Blik 1939, 4. tbl./Baðstofa
Ég hefi hugsað mér að eyða nokkru af rúmi „Bliks“ undir örfáar hugleiðingar um baðstofur. „Góð vísa er aldrei of oft kveðin,“ og svo má segja um þessa merku og þörfu stofnun. Hún er að vísu í hugum flestra okkar ímynd svefnskála, eða undir hana hillir í frásögnum fornsagna okkar, sem gufuþrunginn skála, þar sem naktir kappar sitja kófsveittir við hlið rjúkandi hlóðarsteina. Þannig voru líka okkar baðstofur, þvottahús fyrir líkama karla og kvenna, þvottahús, þar sem þetta fólk „svældi“ út úr líkama sínum úrgangsefni, sem það þó ekki
hafði þekkingu á. Það fann dásemdarmátt þessarar hreinsunar til þess að afþreyta, og endurnýja kraft og kjark á hverjum laugardegi. Hingað sótti húsmóðirin með börnin sín hressingu, og yngismærin fegurð og yndisþokka. Hér rann berserksgangurinn af berserknum. Hér þvoðu bændur og búalið af sér óhreinindin og strauk af sér deyfð og drunga. Sagnaritarinn sótti hingað hugsvölun og hressingu, og jafnvel innblástur (sbr. Snorra Sturluson). Þannig var baðstofan á þeim tímum öllum landslýð þörf og ómissandi á hverjum bæ.
Svo líða tímar fram. Skógar eyðast. Við það minnkar eldsneytið. Hugsunarháttur fólksins breytist með breyttum trúarsiðum, — trúarsiðum, sem fordæma líkamlegt atgervi, og reyna jafnvel til þess að gera líkamann hrörlegri. Með því skyldi magna og styrkja sálina. En sagan sýnir og sannar, að andleg menning þjóðar er í voða, ef líkamlegt atgervi hennar þverr. Hér nægir að benda á Grikki og Rómverja, og svo okkur Íslendinga. Það væri gaman og þarft að sanna þetta, en hér er ekki rúm til þess.
Allar þessar þrjár þjóðir áttu, samfara blómlegum listum og bókmenntum, líkamlegt atgervi, sem átti rætur að rekja til skipulegra leikja og fullkominna baða.
Margur vill líka þakka leikjunum og böðunum viðgang og blóma listanna og bókmenntanna. Það hlýtur því að vera ósk þeirra manna, sem eitthvað starfa að uppeldi þjóðanna og þekkja fyrrnefnda staðreynd, að vinna að endurreisn þessara heilsusamlegu þátta, sem hafa horfið úr þjóðlífinu.
Hefði ég verið spurður að því við s.l. áramót, hver væri nýárs ósk mín til handa uppvaxandi kynslóð, hefði svarið orðið það, að hún eignaðist baðstofur.
Nokkrir áhugamenn hafa undanfarin ár í ræðu og riti reynt að starfa að endurreisn baðstofunnar eða auknu baðlífi. Nokkuð hefir áunnizt. Baðstofur rísa nú upp víða um land, flestar í Reykjavík og nágrenni hennar, við heita staði. Hér í Eyjum er nú svo komið að segja má með vissu, að á þessu ári, muni sjást nokkur árangur.
Læknar, Rauði Krossinn, forsætisráðherrann og aðrir ráðamenn lands og bæjar hafa heitið málinu stuðningi sínum, bæði með ráðum og peningum. Einstaka menn eru þegar farnir að ráðgera að koma þessum einföldu og ódýru baðstofum fyrir í heimahúsum sínum, í þvottahúsum, útihúsum eða baðklefum.
Baðstofan á að vísu nokkuð langt í land með að verða almenn, en skriður málsins er orðinn svo mikill, að nú á næstunni mun sjá þess víða merki.
Baðstofur til sjávar og sveita fyrir allan landslýð!