Erna Kristín Elíasdóttir
Erna Kristín Elíasdóttir frá Goðafelli, húsfreyja, kennari, frumkvöðull fæddist þar 21. mars 1926 og lést 17. apríl 2020.
Foreldrar hennar voru Þórður Elías Sigfússon verkamaður, verkalýðsfrömuður, f. 17. mars 1900 á Valstrýtu í Fljótshlíð, d. 7. maí 1997 á Hrafnistu í Reykjavík, og fyrri kona hans Guðrún Jónsdóttir frá Kirkjulæk í Fljótshlíð, húsfreyja, f. þar 26. febrúar 1896, d. 28. ágúst 1930 í Eyjum.
Börn Guðrúnar og Elíasar:
1. Erna Kristín Elíasdóttir húsfreyja, f. 21. mars 1926 á Goðafelli, d. 17. apríl 2020. Maður hennar Garðar Stefánsson.
2. Sigfús Ágúst Elíasson sjómaður, f. 29. september 1927 á Goðafelli, d. 4. nóvember 1948.
Börn Elíasar og síðari konu hans Haraldínu Guðfinnu Einarsdóttur frá Burstafelli.
3. Sigfús Þór Elíasson prófessor í tannlækningum, f. 31. janúar 1944. Kona hans Ólafía Ársælsdóttir.
4. Einar Pálmar Elíasson iðnrekandi á Selfossi, f. 20. júlí 1935. Fyrri kona Sigríður Bergsteinsdóttir. Síðari kona Einars Anna Pálsdóttir.
Stjúpsonur Elíasar, sonur Guðfinnu:
5. Sigurbergur Hávarðsson rafeindavirki, f. 12. nóvember 1927, d. 30. ágúst 2015. Kona hans Anna Petrína Ragnarsdóttir.
Erna Kristín var með foreldrum sínum skamma stund, en móðir hennar lést, er Erna var fjögurra ára. Hún fór í fóstur til Jónheiðar frá Arngeirsstöðum, fóstursystur Elíasar og Einars Högnasonar bændahjóna á Búðarhóli í A-Landeyjum. Þar var hún í fóstri til 1934, en var komin til föður síns og Guðfinnu síðari konu hans í lok ársins.
Hún var í Hússtjórnarskólanum á Hallormsstað í tvo vetur.
Erna Kristín stofnaði skátafélagið á Egilsstöðum og leiddi starfið þar í mörg ár.
Hún kenndi handavinnu í grunnskólanum á Egilsstöðum og rak hannyrðabúð.
Þau Garðar giftu sig 1949 í Eyjum, eignuðust eitt barn. Þau bjuggu í húsi sínu Ásbrún á Egilsstöðum, en leigðu jörðina Hátún í Skriðdal um skeið, ráku þar fjárbú.
Garðar slasaðist illa 1973, náði sér að nokkru, en starfið varð þyngra hjá Ernu við þetta.
Þau fluttu til Reykjavíkur.
Garðar lést 2016 og Erna Kristín 2020.
I. Maður Ernu Kristínar, (7. maí 1949), var Garðar Stefánsson flugumferðarstjóri, bóndi f. 9. ágúst 1923 að Mýrum í Skriðdal, S.-Múl., d. 24. júlí 2016. Foreldrar hans voru Stefán Þórarinsson bóndi, f. 6. september 1871, d. 17. janúar 1951, og kona hans Ingifinna Jónsdóttir húsfreyja, f. 7. október 1895, d. 10. október 1929.
Barn þeirra;
1. Erna Gréta Garðarsdóttir húsfreyja, starfsmaður í Skálatúni, f. 24. desember 1957. Fyrrum maður hennar Torfi Axelsson.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Erna Gréta.
- Íslendingabók.is.
- Manntöl.
- Morgunblaðið 11. ágúst 2016. Minning Garðars.
- Prestþjónustubækur.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.