Blik 1947/Um híbýli og háttu forfeðranna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1947



Um híbýli og háttu forfeðranna


Um það leyti að Ísland byggðist hefir nærfelt allsstaðar á Norðurlöndum verið áþekk húsaskipun að laginu til. Það var ekki fyr en á seinustu öldum að hún verður hagfelld og smekkleg. Hér á landi tók hún minnstum framförum og var jafnvel fram að síðustu aldamótum víða á landi hér svipuð því, sem hún var um öll Norðurlönd fyrir um það bil þúsund árum. Má jafnvel segja, að enn fyrirfinnist híbýli, sem líkjast mjög húsagerð og kosti 11. og 12. aldarinnar. En óðum er þetta að hverfa.
Fyrir um það bil 1000 árum voru húsin byggð eingöngu af viði víðast hvar á Norðurlöndum að Íslandi undanskildu, þannig, að bjálkar voru lagðir einn ofan á annan og mosa eða öðru þvílíku troðið í rifurnar milli þeirra. Þau voru svo bikuð utan og þiljuð að innan. Þakið var úr borðum og oft næfur utan á.
Á Íslandi hafa þá flest íbúðarhús, sem sé skálarnir, verið með torf- og grjótveggjum og torfþaktir sem sjá má af því, að þegar menn voru að vígaferlum um nætur, reyttu þeir gras af húsum, þegar þeir, sem erindum áttu að svara, voru í svefni. Þó var skáli Gunnars á Hlíðarenda „af viði einum og viðþaktur utan.“
Reykháfar (skorsteinar) þekktust þá ekki og eiginleg loft voru og mjög fágæt, þ.e.a.s. loft í öllu húsinu. Hinsvegar voru á sumum stöðum loft í nokkrum hluta skálans. Svo hefur t.d. verið á Hlíðarenda, því „Gunnar svaf í lofti einu og Hallgerður og móðir hans.“
Á Bergþóruhvoli hefir ekki verið loft til íbúðar, heldur til geymslu, annars hefði þeim Flosa ekki gagnazt að bera eldinn inn í loft það, sem Kolur Þorsteinsson fyrstur varð var við og taldi mikilsverða uppgötvun.
Herbergið var því venjulegast opið upp í ræfur, en á ræfrinu var op eða strápípur fyrir reykinn, sem tilbyrgja mátti með grind, sem á var þanin þunn himna. Í gluggum hússins voru samskonar grindur eða hlerar voru fyrir þeim.
Beint undir strompinum á miðju gólfi var arinninn. Þar var eldurinn, annaðhvort á beru gólfinu eða á steinhlóðum. Væri húsið höll eða stór skáli, þá breiddi eldurinn sig út til beggja enda eftir lengd hússins og var þá kallaður „langeldur“.
Á gólfinu stóð mjaðarkerið. Úr því var drykknum, öli eða mjöð, hellt á horn og því næst borinn gestunum. Hornin voru skorin rósum eða stöfum og oft gull- eða silfurgreypt í skurðina. Á þeim voru og stundum tveir fætur úr silfri, festir með spöng um þau mið, svo að þau gætu staðið.
Veggir hússins voru tjaldaðir innan annaðhvort með vaðmálum, dýraskinnum eða útsaumuðum dúkum. Tjöldin voru laus, svo að þau mætti taka ofan. Útlit er fyrir, að svo mikið bil hafi stundum verið milli tjalds og veggjar, að maður gæti staðið þar.
Við flest hátíðleg tækifæri var gólfið stráð hálmi eða — hér á landi — sefi og stör.
Á nokkrum stöðum finnst þess getið, að menn hafi byggt sér eldaskála með útskornum myndum, sem sýndu, eða áttu að tákna einhvern merkan atburð viðkomandi húsbóndanum eða forfeðrum hans.
Húsið var aflangur ferhyrningur, hliðarveggirnir oftast að norðan og sunnan en gaflarnir að austan og vestan. Á hliðunum voru gluggarnir, á göflunum dyrnar, aðrar fyrir karla, hinar fyrir konur.
Að útidyr væri á báðum endum hússins, hefir ekki verið almennt hér á landi. Hinsvegar finnst þess víða getið, að gengt ..............skamms tíma hafa sézt á einstöku.....
Þegar komið var inn í stofuna sá maður beint fram undan sér eldinn og mjaðarkerið, en bekkina til beggja hliða, þá svokölluðu langbekki, sem voru langsum eftir húsinu. Sá bekkur, sem lá með suðurveggnum, var hinn æðri bekkur, en með norður veggnum var hinn óæðri. Hásæti var sitt á hvorum bekk. Það var nokkurskonar hægindastóll með háu baki og bar sjálft sætið hærra en önnur sæti á bekknum. Það var kallað öndvegi. Framantil á því voru tveir stólpar. Það voru öndvegissúlurnar og voru þær prýddar útskornum myndum, helzt goðamyndum. Öndvegissúlurnar voru álitnar nokkurskonar helgidómur. Þess vegna valdi Ingólfur sér bústað, sem öndvegissúlur hans, er hann hafði kastað útbyrðis í hafi , bar að landi, að sjálf goðin ákvæði bústað hans.
