öndverðu. En ólíkt betri skilyrði um landtöku skipa voru samt hér en annars staðar fyrir Suðurlandi, við brimsanda og lítt skipgenga árósa. Við eyjarnar hafa hafskip eða kaupför getað leitað lægis að sumarlagi með sæmilegu öryggi og hafzt þar við og beðið affermingar. Skipum varð samt eigi lagt hér í vetrarlægi.
Þegar þess er gætt, að siglingar og kaupferðir til Íslands fóru lengi fram aðeins að sumarlagi, og áður, meðan skip voru hér vetrarlangt, voru þau dregin á þurrt land, kom vöntunin á vetrarhöfn eigi mjög að sök.²)
Um það, hversu varið hefir verið verzlun og vöruflutningum til Vestmannaeyja frá fyrstu tímum eftir að eyjarnar byggðust, verður eigi sagt með vissu. Getur verið, að í öndverðu hafi eyjamenn sjálfir á eigin skipum annazt siglingar og aðflutninga á nauðsynjavöru, svo sem korni, við og járni, utanlands frá eins og hermir í sögum vorum, að ýmsir landnámsmenn og afkomendur þeirra hafi gert jafnhliða norrænum kaupmönnum, meðan nægur skipakostur var til í landinu. Hitt er þó eins líklegt, að verzlunin og vöruflutningar til Vestmannaeyja, er eigi byggðust fyrr en síðast á landnámsöld, hafi þegar í upphafi verið í höndum norrænna kaupsýslumanna, er getur í kaupferðum hingað til lands þegar á fyrstu árum sögualdarinnar. Og að minnsta kosti mun verzlun hér, sem snemma mun og að verulegu leyti hafa verið rekin við nærhéruðin á landi, hafa verið í höndum norrænna kaupmanna frá lokum sögualdar eða kringum miðbik 11. aldar, sem víðast annars staðar hér á landi.
Goðarnir höfðu í fornöld bein afskipti af verzlun og kaupskap útlendinga hér á landi. Kaupmennirnir dvöldu hér venjulegast árlangt, komu á vorin og létu í haf út næsta vor. Gafst þeim þannig gott tóm til þess að selja vörur sínar og innheimta andvirði þeirra.³) Sögur vorar geta þess, að norskir kaupmenn, er komu út hingað til lands, hafi fengið sér vetrarvist hjá goðanum eða helztu bændum nálægt þeirri höfn, er þeir lentu í. Kaupmenn þeir, er til eyjanna komu, munu oft hafa dvalið langvistum á landi hjá hlutaðeigandi goða, en sala varningsins farið fram bæði á landi og hér úti.
Fornsögur vorar geta Vestmannaeyja að engu, sem eigi er von, þar sem eyjarnar koma ekki nærri efni sjálfra sagnanna. Alllíklegt er samt, að sumar sögupersónur, t.d. Njálu, hafi haft kaupskap og önnur viðskipti í Vestmannaeyjum. Í Sturlungu er fyrst getið um komu norrænna kaupmanna til Vestmannaeyja og kaupskap landmanna þar vorið 1217. Og þessa er einmitt getið í sambandi við hin miklu og illu tíðindi, er þá gerðust, víg Jóns Ormssonar frá Odda. Sturlunga getur á nokkrum stöðum Vestmannaeyja og komu höfðingja þangað í sambandi við sjálft efni sögunnar.
Vorið 1217 kom knörr mikill til Vestmannaeyja, er verið hafði Grænlandsfar. Svo segir í Sturlungu: Voru þeir stýrimenn, Grímar og Sörli, hann var úr Harðangri. Sæmundur í Odda lagði gjöld á þá sem aðra menn og undu kaupmenn því illa. Ormur Jónsson Breiðbælingur, bróðir Sæmundar, keypti við hér til kirkjuþaks af þeim Sörla og Grímari, en viðurinn var eigi fluttur þegar á land. Kom Ormur vorið eftir til þess að sækja kirkjuviðinn, og var það um það leyti, er kaupmennirnir bjuggust til heimfarar til Noregs. Hafði Sörli haft vetursetu á landi hjá Ormi Jónssyni á Breiðabólsstað í Fljótshlíð. Ormur hafði þá Dalverjagoðorð. Í þessari ferð var Ormur veginn í Vestmannaeyjum af Grímari, ásamt syni sínum Jóni og tveim mönnum öðrum. Unnu austmenn víg þessi í hefndarskyni fyrir aðfarir Sæmundar í Odda við norska kaupmenn. Austmenn létu engin skip ganga, áður en þeir létu í haf. Munu þeir hafa óttazt liðssafnað af landi til eyjanna.⁴)
Um komu Snorra Sturlusonar til Vestmannaeyja getur í Sturlungu, í þeim tveim utanlandsferðum Snorra, sem Sturlunga getur um. Er líklegt, að Snorri hafi sett vörur á land, er hann flutti með sér, þótt þess geti eigi sérstaklega. Þannig greinir frá útkomu Snorra í Vestmannaeyjum á skipi því, er Skúli jarl hafði gefið honum. En er Snorri kom hingað, spurðist brátt útkoma hans. Er því svo að sjá, sem hann hafi dvalið nokkuð, en fregnin um útkomu Snorra hefir verið komin á undan honum til landsins með mönnum, er farið hafa milli lands og eyja. Aftur getur útkomu Snorra, þá er hann kom frá Noregi og hafði verið þar veturinn eftir Örlygsstaðafund með Skúla hertoga í Niðarósi. Gekk Snorri af skipi hér og með honum Órækja sonur hans, Egill Sölmundarson og Hákon Galinn. Þar var og Hrani Konráðsson, og laust hann í eyjunum austmann einn. Er auðsætt, að þá hafa verið hér fyrir norskir kaupmenn.
