Blik 1962/Þáttur nemenda, fyrri hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1962



ctr
(Fyrri hluti)


Skólaferðalagið 1961



Miðvikudagurinn 31. maí rann upp heiður og fagur. Eftir þessum degi höfðu nemendur 3. bekkjardeildar Gagnfræðaskólans beðið með óþreyju, því að þennan dag átti að leggja í skólaferðalagið. — Nemendur landsprófsdeildar þreyttu síðasta prófið um morguninn. Þeir voru því haldnir tvöfaldri spennu.
Ákveðið hafði verið að fara í bifreið norður að Mývatni og skoða Norðurland eftir mætti þessa 3—4 daga, sem við ætluðum að dvelja saman.
Við mættum öll á Básaskersbryggju kl. 2 e.h. Auk allra nemendanna voru þar mættir Þorsteinn Þ. Víglundsson, skólastjóri, og Vésteinn Ólason, kennari, sem voru fararstjórar. Þorsteinn hafði fengið hinn nýja hafnsögubát „Lóðsinn“ til þess að flytja okkur til Þorlákshafnar. Föggur okkar, töskur og svefnpokar, var sett um borð, síðan kvaddir foreldrar og aðrir vinir, sem staddir voru á bryggjunni. Allir voru í sólskinsskapi.
Þegar um borð kom, vildu margir hreykja sér sem hæst og stauluðust því upp á stýrishús og léku þar við hvern sinn fingur svona fyrst í stað. En ekki leið á löngu þar til kátínan fór að minnka og sjóveikin að gera vart við sig. Urðu þá ýmsir framlágir, sem áður hreyktu sér sem mest og þóttust menn með mönnum. Þó fuku brandarar manna á milli og sumir reyndu að seðja hina óseðjandi matarlyst. Töluvert af krásunum gleypti Ægir konungur. Honum klígjaði ekki við þeim.
Þorsteinn hafði reynt að kenna landsprófsnemendum nokkra bragfræði og að hnoða saman vísu um veturinn. Nú bað hann þá að botna:

Sjóveikir með sólarbrillur
seldu Ægi krásir dýrar.

Ólafur kom með botninn:

En Sigurður um sextán dryllur
söng og lék við meyjar hýrar.

