Blik 1939, 5. tbl./Stóra sjósvalan

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1939



Þorsteinn Einarsson, kennari:

Stóra sjósvalan.

Fugl hafsins og næturinnar.

——————————

Stóru sjósvölur höfum við kallað nokkur hundruð af íbúum eyjanna. Þessir íbúar búa í hólum og hryggjum á nokkrum stöðum og fara, eins og vofurnar, á kreik á nóttunni. Þær koma því lítt við sögu daglegs lífs. Heldur ekki leggja þær neitt af mörkum til útflutnings eða í bú Eyjaskeggja. Þeir einu, sem komast í kynni við þær, eru fuglaveiðimenn á sumrum. Þeim veita þær dúnmjúka kinnhesta, ef þeir eru á ferð um varplönd þeirra um miðnætti.
Hin margumtalaða næturkyrrð er í hennar heimkynnum rofin af léttum vofukenndum vængjatökum og langdregnum háttbundnum klið, sem á okkar máli mætti stafa að þannig: „kvirr-rirr-i-virri-vid“. — Um leið og hún flautar þessu hljóði, flögrar hún áfram; ekki beina braut, heldur kastast hún til, eins og flugdreki með ofstuttum hala. Hér er eigi því að dreifa að halinn, stélið, vanti eða vængirnir séu veikir til flugs. Nei, það er þvert á móti. Fuglinn er einn af hinum beztu flugfuglum, eins og nafna hennar, landsvalan. Stélið er langt en klofið, vængirnir langir og breiðir.
Nú sendist hún áfram, stanzar, fellur, til þess að geta skotizt beint upp aftur, vent til hliðar og vaggað á báða bóga. Nú tyllir hún sér niður í grasið, en hún er ekki gefin fyrir gönguferðir eða að standa í báða fæturna, heldur húkir hún eða liggur.
Stundum, er svölurnar húka svona, heyrist frá þeim hljóð líkt og þegar skærum er samjaplað.
Hafi hún ekki skotið sér inn í einhverja holuna, til þess að kurra við maka eða vinkonu eða ynna eitthvert skylduverk af höndum, þá situr hún aldrei lengi, en þenur allt í einu út vængina, og er þegar svífandi á þöndum vængjum með klið og kastflugi.
Þessi dúnlétti fugl hefir tekið á sig hinn grámóðukennda lit norrænnar nætur, nema hvað fætur og nef er svart og einstaka fjaðrir í vængjum og stéli, þó er efri hluti stélsins þakinn hvítum fjöðrum.
Þessi eru kynnin, sem þeir, er dvalið hafa á varpstöðum sjósvölunnar, hafa af þessum nýja landnema. Einn af nýjustu landnemunum er hann ef­laust, þareð vandlátur og nákvæmur fuglafræðingur, Faber, er hér dvaldi sumarið 1821 og athugaði skrofubyggðir í Heimaey, þar sem svalan er nú, segir á einum stað í bók sinni, að stórusjósvölu hafi hann hvergi fyrirhitt hér á landi. — Um og eftir aldamótin er hennar getið af þeim fuglafræðingum, er hér rannsökuðu.
Stóra-sjósvala lifir, að því er enn er vitað, hér við Ísland að eins í Vestmannaeyjum. Hún byggir fleiri og færri staði í eftirtöldum eyjum: Heimaey (Yztakletti), Bjarnarey, Elliðaey, Álsey, Suðurey.
Byggð hennar er hvergi eins þétt og t.d. lundans. Byggð sinni velur hún stað nærri brún í ávölum hryggjum og bungum (t.d. í Gjósthóli í Yztakletti, slökkunum og brúnunum vestan á Bjarnarey; í Lauphausunum í Elliðaey), í bröttum hlíðum (t.d. í Siggafles í Elliðaey, hlíðum Álseyjar og Suðureyjar), eða í uppgrónum urðum (t.d. í Grjóthausum í Bjarnarey). Fuglinn grefur holu niður í gegnum grassvörðinn ofan í moldina. Holan og holuopið er jafnþröngt, svo að karlmannshönd kemst eigi þar inn nema með því að rífa hol­una út og þrýsta hendinni inn með afli. Lengd holunnar er frá 1 m. til 3 m. og þar yfir, (í Bjarnarey voru 3 holur af 20 yfir 3 metra; flestar um 2 m.).
Oftast eru holurnar svipaðar að hlykkjum og sveigum, eins og flug fuglsins og geta eftir 2 metra lengd endað í hreiðurkima undir inngönguopinu. Flestar holurnar eru með 2—3 hliðargöngum. Einhversstaðar í hverjum holugangi er útskot eða holan breiðari, líkt og á þröngum akvegi, þar sem hafðir eru breiðari veghlutar, til þess að farartæki geti mætzt. Hver göng enda í víðari kima.
Hvernig fer svalan að því að grafa þessi löngu göng, sem oftast eru tíu sinnum lengri en fuglinn sjálfur?