Í Sturlungu er getið komu Svarthöfða Dufgussonar til Vestmannaeyja, er hann kom frá Noregi sama sumarið, sem Þórður Kakali fór utan. Í heimferð sinni frá Noregi kom Þórður Kakali við í Vestmannaeyjum. Tók hann þar vín mikið, er hann átti, en Svarthöfði hafði flutt út og skilið eftir þar í eyjunum. Hafði Svarthöfði keypt vínið fyrir vöru þá, sextigi hundraða vaðmála, er Kolbeinn ungi hafði fengið Þórði Kakala til fararefna og Svarthöfði flutti utan. Þórður fór héðan upp til Keldna, og fann þar Hálfdán mág sinn Sæmundsson frá Odda.⁵)
Í Þórðarsögu Hreðu er þess getið, að þeir Þórður Hreða og bræður hans hafi komið við í Vestmannaeyjum, er þeir flýðu af Noregi til Íslands seint á 10. öld. Þessi frásögn, ef sönn er, er eitt dæmið um það, að snemma hafi Vestmannaeyjar verið viðkomustaður skipa á ferðum til og frá landinu.
Íslandsverzlunin, sem á þjóðveldistímunum mun hafa verið að mestu leyti í höndum Norðmanna, hélt og áfram að vera það alllengi, svo að lítil eða engin breyting varð hér á, eftir að Íslendingar höfðu gengið Noregskonungi á hönd. Kaupskapur eða verzlun Íslendinga, meðan naut, hafði eigi verið annað en bændaverzlun, og fóru bændurnir sjálfir kaupferðir með afurðir búa sinna. Með sama hætti hafði og verzlun Norðmanna verið á 9. og 10. öld, en þetta fyrirkomulag gerbreyttist eftir að kaupstaðir uxu upp í Noregi frá lokum 10. aldar, eða eftir að Ólafur Tryggvason konungur var kominn til ríkis. Tóku hér eftir ýmsir bæjarmenn í Noregi að gera sér verzlun að æfistarfi, en bændaverzlunin lagðist niður smátt og smátt. Á dögum Ólafs konungs kyrra, 1067—1093, var verzlun Norðmanna orðin svo mikil, að Íslendingar gátu eigi keppt við þá. Á Íslandi voru engir kaupstaðir lengi og engin verzlunarstétt. Kaupskip landsmanna týndu tölunni og voru eigi endurnýjuð, unz þau voru nær úr sögunni í lok Sturlungaaldarinnar.⁶)
Með ákvæðum Gamla sáttmála 1262, og seinni sáttmálum 1263 og 1264, taldi konungur sig hæsta yfirráðanda yfir Íslandsverzluninni. En landsmenn höfðu áskilið sér, að konungur sæi um að sex kaupskip gengju árlega af Noregi til Íslands hlaðin vörum. Jafnframt hafa og landsmenn ætlazt til, að frjálsar væru siglingar til Íslands frá öðrum löndum, og konungur hefði þar engin afskipti af. En í framkvæmdinni varð þetta á allt annan veg undir umráðum konungs, er vann að því einu að tryggja sér sem mestan hag af Íslandsverzluninni og þegnum Noregs, og útiloka aðrar þjóðir frá verzluninni. Yfir fiskveiðum landsins og jafnvel hvalveiðum taldi Noregskonungur sig og hæstráðanda.