Hér mun sneitt að Sigurði Jónssyni, sjóhetju af sægörpum kominn, sem lék nú við hvern sinn fingur á vettvangi ættarinnar og söng, þegar aðrir ældu. Þrem fjórðu bregður til blóðsins, ef satt er, að fjórðungi bregði til fósturs, eins og forfeðurnir fullyrtu.
Annars gekk ferðalagið til Þorlákshafnar með „Lóðsinum“ mjög vel. Þar kvöddum við hina ágætu skipshöfn með virktum og þakklæti fyrir góða viðkynningu og gott kaffi og stigum inn í langferðabifreiðina, sem beið okkar á bryggjunni.
Fyrsti áfangastaðurinn var Reykjavík. Þangað náðum við kl. hálf átta um kvöldið. Við hreiðruðum flest um okkur með skólastjóra í húsi Gagnfræðaskólans við Lindargötu og sváfum þar um nóttina. Sumir gistu þó hjá ættingjum og vinum.
Allir skyldu mættir stundvíslega klukkan 7 næsta morgun.
Sem boðið var mættu allir stundvíslega næsta morgun, sem var 1. júní. Þá höfðu allir, sem gistu í skólahúsinu drukkið nægju sína af kakói, sem Þorsteinn hafði „bruggað“ í mannskapinn um morguninn og þótti bragðast vel. Síðan var lagt af stað norður.
Heldur fannst okkur, sem hjá vinum höfðu gist, að gistivinir skólans væru framlágir og syfjaðir fram undir hádegi. Þeir munu hafa sofið lítið um nóttina, sérstaklega sumir drengirnir, ærslafullir og ólgandi eins og Kristmann og Þórarinn, Sigurður og Óskar, sem vissulega vissu af því, hvaða verur höfðust við í hinni skólastofunni. Mun skólastjóri hafa átt fullt í fangi með óróaseggina til varnar hinu veika, sem ekki er vert að nefna. Þó var reynt að halda uppi fjöri, syngja og senda brandara. Þegar ekið var fram hjá Esjunni, spurði annar fararstjórinn kíminn, hvort við vissum, hvað þetta fjall héti. Kvað þá við lagið „Vorkvöld í Reykjavík.“
Við búðina hjá hvalveiðistöðinni í Hvalfirði var numið staðar og keypt eitthvað í gogginn. Þaðan pantaði Þorsteinn miðdegisverð handa hópnum í Fornahvammi. — Fór nú að færast líf í tuskurnar, mikið sungið og Óli kosinn forsöngvari. Hann reyndist þá ekkert kunna nema „Blátt lítið blóm eitt er“. Á Hvalfjarðarströndinni benti skólastjóri okkur á sögustaði, svo sem Saurbæ og Ferstiklu.
Næst var viðdvöl höfð við Andakílsá í Borgarfirðinum. Þar „skein yfir landið sól á sumarvegi“, svo sem fegurst má verða, og var þar fagurt yfir að líta. Þarna virtist skólastjóri þekkja vel lönd og staði frá skólaárum sínum á Hvanneyri, — kennslustund sameinuð sögu og landafræði.
Í Fornahvammi var etið vel, áður en lagt var á Holtavörðuheiði. Þarna varð um klukkustundardvöl, snætt, teknar myndir og leikið sér við hunda. Allir voru í sólskinsskapi. En brátt dró ský fyrir sólu, því að á Heiðinni tók að hlaða í loftið og eftir nokkra stund var farið að rigna. Rigningin hafði þó engin áhrif á skap okkar. Við sungum og gerðum að gamni okkar á ýmsan hátt. Bifreiðin var ágæt og bílstjórinn öruggur, Haukur Helgason, verulega góður náungi frá „vondu fólki“ á sunnanverðu Snæfellsnesinu. Svona kemur dúfan iðulega úr hrafnsegginu!
Stutt varð viðdvöl á Blönduósi, — aðeins andartak, svo að Kristmann gæti náð sér í nokkrar smjörkökur í brauðbúðinni þar. Við hin nutum góðs af.
Á leið okkar um Skagafjörðinn komum við í Glaumbæ og skoðuðum þar byggðasafn Skagfirðinga. — Þar fannst okkur ánægjulegt að koma. Safnvörðurinn var hinn alúðlegasti, sýndi okkur marga hluti og skýrði frá því, til hvers þeir voru notaðir. Við höfðum víst flest okkar aldrei áður komið í svona gamlan bæ. Það flaug í hug okkar sumra, að ekki væri að undra, þótt börn yrðu myrkfælin í göngum þessum og rangölum, dimmum og þröngum.
Klukkan tæplega 8 um kvöldið komum við til Akureyrar. Var þá rigning og drungaveður. Við áttum þarna vísan gististað í Gagnfræðaskólabyggingunni. Þangað lögðum við því leið okkar. Voru þá brátt skrínur fram teknar og snætt af hjartans lyst og löngun. Var til þess tekið, hversu hraustlega sumir tóku til matar síns og gátu mikið í sig látið. Ekki mun þó Óli hafa verið í þeim flokki, eða hvað? Kakóbruggararnir voru þeir Þórarinn og Þorsteinn sem fyrr. Þótti þeim vel takast.
Þegar matazt hafði verið, fengum við fullt sjálfstæði til klukkan hálftólf, en þá áttu allir að vera komnir aftur í skólahúsið.
Nemendur eyddu nú kvöldinu á ýmsan hátt. Sumir fóru í bíó. Aðrir fengu sér leigubíl til að skoða bæinn. Tveir drengjanna höfðu lengi haft bréfaskipti við tvær Akureyrarhnátur og tóku nú að leita þær uppi. Eitthvað hafði vaknað í brjósti þeirra. Sumir ráfuðu um götur í erindisleysu, létu sér leiðast og leituðu brátt í vistarverur skólans, þar sem fararstjórar gættu húsa og biðu hópsins. Sigursteinn og Bjartur þraukuðu lengst úti, því að þeir höfðu fundið ...
Allir voru komnir í svefnpokana kl. 12 á lágnætti. En þá tók skrafið við. Hlátur og sköll bárust að eyrum okkar drengjanna frá stúlkunum hinumegin við þilið. Ekki róaði það okkur. Skólastjóri fór því á stúfana og hastaði á hefðarmeyjarnar sínar, svo að þar datt allt í dúnalogn. Þá voru það við, skrafskjóður sterka kynsins, sem vorum í uppnámi og ekki vildum þegja. Ljós voru slökkt, en hlegið og pískrað í myrkrinu. Þá tók skólastjóri til sinna ráða. Þar lék hann rullu, sem okkur þótti kynleg. Þegjandi eins og vofa í hálfrökkrinu settist hann á stól á miðju gólfi. Þar beið hann þagnarinnar, sem ekki lét lengi á sér standa, svo að allir voru brátt í fastasvefni.




