Minningarvefur um Pál Steingrímsson/Stofnun KVIK sf. og KVIK ehf.

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


Stofnun KVIK sf. og KVIK ehf.


Stuttu eftir að Páll hafði útskrifast úr háskólanum í New York hófst Eldgos á Heimaey (1973) og ákvað Páll í kjölfarið að stofna KVIK sf. ásamt Ernst Kettler og Ásgeiri Long. Þeir félagar hófu svo að mynda eldgosið fyrir erlenda fréttastofu og héldu þeir restinni af myndefninu sem ekki hafði verið notað í útsendingum. Það myndefni notuðu þeir svo síðar við gerð heimildamyndarinnar Eldeyjan. Sú mynd hlaut síðar gullverðlaun úr hópi 170 heimildamynda á kvikmyndahátíð í Atlanta í Bandaríkjunum ásamt því að hljóta verðlaun í Hollywood á samskonar hátíð. Starf KVIK sf. var fjölbreytt og sá fyrirtækið meðal annars um auglýsingagerð fyrir sjónvarp sem og gerð heimildamynda þar sem megin viðfangsefnin voru dýralíf, náttúran og um hverfið. Þá sá kvikmyndagerðin einnig um gerð kynningarmynda fyrir hina og þessa aðila (Ólafur J. Engilbertsson, 2009).


Torfi Sigurbjörn Haraldsson í miðjunni ásamt kvikmyndagerðarmönnunum Ernst Kettler til vinstri og Páli Steingrímssyni til hægri.


Árið 1993 stofnað Páll ásamt eiginkonu sinni, Rúrí, KVIK ehf. kvikmyndagerð en fyrirtækið hefur framleitt fjöldann allan af heimildamyndum frá stofnun þess. Sambúð manns við náttúru, menning og dýralíf voru áberandi umfjöllunarefni. Fjöldi virtra kvikmyndamanna komu að verkum og unnu í samstarfi við Pál þegar hann vann að myndum sínum hjá KVIK ehf.. Páll ferðaðist víða um heim við tökur og má segja að hann hafi verið einn víðförlasti Íslendingurinn á þessum tíma. Hann hefur ferðast til hátt í sextíu landa og þrettán ríkja innan Bandaríkjanna og eru sögurnar frá þessum ferðum eins skemmtilegar og þær eru margar. Má þar nefna Ástralíu, Suður-Ameríku, Afríku, Suðurskautslandið og svo lengi mætti telja. Margar þessara ferða fóru í að eltast við fugla á faraldsfæti en Páll var klókur og nýtti oft ferðir sínar um framandi slóðir og myndaði einnig mannlíf viðkomandi landa (Ólafur J. Engilbertsson, 2009).