Pálmar Þ. Eyjólfsson (kórstjóri)
Pálmar Þórarinn Eyjólfsson frá Skipagerði á Stokkseyri, tónlistarmaður, organisti, kórstjóri fæddist þar 3. júlí 1921 og lést 6. október 2010.
Faðir hans var Eyjólfur Bjarnason sjómaður í Skipagerði á Stokkseyri, f. 5. janúar 1869, d. 5. maí 1959, og síðari kona hans Þuríður Grímsdóttir frá Nýjabæ í Laugardælasókn, Árn., húsfreyja, f. 12. ágúst 1887, d. 5. ágúst 1970.
Bræður Pálmars voru
1. Bjarni Eyjólfsson bifreiðastjóri, verkstjóri, f. 2. nóvember 1904, d. 30. janúar 1985.
2. Eiríkur Eyjólfsson vinnumaður, sjómaður, f. 2. október 1913, d. 17. október 1937
Pálmar var með foreldrum sínum í æsku.
Hann nam orgelleik hjá Sigurði Ísólfssyni frænda sínum í nokkrar vikur, en var annars sjálfmenntaður í tónlist.
Pálmar var fiskverkamaður, m.a. í Eyjum. Hann fór til Eyja 16 ára og vann þar nokkrar vertíðir, en um áratugaskeið vann hann hjá Hraðfrystihúsi Stokkseyrar.
Hann var organisti við kirkjurnar í Gaulverjabæ og á Stokkseyri frá 1946 um hálfrar aldar skeið. Hann stjórnaði Karlakór Stokkseyrar meðan hann starfaði, stjórnaði Karlakór Vestmannaeyja í tvö ár og Karlakór Selfoss í tvö ár. Pálmar stýrði Bændakvartettinum í Gaulverjabæ í um 20 ár.
Pálmar samdi fjölda sönglaga.
Hann hlaut menningarverðlaun Árborgar 1999.
Söngvasafn hans var gefið út 1980 og geisladiskur með lögum hans 1993.
Þau Guðrún giftu sig 1960, eignuðust þrjú börn.
Pálmar lést 2010 og Guðrún 2019.
I. Kona Pálmars, (26. nóvember 1960), var Guðrún Loftsdóttir húsfreyja, f. 13. júní 1932, d. 10. október 2019. Foreldrar hennar voru Loftur Andrésson bóndi á Vestri-Hellum í Gaulvejabæ, f. 26. september 1889, d. 15. nóvember 1979, og Helga Guðlaugsdóttir frá Eystri-Hellum í Gaulverjabæ, f. 12. apríl 1905, d. 15. ágúst 1995.
Börn þeirra:
1. Andrés Pálmarsson, f. 23. febrúar 1955. Barnsmóðir hans Sigríður Haraldsdóttir
2. Helga Pálmarsdóttir, f. 5. mars 1958.
3. Eyjólfur Pálmarsson, f. 29. janúar 1960. Barnsmóðir hans Elín Hekla Klemensdóttir. Kona hans Svanhildur Karlsdóttir.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Íslendingabók.
- Morgunblaðið 11. nóvember 2010. Minning.
- Prestþjónustubækur.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.