Til vinstri:Vernharður flytur „fagnaðarerindi“ sitt við Mývatn. Til hægri: Á leið burt í fjarlægð. „Hrotið hátt í hverri kró.“





Næsta dag snæddum við hádegisverð á Hótel KEA okkur til mikillar ánægju. Öll vorum við þar nema Gauti og Vernharður, sem voru að flytja tilbeiðendum atómveldisins í austri „fagnaðarboðskap“ ungra Eyverja og höfðu því ekki tóm til að snæða á settum tíma.
Upp úr hádegi var svo ekið af stað austur að Mývatni. Rigning var og rosaveður, og urðum við því að una okkur í bifreiðinni, 38 að tölu. Á Hótel KEA hittum við gamla vinkonu okkar og skólasystur, Svanhildi Sigurðardóttur útgerðarmanns Þórðarsonar. Hún var þá að hætta vinnu þann dag. Við buðum henni í förina með okkur að Mývatni. Hún var 38. Eyjaskegginn í bifreiðinni. Við reyndum að skemmta okkur eftir beztu getu, þó að veðrið væri leiðinlegt, rigning á láglendi og snjóslydda á Vaðlaheiði. Kímnisögur voru sagðar, brandarar fuku, og svo var sungið og hlegið eins og vera ber, þar sem við unga fólkið erum á ferðinni. Ef til vill var hann yngstur sá elzti í bílnum. Þegar við höfðum kvatt Vaglaskóg, sagði Þorsteinn okkur ástarævintýri, sem hann hafði eitt sinn lent þar í. Hann var þar á ferð með ungu fólki á duggarabandsárum sínum. Þar voru í hópi ungar og laglegar stúlkur. Ein bar þó af, fannst honum. — Nú fórum við að verða heldur betur spennt og forvitin, en skólastjóri dró allt á langinn, var drjúgur og svo sem eins og seinn að hugsa. Það var sem hann þyrfti að grafa upp með semingi gömul minni. Árni Johnsen og Þórey voru alveg óskaplega áköf. Við létum minna á okkur bæra hin, en óneitanlega er það hrífandi og forvitnilegt, þegar þessir gömlu og reyndu grallarar taka að segja okkur peyjunum, meira og minna gagnteknum af ástarþrá, ástarævintýri sín. ,,Þetta, sem ég ætla að segja ykkur,“ sagði hann, „er ekkert ástarævintýri í raun og veru heldur eins konar tilfinningaævintýri.“ Þá urðu stúlkurnar ennþá forvitnari, því að orðið var nýtt fyrir þeim og þær skildu það ekki almennilega.
Þegar hann kom heim, hafði stúlkan sent honum bréf og í því var vísa, ástarvísa. — nú dró hann við sig frásögnina. — Þórey og Árni voru óskaplega forvitin. Það vorum við líka, þó að við létum minna á því bera. Loks kom það. Í bréfinu var ástarvísa, sem Þorsteinn var í rauninni búinn að gleyma! Það var líka trúlegt! „Hún endaði svona,“ sagði hann:

Var ég þar í Vaglaskógi
verulega ástfangin.