Hásæti hafa helzt verið í húsum konunga, jarla og annara stórhöfðingja, en fárra óbreyttra bænda, þótt gildir væru. Svo mun það hafa verið hér á landi a.m.k. þegar fram á söguöldina leið. Því taldi Flosi það gjört til spotts við sig, þegar Hildigunnur lét gjöra honum hásæti og kastaði því undan sér.
Bekkirnir voru klæddir voðum eða skinnum.
Væri húsið stórt og ætlað til að rúma marga menn, voru lægri bekkir fyrir framan langbekkina, sem kallaðir voru forsæti. Það sést meðal annars í Njálu, að þeir voru lausir og mátti taka þá burt, þegar þeirra var ekki þörf, því að þegar Flosi heimsótti Ásgrím Elliðagrímsson, lét Ásgrímur setja forsæti með endilöngum bekkjunum um alla stofuna „. . . . og þeir sátu í forsætum, er ekki máttu uppi sitja á bekkjunum“.
Hásætið á hinum æðra bekk eða æðsta sætið í húsinu, var sæti húsbóndans sjálfs, en sætið gagnvart því, þ.e.a.s. hásætið á hinum óæðri bekk, skipaði hinn göfugasti gestur húsbóndans.
Hirðmenn eða heimamenn sátu á báðar hendur húsbóndanum á hinum æðri bekk, en föruneyti gestsins út frá honum á hinum óæðri bekk. Því nær dyrunum, sem sætið var, því minna þótti í það varið. Bak við sæti hvers manns hengu vopn hans og herklæði, þó einkum skjöldurinn, því sverðið skildu menn sjaldan við sig, jafnvel ekki í stórvinahóp, því að alltaf gat á skammri stundu skipazt veður í lofti og voru menn sjaldan óhultir. Því var bezt að vera við öllu búinn og hafa sverð sitt við hlið sér.
Sessunautar voru oft í vináttu sín á milli og ræddu þar oftlega áhugamál sín.
Þegar nú húsbóndinn og gesturinn sátu þannig gagnvart hvor öðrum, ræddust þeir við frá sætum sínum og ef húsbóndinn drakk minni gestsins eða gaf honum gjafir eða gjöf, rétti hann honum hornið eða gjöfina yfir langeldinn. Væri enginn göfugur gestur viðstaddur, skipaði öndvegi á óæðri bekk einhver göfugur hirðmaður eða og oftlega skáld.
Seinna tóku húsin þeirri breytingu, að hásætið var flutt af langbekknum að öðrum gafli hússins en dyrnar voru á hinum.
Þegar halda skyldi erfisdrykkju, settist sonur eða erfingi hins dána á forsæti fram undan hásætinu, þangað til honum var færður bikar, er hann átti að drekka um leið og hann gjörði einhverja drengilega heitstrengingu, þá stóð hann upp, tók bikarinn og drakk minni föður síns. Því næst settist hann í há­sætið, sem faðir hans hafði setið í, og gekk með því að arfi eftir hann.
Áður en menn bjuggu til sérstök hús til ýmislegra afnota, var höllin eða skálinn ekki einungis drykkjustofa heldur og einnig svefnherbergi, bæði fyrir gesti og heimamenn. Bak við langbekkina voru sem sé rekkjur, nokkuð áþekkar þeim, er til skamms tíma hafa sézt á einstöku sveitabæ.
Af Egilsögu má ráða, að þeim var lokað að innan. Fyrir utan voru einnig lágir bekkir, sem tilreiða mátti rekkju á fyrir þá, er ekki voru í miklum metum hafðir. Í lokrekkjunum hvíldi húsbóndinn og hið heldra fólk, enda hefur það þótt tryggilegra, einkum ef menn áttu í deilum, eins og ráða má af Droplaugarsona-sögu, þar sem Helgi Ásbjarnarson átti tal við konu sína, þegar þau gengu úr rúmi fyrir Ketilbirni á Hrollaugsstöðum, enda sætti Grímur Droplaugarson þá færi við Helga.
Þó konur væru að nokkru útaf fyrir sig, sátu þær ýmist á langbekkjum eða á sérstökum bekk. Annars átti kona eða dóttir hvers höfðingja herbergi út af fyrir sig — skemmur — og sátu þar löngum. Þangað var karlmönnum þó ekki meinað að koma, ef komur þeirra voru með siðsemi og kurteisi. Herbergi kvenna eru oftast nefnd skemmur. Þau tíðkuðust og hér á landi, en nefndust dyngjur.
„Hallgerður átti dyngju eina og sat þar oftlega.“ — Dyngjurnar voru ekki afhýsi í sjálfum skálanum, heldur hús útaf fyrir sig.
Í Gísla sögu Súrssonar er sagt, að dyngja þeirra Auðar og Ásgerðar var utan og sunnan undir eldhúsi. — Mikið meira mætti segja um háttu og hús forfeðra vorra, en hér verður að hætta að þessu sinni. —

A.A.