Þessari spurningu hefi ég svarað mér með eftirfarandi kenningu. Um það leyti, sem holugröfturinn fer fram, finnur maður fyrir utan holuopin moldarkúlur. Grafi maður sjósvölu út um þann tíma, er hún mjög moldug um nef og höfuð, en aftur á móti eru fætur lítt moldugir, en bringa og kviður mjög atað moldu. Það, hvar moldin er, bendir á, að gröfturinn fari fram með nef­inu, og að moldinni sé elt saman í kúlur með bringu og kviði og ýtt svo út úr holunni með umferðinni eða spyrnt burtu með fótunum. Hliðargöngin eru flest grafin upp í hallann en síðar undan brekkunni, þó að holan í heild sinni liggi niður á við.
Inn í einn af holukinnunum, sjaldan (1—36) þann fremsta, ber hún rofalýjur og sinu. Ull hefi ég séð. Úr þessu býr hún hreiðurkopp, sem hún verpir í einu eggi, á stærð við hænuörverpi. Skurn eggsins er hvítt, en mjög þunnt og veikt. Varptíminn er mjög misjafn. Í byrjun júní hefi ég grafið út 20 hreiður í Bjarnarey, sem öll voru í notkun, því að það sýndi bygging hreiðurs og græn grasstrá um allar holurnar. — Af þessum 20 voru egg í sjö.
Þ. 13. ág. gróf ég út sjö í Elliðaey. Í einu var fúlegg fyrir utan hreiðurkoppinn, en annað egg í hreiðrinu. Í tveim holum var sýnilega búið. Það sýndu fjaðrir og dúnn í hreiðrunum og grænu grasstráin um holurnar. Unginn er stór og útþaninn eins og dúnklæddur knöttur. Það eina, sem bendir á fugl, er nefið og veikbyggðu fæturnir.
Það er einnig undarlegt við hátterni þessara fugla, sem fljúga um varpbyggðina aðeins á nóttunni, að í þeim 36 hreiðurholum, sem ég gróf út um hábjartan dag, voru fuglar aðeins í sex, þar sem maður hafði búizt við fugli inni yfir hinum 12 eggjum og 8 ungum. Í því eina hreiðri, þar sem fugl var inni hjá unga, var unginn að koma úr egginu. — Þetta bendir til þess, að svalan haldi sig meira á sjó en landi yfir varptímann (6 af 36 hjónum) og að hún dvelji aðeins í varpbyggðinni yfir nóttina frá kl. um 23—3, eða í 4—5 klst. — Aldrei sjest sjósvala fljúga úr eða í holu á daginn, en á nóttunni flýgur hún eins og fyrr segir í listflugi lágt yfir grassverðinum, eða liggur kurrandi og malandi niður í hreiðurholunni.
Væri þá ekki hugsanlegt, að svalan að launum fyrir allan gröftinn, sparaði sér eggleguna eða stytti hana niður í 4—5 tíma á sólarhring, en notaði holuna að öðru leyti sem „moðsuðukassa“ aðra tíma sólarhringsins. Þetta er að eins mín getgáta eða kenning, en það eru staðreyndir, að holan er hlý og djúp og svalan er þar ekki að staðaldri.
Þegar unginn er kominn úr egginu, byrjar annatíminn, mötunin. Svalan spýr, ef hún er áreitt, eins og fýlungar. Spýjan er oftast grænleit.
Átan er allskonar sjávardýr, sem hafast við við yfirborðið eða hrekjast þar um í öldurótinu. Hún mun því án efa mata ungann á spýjunni eða mauki. Í ágúst veiddi ég sex í net og voru þær þá alveg fullar af smáum fiskseiðum, er þær gubbuðu, þegar við þær var komið. Seinast í september og fyrst í október flýgur mestur fjöldinn af ungunum, því að um það leyti finnst hann hér víða um bæinn, líkt og lundapysjan í ágúst—sept. og skrofupysjan í miðjan september. Sjósvala aldúnuð hefir fundizt lifandi hér í kaupstaðnum í nóvember. Svo að dvalartími sjósvölunnar er hér um 6—7 mánuði, eða frá því í lok aprílmánaðar fram í nóvembermánuð.
Meðan vetur er hér hjá okkur, heldur stóra-sjósvalan sig sunnar í Atlantshafinu, langt frá landi. Hún mun jafnvel leita úr vetri norðurhvelsins suður í sumar suðarhvelsins, svo að um hana má segja með réttu, að hún lifi ávallt í sumri og sól.
Sjósvalan er skemmtilegur og skringilegur fugl og gengur því undir ýmsum nöfnum hjá hinum mörgu sjómönnum, sem mæta henni trítlandi á öldum hafsins, eða meðal veiðimanna, sem hún snoppungar á nóttunni, þegar hún svífur eins og vofa yfir varpbyggðinni.