Fyrri hluta vísunnar kunni hann ekki lengur. Það þótti okkur slæmt.
Hverju svaraði hann svo bréfinu? Jú, hann kvaðst hafa svarað því með vísu. En hann var alveg frá að láta okkur heyra hana fyrr en næsta dag. Það voru mikil og sár vonbrigði.
Við stigum naumast út úr bílnum alla leiðina í kring um Mývatn, nema hvað við drukkum kaffi í Reynihlíð. Vernharður notaði tækifærið, er við gengum niður að vatninu, nokkrir nemendur, og flutti þar sitt „fagnaðarerindi“, sem við höfðum svo þrásinnis heyrt um veturinn, eftir að hann kom í skólann úr Reykjavíkurskólanum. Í leiðinni til Akureyrar aftur skoðuðum við Goðafoss. Þar voru margar myndir teknar.
Við komum til Akureyrar um kvöldmatarleytið og ókum þegar að skólanum, þar sem við gistum. Við máttum verja kvöldinu að eigin vild. Það þágu allir með þökkum. Skólastjóri „gætti bús“, en Vésteinn gerði við buxurnar sínar og saknaði þá sáran konunnar sinnar ungu.
Þegar klukkan var 11 um kvöldið, áttu allir að vera komnir í vistarverur til gistingar í skólanum. Allir voru þar á slaginu nema Bjartur, Óskar og Sigursteinn. Sumir sögðu, að þeir mundu hafa hitt „tilskrifin“ sín. Skólastjóri fór að skyggnast um eftir þeim. — Jú, þeir voru í nánd, en þeim gekk illa „að losna“. Fast var haldið í og skólastjóri mun hafa fengið heldur kuldalegt augnatillit tveggja eða þriggja Akureyrarmeyja, er hann tilkynnti drengjum, að þeim bæri að yfirgefa yndin sín og ganga þegar til náða.
Ekki höfðum við fyrr komið okkur fyrir í bifreiðinni til heimferðar morguninn eftir, er Árni og Þórey minntu Þorstein á, að nú hefði hann heitið því að láta þau heyra svarið við bréfi stúlkunnar. Hann gat ekki neitað því, og við orð sín vildi hann standa. Hann kvaðst hafa sent stúlkunni þessa vísu við ástarjátningu hennar:

Sagt ég gæti sama þér,
svása yndishrundin,
ef ég væri ekki hér
ástarheitum bundinn.

„Nú, var það þannig?“ sagði Þórey. „Varstu kannski á mínum aldri þá?“
Hún fékk ekkert svar við þeirri spurningu. Þá spurði Árni:
„Hver er munur á ástarævintýri og tilfinningaævintýri?“ „Því er fljótsvarað,“ sagði Þorsteinn, „næstum nákvæmlega sami munur og á hlutkenndum og óhlutkenndum nafnorðum.“
Þá þagnaði hinn vísi málfræðingur, Árni Johnsen, og tók að velta fyrir sér tilverunni og bera saman hlutlæg og huglæg fyrirbrigði.



FRÁ SKÓLAFERÐALAGINU:
Efsta röð frá vinstri:
1. Í Fornahvammi.
2. Í leit að ást eða berjum.
3. Árni og Svanhildur (Sjá vísu Vésteins kennara).
Miðröð frá vinstri:
1. Sigursteinn og einn af hundunum í Fornahvammi.
Kennarahneigðirnar segja til sin.
2. „Kakóbruggararnir“.
3. Fararstjórarnir.
Neðsta röð frá vinstri:
1. Sameining sálna í draumheimum.
2. Tákn festu, trúar og manndóms.
3. Iðkuð „íþrótt íþróttanna“ árla morguns.


Við ókum „heim að Hólum“ til að skoða hinn forna og fræga biskupsstað. Á leiðinni varð fyrir okkur lækur óbrúaður. Við urðum að stíga út úr bifreiðinni, meðan henni var ekið yfir lækinn. Sjálf urðum við að stikla yfir hann. Einna síðastur yfir læk þennan varð skólastjóri, enda komst hann það þurr í báða fætur. Þá kvað Árni Johnsen:

Um lækjarsprænu sprækur fór
sporléttur að vanda,
eins og væri villtur jór
að vaða í heitum landa.

Skólastjóri kvað vísuna svo vel gerða, að hann væri hreykinn af að hafa kennt Árna bragfræði um veturinn; hins vegar mun það sannast mála, að hann hafi botnað hana sjálfur.
Við komum í dómkirkjuna á Hólum og skoðuðum hana með aðdáun. Þar flutti skólastjóri bændaskólans stuttan fyrirlestur um kirkjuna. Var hann í alla staði fróðlegur og athyglisverður.
Vésteini kennara fannst hópurinn í bifreiðinni vera orðinn framlágur, þegar á daginn leið og dauft yfir okkur. Þá kvað hann við raust:

Áfram brunar bifreiðin,
brjáluð dunar músikkin.
Í Árna funar ástleitnin,
en engan grunar Þórarin.

(Þarna mun vera átt við þá Árna Johnsen og Þórarinn Sigurðsson). Varð nú af hlátur mikill og færðist líf aftur í mannskapinn.
Við komum við á Sauðárkróki á leiðinni suður en snæddum hádegisverð í Varmahlíð. Þaðan var svo haldið beina leið til Reykjavíkur.
Á leiðinni suður yfir heiðar efndu fararstjórarnir til spurningaþáttar, sem við höfðum mikla ánægju af. Keppni var þar háð milli kynjanna og unnum við strákarnir. Sigurvegararnir skyldu hljóta 100 króna verðlaun, sem við ánöfnuðum síðan hljóðfærasjóði Gagnfræðaskólans.
Við komum til Reykjavíkur undir miðnætti. Sem áður gistum við þá nótt í Gagnfræðaskólanum við Lindargötu, nema þeir sem leituðu til frænda og vina.
Vegna þess hve ferðasjóðurinn hafði orðið okkur drjúgur í höndum skólastjóra, bauð hann okkur til veizlu á Hótel Borg daginn eftir komuna til Reykjavíkur. Þau endalok spilltu vissulega ekki ferðalaginu. Þar flutti skólastjóri nokkur kveðjuorð til okkar og sleit svo samferðalaginu. Hann sagði okkur, að orð hefði verið haft á því við sig bæði í Fornahvammi og í Varmahlíð, hversu við hefðum komið vel fram og sannað gott uppeldi. Það lof fannst okkur gott. Þarna skildum við svo mjög ánægð með allt ferðalagið.
Sum okkar fylgdu síðan skólastjóra í Þjóðminjasafnið og skoðuðum það.
Nokkur okkar fóru heim með v/s Herjólfi næsta dag, mánudagskvöld 5. júní, en önnur dvöldu í Reykjavík nokkra daga eða fóru út á landsbyggðina til þess að heimsækja vini og frændur.
Við viljum fyrir hönd okkar og samnemenda þakka skólastjóra og kennara fyrir röggsama fararstjórn og ánægjulegar samverustundir á þessu skemmtilega ferðalagi. Við þökkum jafnframt öllum, sem veittu okkur húsaskjól og greiddu götu okkar á annan hátt.

Ritararnir Ólafur R. og Arnar.

Stálbátar - trébátar

Þetta átti sér stað kvöld eitt, þegar ég var að labba með strák og stelpu. Leiðin lá niður á Skanz. Þar átti víst að skoða fornfræga staði. Það hét svo, en ég var nú eldri en tvævetur og vissi því, að það var ekki ætlunin. Hún var allt önnur hjá þessum ungu skötuhjúum.
Allt í einu heyrði ég hljóð, sem mér fannst mest líkjast barnsgráti. Fyrst hélt ég, að þetta væri útburðarvæl, en svo reyndist ekki vera. Þetta var bara gaul í ósköp venjulegum togara. Ég fór að líta í kringum mig og sá togara stefna til lands. Ég hugsaði með mér: „Hann er sennilega með bilaðan rjómaþeytara.“ En þegar ég sá, að það var bara venjulegur 16 ára drengur við stýrið, hélt ég, að hann langaði að fara í bíó og væri nú á leiðinni þangað. Það reyndist þó ekki svo. Drengurinn vildi komast heim flugleiðis og stýrði þess vegna togaranum í strand við hafnargarðinn. En þetta varð dýrt spaug, því að allar brennivínsflöskurnar, sem voru frammi í, brotnuðu mélinu smærra, og brennivínið flaut um alla höfn. Það var ástæðan til þess, hversu margir stungu sér í sjóinn þetta kvöld og þar með var lögreglan. En þegar hér var komið sögu, hafði flykkzt svo mikið af forvitnu fólki á Skanzinn, að það varð ekkert úr neinu hjá hjúunum.
Daginn eftir fór ég niður á Skanz til þess að kynna mér, hvernig togaranum liði. Þar kom þá útgerðarmaður aðvífandi og sagði: „Jæja, drengir mínir, þarna sjáið þið, hvað stálbátarnir eru miklu sterkari en trébátarnir. Hvar haldið þið, að brakið úr trébát væri núna, ef hann hefði þannig rekið nefið í hafnargarðinn?“ „Já, það get ég sagt þér,“ sagði ég, „í kjallaranum hennar G. Hún safnar nefnilega eldiviði og lætur í kjallarann sinn.“
Þetta líkaði karli vel vegna þess, að hann á stálbát.

Jón Sighvatsson, 3. b. bóknáms.

Minkaveiðar

Þessi atburður gerðist sumarið 1960, sólríkan dag nokkurn í Gaulverjabæjarhreppi, þar sem ég var í sveit. — Við vorum að girða umhverfis rófugarðinn. Þá heyrði ég allt í einu hundgá og sá, að tíkin á bænum var að grafa í hól þar skammt frá.
Ég kallaði í bóndann og benti honum á þetta. Hann greip andann á lofti, því að hann bjóst við, að þarna væri minkagreni. Þá var það tekjulind, því að hann vissi sig fá 200 krónur fyrir hvert skott. Hann rauk því af stað með reku og stingjárn, sem rekið hafði á fjörur hans fyrir langa löngu.
Nú reið á því fyrir bónda að hugsa skýrt. Fyrst þurfti að troða allar holur fullar af grjóti og mold og síðan að grafa við eina þeirra. Bóndinn hamaðist sem naut í moldarflagi, og ekki var tíkin betri. Hún rótaði upp úr hinum holunum, svo að ég hafði ekki við að fylla þær aftur. Ekki leið á löngu, þar til minkarnir létu til sín heyra. Þá glaðnaði yfir bónda. Hann fór sér nú að öllu rólega, því að nú vissi hann, hvar bráðin hafðist við.
Mitt hlutverk var að vera með stinginn, þegar læðan kæmi út úr holunni.
Loks kom eitthvert smákvikindi út úr holunni. Fyrst hélt ég, að þetta væri mús, en áttaði mig svo á því, að þetta væri minkayrðlingur. Svo kom út hver af öðrum og tíkin var ekki lengi að sjá fyrir þeim öllum. En nú var læðan eftir. Hugur minn var bundinn við litla kvikindið, síðasta ungann, sem kom veltandi út úr holunni, er læðan skauzt fram hjá mér. Ég rak stinginn frá mér í óskaplegum æsingi og vildi hitta dýrið. En það geigaði hjá mér, og hún hvarf inn í aðra holu. Við þrengdum svo að henni þar, svo að hún sá sitt óvænna og kom þjótandi út. Þá var bóndi snöggur og rak skófluna í hrygginn á henni. Síðan sá tíkin fyrir henni á sama hátt og hinum.

Eiríkur Bogason, 2. b. B.