Með Gamla sáttmála var hið svonefnda landauragjald afnumið, er Íslendingar máttu gjalda, til þess að hafa höldsrétt í Noregi, meðan þeir voru í kaupferðum. Gjald þetta, er var hálf mörk silfurs eða sex feldir og sex álnir vaðmála, er gerir 78 eða 42 álnir vaðmála, eftir því, hvort hver vararfeldur var metinn eftir fornu verðlagi á 2 aura vaðmála eða farið eftir öðru verðlagi og feldurinn metinn á 1 eyri. Eftir 50 aura mati á alin kr. 39.00 eða kr. 21.00.⁷)
Eftir að landauragjaldið var afnumið, var komið á sérstöku gjaldi eða tolli til konungs af skipum, sekkjagjald, er mun hafa verið hundraðsgjald. Sekkjagjaldið sem slíkt hefir verið fellt niður á síðari hluta 16. aldar, og kom þá í staðinn hinn svonefndi skipatollur, er goldinn var af hverju skipi eða af höfnum. Auk téðra gjalda tók og konungur allmikið gjald fyrir leyfi, er hann veitti kaupmönnum til verzlunar á Íslandi.
Verzlun með harðfisk, skreið, var orðin allmikil í Noregi þegar á síðari hluta 13. aldar, einkum í Björgvin. En þegar á þessum tímum voru þýzkir kaupmenn farnir að leggja sig eftir Noregsverzluninni, og áttu Björgvinjarkaupmenn þar harða keppinauta um verzlunina í Noregi. Til þess að styðja þegna sína, Björgvinjarkaupmennina, í baráttunni við hina erlendu kaupmenn, hafði konungur 1302 gefið út svonefnda réttarbót,⁸) þar sem bannað er öllum erlendum mönnum að flytja góss eða senda norður um Björgvin eða til annarra staða til sölu í hérað eða gera félag til Íslands eða annarra skattlanda Noregskonungs. Hörð viðurlög voru sett fyrir brot gegn boði þessu. Réttarbót Hákonar konungs, er samþykkt var af Alþingi, var endurnýjuð með réttarbót Magnúsar konungs Eiríkssonar 1348,⁹) og útlendingum harðlega bannaðar kaupfarir og siglingar til skattlanda Noregskonungs og annarra staða, er eigi hafði verið venja, að þeir sigldu til áður.
Noregskonungur fékk Björgvinjarkaupmönnum einokun á Íslandsverzluninni, gegn ærnu gjaldi, verður að gera ráð fyrir. Á þessum tímum var verzlunin við Ísland talin mjög ábatasöm vegna harðfisksins héðan, sem var mjög eftirsótt vara.
Þegar fram í sótti gátu Björgvinjarkaupmenn, er lúta höfðu orðið í lægra haldi um verzlun og kaupskap í Noregi fyrir Hansastaðakaupmönnum, eigi lengur haldið uppi fullum siglingum til Íslands vegna vangetu sinnar, né séð landinu fyrir nauðsynjavörum erlendis frá, sem þeim var skylt að gera. Er í annálum frá 14. öld tíðum getið umkvartana landsmanna yfir því, að vörur flytjist nú eigi nægar hingað til landsins og að jafnvel sum árin komi engin skip út hingað.¹⁰) En þótt Björgvinjarkaupmennirnir væru eigi lengur megnugir þess að halda uppi áskildum kaupferðum til Íslands, héldu þeir samt fast í réttindi sín yfir Íslandsverzluninni, svo að engir aðrir máttu þar komast að. Hefir landsmönnum staðið mikið tjón af ólagi því, er var á verzluninni, og stór hætta á hallæri og mannfelli einatt yfirvofandi sökum vöruskorts, sem þó hefir að mestu leyti verið afstýrt einungis fyrir komu enskra kaupsýslumanna hingað.

1) Sjá kæruskjöl Hannesar Pálssonar.
2) Sjá hér að framan um „Leiðina“ og höfnina, sbr. og Forordn. 13. júní 1787, Bilag: til Köbst. Beretn. og Beskr. over den isl. Kyst o.s.v., Khavn 1788, C. Pontoppidan, Saml. til Handels Magasin for Island.
3) Sjá Safn t.s.Ísl. IV, bls. 585—907.
4) Sturlunga, útg. Rvík 1909, bls. 74—75.
5) Sturlunga III, bls. 139.
6) Safn t.s.Ísl. IV, 902—905.
7) Réttarstaða Íslands eftir Einar Arnórsson, Rvík 1913, bls. 72; Menn og menntir III, P.E. Ólason, bls. 65; Grág. I, 141, 192, 195, III, 464.
8) Réttarbót Hákonar konungs Magnússonar.
9) Ísl. fornbr.s. II, 333.
10) Ísl. fornbr.s. II, 335 og 497—498.


Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit