Ginklofi

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 13. júní 2005 kl. 08:31 eftir Eyjavefur (spjall | framlög) Útgáfa frá 13. júní 2005 kl. 08:31 eftir Eyjavefur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Ginklofi, sem nú er nefndur stífkrampi, var landlægur um aldir og barnadauði af hans völdum óhugnanlega mikill í Vestmannaeyjum. Af 330 börnum fæddum á árunum 1817-1842 dóu 244 á fyrsta ári. Orsök veikinnar var talin að þvottur var lagður til þerris á jörðina og barst sýkillinn sem orsakaði Ginklofann þannig úr jörðinni í naflabindi barna og þaðan í naflastrenginn.

Vigdís Guðmundsdóttir húsfreyja á Vilborgarstöðum eignaðist 18 börn. En þegar hún andaðist 1854, 73 ára átti hún 12 eða 13 barnsleiði í Landakirkjugarði.

Aðstæðurnar slæmar

Á þessum tímum var fátækt og örbirgð mikil, húsakynni þröng og óvistleg. Forir voru undir húsveggjum, brennt var þurrkuðum fiskbeinum með vondum fnyk. Þótti mesta furða hvað mannfólkið hélt heilsu í þessum ömurlegu vistarverum. Vatnsskortur var almennur og óhreinindi runnu í vatnsbólin og skepnur gengu í Vilpu og Tjörnina og drukku. Nýmeti var oft af skornum skammti og ekki furða, þótt viðloðandi væru hörgulsjúkdómar svo sem skyrbjúgur og beinkröm.

Frydendal notað sem sjúkrahús

Ekkert sjúkrahús var þá í Vestmannaeyjum, en árið 1837 settist þar að danskur skipstjóri að nafni Erikcsen. Kona hans hét Anne Johanne. Þau byggðu húsið Frydendal. Anne Johanne var glaðvær kona og dugnaðarforkur. Læknir staðarins fékk að leggja sjúklinga inn í Frydendal og var það oft notað sem sjúkrahús. Fengu sjúklingar góða umönnun hjá Anne Johanne. Eftir lát manns síns giftist Anne Jóhanne dönskum manni að nafni Roed og var eftir það alltaf kölluð madama Roed. Hún rak veitnagahús í Frydendal. Leifar Frydendal, þess stóra íbúðarhúss var verslunarhúsið Bjarmi sem stóð við Miðstræti.

Madame Roed flutti með sér nýja siði og kenndi Vestmannaeyingum að rækta kartöflur. Seinna voru kartöflur ræktaðar við hvern bæ og brugðust sjaldan. Þá var mikið af kálgörðum í sandinum inn í Botni þar sem nú er Friðarhöfn. Síðar varð mikil garðrækt í Hrauninu fram af Herjólfsdal, svæði sem eftir eldgosið var skipulagt undir ný íbúðarhúsahverfi. Kartöflur voru settar niður 20. maí. Mikil vinna var við garðana og tók öll fjölskyldan þátt í þeim störfum. Börnunum þótti það sérstök skemmtun og tilbreyting þegar farið var í kálgarða í Botninum.