Í Paradís

Skammt frá bæ þeim, sem ég dvaldist á í sveit, er sléttur trépallur. Nokkrum dögum eftir að ég kom í sveitina í annað sinn, gekk ég niður að þessum palli. Ég var með báðar hendur í vösum, en í hægri lófa mínum lék krítarmoli. Nú skyldu þó krakkarnir á hinum bæjunum verða hissa. Hvenær hefðu þau kynnzt öðrum eins leik?
Ég hafði ekki bograð lengi á pallinum við að strika á hann rúður, þegar nokkrir þeirra höfðu slæðzt að. Þau stóðu eins og merkikerti fyrir ofan pallbrúnina og voru grafhljóð. Ýmist störðu þau á mig eins og naut á nývirki, eða þau skotruðu augunum hvort til annars. Það var eins og forvitnin geislaði út úr augunum á þeim.
Ég leit naumast upp en hélt áfram að strika. Skyldi ekki forvitnin mega kitla þau svolítið! Það var ekki svo oft, sem maður kom þessum krökkum á óvart. — En svo sprakk blaðran. „Heyrðu, Bjössi, er þetta einhver galdraleikur?“ spurði einn af strákunum. „Nei,“ sagði ég stuttur í spuna og dálítið drýldinn. „Jú, víst er þetta galdraleikur. Heldurðu, að ég viti það ekki?“ sagði ein telpan. Síðan bætti hún við: „Svona fer maður að, þegar maður fer með hanagaldur. Að vísu eru ekki búnar til rúður þá, heldur hringir með punkti í miðjunni. Svo lætur maður hana inn í hringinn, og hann verður ringlaður af að horfa á hvítu strikin og þorir ekki út fyrir. Það er bara svona, sem þú ert að búa til, og láttu ekki, eins og þú kunnir eitthvað nýtt.“
Af því að hljóðið var svona í þeim, þá var bezt að lofa þeim að vita, hvað var á seyði. Ég sagði þeim, að um veturinn hefði ég lært afarskemmtilegan leik, sem héti Paradís. Eitt þeirra át það upp eftir mér og spurði, hvort sér hefði heyrzt rétt. Þau könnuðust ekki við þetta orð nema úr Biblíusögunum. — Jú, víst hafði það heyrt rétt, en ég áréttaði, að þetta væri nú allt önnur Paradís en þeirra Adams og Evu. Svo bauð ég krökkunum í eina Kerlingar-Paradís. Við völdum okkur kringlótta, slétta steina og byrjuðum leikinn.
Nú sáu þau, að ég var ekki að fara með neinn hanagaldur. Þeim þótti leikurinn skemmtilegur og sögðust ætla að búa til Paradís á bæjarhellunni heima hjá sér, ef þau gætu einhvers staðar náð sér í krít. Næstu daga jörmuðu krakkarnir sýknt og heilagt og það þótti enginn maður með mönnum, hvorki fyrir sunnan læk eða vestan, sem ekki gat hoppað í Paradís.

Björn Sverrisson, landsprófsdeild.

Tilveran og ég

Ég er aðeins 10 ára gömul og á fátæka foreldra. Pabbi er alltaf lasinn. Hann liggur í rúminu hvern dag og hefur helzt aldrei fótavist. Ég veit ekki, hvað að honum er, því að enginn hefur viljað segja mér það.
Mamma verður að vinna fyrir heimilinu, svo að við höfum eitthvað til að lifa af. Hún þvær gólf hjá ýmsum stofnunum, en þess á milli prjónar hún hverja stund fyrir fólk í bænum og má sjaldan vera að því að sinna mér um nokkurn hlut.
Þegar ég kem heim á daginn úr skólanum, er allt svo ömurlegt. Þá er oft ekki búið að þvo upp og ótekið til í íbúðinni, því að mamma verður að fara að vinna strax eftir miðdegisverðinn. Það er því mitt hlutskipti að þvo leirinn, þegar ég kem heim og hefi borðað. Svo verð ég að hafa kvöldmatinn til reiðu, þegar mamma kemur þreytt heim úr vinnunni. Ég get aldrei verið úti og leikið mér með hinum krökkunum, því að ég verð alltaf að vera heima til að hugsa um húsið og pabba.
Komið hefur það fyrir, að ég hefi farið heim með einhverri vinkonu minni á leið úr skólanum. Þá hefur mamma hennar tekið á móti henni, haft kaffið hennar tilbúið, og allt hefur verið svo hreint og bjart og elskulegt. Þá verður mér hugsað heim í litlu kjallaraíbúðina okkar, sem er svo köld, rök og hráslagaleg. Ég finn þá eitthvað sérkennilegt í kverkunum, eins og það sé kökkur. Líklega er það grátur. Mér verður þá stirt um málið.
Stelpurnar í bekknum mínum fá stundum eitthvað nýtt, ég helzt aldrei. Til þess þarf peninga og þeir eru ekki til umfram nauðsynlegustu þarfir heimilisins. Þeir hrökkva vart fyrir matnum og öllum lyfjunum, sem pabbi þarf að fá. Ég verð alltaf að vera í bættum og stoppuðum fötum. Þess vegna kalla strákarnir mig stundum Bóthildi, en ég heiti Hildur. Uppnefnið særir mig óskaplega. En skólabræður mínir eru miskunnarlausir. Þegar ég segi mömmu þetta, segir hún, að ég eigi að láta sem ég heyri þetta ekki, því að aðalatriðið sé, að fötin séu hrein, — bæturnar aukaatriði. Og hún segir einnig, að ég eigi ekki aðeins að hugsa um fötin og útlitið, heldur eigi ég að hugsa um sálina — hugsa um það að vera góð stúlka og þess háttar. Ég skil þetta ekki vel. Mér finnst ég alltaf vera góð stúlka. Við á þessum aldri eigum víst stundum svo erfitt með að skilja fullorðna fólkið, og það þá líka okkur. Og ennþá erfiðara veitist okkur að skilja tilveruna, með öllu sínu misrétti og miskunnarleysi.

