Blik 1941, 1. tbl/Bókasafn Gagnfræðaskólans

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1941


Bókasafn Gagnfrœðaskólans


Nokkrir hollvinir Gagnfræðaskólans hér hafa undanfarin ár gefið honum bækur. Unglingarnir nota talsvert bókasafn skólans. Þeir myndu þó nota það meir, ef það ætti fjölbreyttari bókakost.
Það er hollara æskunni að eyða frístundum sínum við lestur góðra bóka en í götuslangur og rall, oft í slæmum félagsskap. Það er hugsjónin, að skólinn eignist gott bókasafn, sem unglingarnir geti haft gagn og gaman af, og megi gera sitt til þess, að þeir læri að meta góðar bækur og hagnýta sér frístundir sinar á réttan hátt.
Í vetur gáfu þau hjónin hr. Helgi Benediktsson kaupmaður og kona hans skólanum veglega bókagjöf, eða á 2. hundrað íslenzkar bækur, auk enskra og danskra bóka, myndablaða o.fl. Í þessari bókagjöf voru t.d. milli 20 og 30 Íslendingasögur, um 30 árgangar af gömlu Þjóðvinafélagsalmanaki, sem er hin mesta fróðleikslind, nokkrir árgangar af tímaritum, svo sem Iðunni, Eimreiðinni, Skírni o.fl. o.fl.
Fyrir þessa höfðinglegu gjöf þökkum við kærlega.
Ég leyfi mér að mælast til þess, að sem allra flestir Eyjabúar gefi skólanum bækur og blöð, sérstaklega myndablöð.
Ég þykist vita, að sumum muni þykja þetta hispurslausar sníkjur af minni hendi. Það má vel vera að svo sé. En ég geri það samt kinnroðalaust, því að æska bæjarins á hér hlut að máli, og flest heimili í bænum eiga eða munu eiga hér hlut í, er stundir líða, enda höfum við notið velvildar og skilnings margra mætra Eyjabúa um þetta áhugamál okkar eins og fleiri.
Hér er um að ræða stofnun, sem allir Eyjabúar standa að. Og þessi stofnun vill vera þess megnug að vinna fyrir aðstandendur æskunnar í þessum bæ og með þeim að uppeldi og fræðslu æskulýðsins. Við kennararnir eigum ekki aðra ósk innilegri. Leggjum því öll hönd á plóginn. Ein góð bók frá hverju heimili í bænum myndi skapa prýðilegt bókasafn.

Þorsteinn Þ. Víglundsson.