Sœdís Hansen, 3. bekk bóknáms.

Þegar ég man fyrst eftir mér!

(Ég og beljurnar)

Ég fór í sveit í fyrsta skipti, þegar ég var 6 ára. Og þessi sveitarför er mér mjög minnisstæð. Fyrsta daginn í sveitinni gerði ég ekki annað en að slæpast og kynnast fólki og dýrum. Þarna kynntist ég hundinum Kjamma, beljunni Húfu, hestinum Jarp, öllum hænsnunum og svo að sjálfsögðu öllu heimilisfólkinu á bænum. Ég kom fyrst á hestbak þennan sama dag. Fyrst þegar ég sá þessa „ógurlegu“ skepnu, hestinn, varð ég logandi hræddur við hann. En þegar ég var búinn að vera svolitla stund á baki, vildi ég ekki fara af baki aftur. Um kvöldið fór ég að sofa og hlakkaði mikið til að vakna snemma næsta morgun og fara að vinna með hinu fólkinu.
Dagurinn eftir leið fram til kvölds, án þess að nokkuð spennandi gerðist. En klukkan hálf sjö var ég beðinn að sækja kýrnar. Og ég stökk af stað mjög montinn að fá svona mikil ábyrgðarstörf í hendur. Kusurnar voru í mestu rólegheitum að háma í sig gras fyrir neðan túngarðinn og voru ekki alveg á því að fara í fjósið strax. Ég öskraði og lét eins og bandóður maður en beljurnar bara bauluðu á mig. Nú fór að síga í mig. Ég réðist á eina beljuna og fór að toga í hausinn á henni til að fá hana til að lalla af stað. En bölvuð beljan vatt bara til hausnum og henti mér langt út í móa. Ég stóð þegar upp aftur og réðist til atlögu á ný. Nú réðst ég aftan á kusuna og ýtti á afturendann á henni, en hún haggaðist ekki.
Ég var orðinn kófsveittur. Allt í einu fann ég, að eitthvað volgt rann niður eftir buxunum mínum. Ég leit niður OG HVAD HALDIÐ ÞIÐ: bölvuð beljan hafi skitið á mig! Ég fór að háskæla af vonzku og bjó mig undir að vinna á beljuskrattanum, en þá kom bóndinn á bænum skellihlæjandi og hjálpaði mér með beljurnar heim. Þegar ég var búinn að skipta um buxur, fór ég út í fjós til að tala við þessa dónalegu belju. En þegar ég sá hið biðjandi augnaráð veslings skepnunnar, sagði ég við hana: ,,Við skulum vera vinir.“ Og viti menn, daginn eftir, þegar ég fór að sækja kýrnar með bandspotta til vonar og vara, kom kusa á móti mér og allur beljuskarinn á eftir henni.

H.K.J. 4. verknáms.

síðari hluti