Blik 1967/Gott er með góðu fólki

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 18. júlí 2007 kl. 09:50 eftir Daniel (spjall | framlög) Útgáfa frá 18. júlí 2007 kl. 09:50 eftir Daniel (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Hjónin í Suðurgarði í Vestmannaeyjum, Jón Guðmundsson og Ingibjörg Jónsdóttir

1.

Hafir þú aldrei á lífsleiðinni hitt mann eða konu, sem ljóma af manngæðum, þá hefur þú farið mikils á mis. En sem betur fer, held ég þeir séu sárafáir, sem eru svo fátækir.
Vegna þess er ég líka sannfærður um það, að ekkert sé jafn heillandi eins og að kynnast þvílíku fólki, enda er fátt, sem hefur ljúfari áhrif en viðkynningin við það. Lifandi og langæ merla þau áhrif innan um aðrar ógleymanlegar minningar og gera okkur beinlínis að betri mönnum.
Það er óhjákvæmilegt, að þetta fólk geri okkur annað en gott. Það er engu líkara en það gjörbreyti gjörvöllu andrúmsloftinu kringum sig með góðhug sínum og breytni, svo að allt byrjar að ilma af mildi og öryggi í návist þess. Það veit sjálft bókstaflega ekkert af þessum persónutöfrum og það ætlast heldur ekki til neins af okkur í staðinn.
Það brosir hlýtt við okkur, en e. t. v. ekki með neinu sjáanlegu brosi, og það er heldur ekki bros, sem er á veiðum sér til vinsælda, því að það brosir jafnframt og ekki sízt með sínu innra brosi, - brosi fagurrar sálar, sem lifir sjálfa sig inn til mín, til skilnings á mér og til samfélags við mig. Það eru mildin og manngæðin, sem er lífið í þessu brosi.
Það er vegna þessara guðdómlegu hæfileika, sem þetta fólk skilur og leysir vandræði mín, sem ég hefði e. t. v. aldrei fundið lausn á.
Þessu fólki þarf ekki að segja neitt. Það þarf m. a. sjaldnast að spyrja neins. Með lífsreynslu sinni hefur það öðlazt eitthvert auka skilningarvit, sem sér og skilur stríð okkar og áhyggjur. Og það kemur til okkar að fyrra bragði og óvænt og leysir flækjurnar í einu átaki svo eðlilega og sársaukalaust, að töfrum er líkast, en við verðum endurnýjaðir menn.
En ætlast það þá ekki til neins í staðinn? - Nei, það ætlast ekki til neins. Það skilur auk þess varla, hví við erum að þakka því. Það er nefnilega svo kyrrlátt í andanum, þetta fólk, og yfirlætislaust. Í kyrrð og rósemi vinnur það óhjákvæmilega öll sín störf, en heiðarleikur og trúmennska í smámununum er höfuðprýði þess.
Þannig ber það hita og þunga dagsins, sem hinn trausti og innsti kjarni þjóðarsálarinnar, væntir sér hvorki hróss né útnefningar af neinu tæi og hverfur jafn hljóðlega til feðra sinna eins og það kom inn í þennan heim .En samt hefur það unnið sér ógleymanlegan sigursveig í hugum þeirra, sem voru svo hamingjusamir að fá að kynnast því og njóta manngæðanna, sem það átti í svo ríkum mæli. Og þótt ekki fari háværar sögur af þessu fólki, á það engu síður stórslegna og merkilega sögu, sem kallar á okkur til frásagnar a. m. k. þau brot úr lífi þess, sem orkaði á okkur dýpst. En enginn höfundur er betri en sá, sem geldur með lífi sínu fyrir efni sögu sinnar.

Fjölskylda Jóns og Ingibjargar í Suðurgarði. - Standandi frá vinstri: 1. Guðlaug Bergþórsdóttir, 2. Sigurgeir Jónsson, 3. Margrét Marta Jónsdóttir (Johnsen), 4.Guðrún Jónsdóttir, 5. Jóhann Jónsson, 6. Árný Sigurðardóttir. - Hjónin Jón og Ingibjörg sitja.
2.

Guðmundur hét maður og var Guðmundsson, fimmti maður frá Högna prestaföður, en ekki verður getið ættar hans nánar hér. Bjó hann á Voðmúlastöðum í Austur-Landeyjum. Hann var talinn bóndi góður og ötull verkmaður, en hvorki ríkur né fátækur. Fara meiri sögur af honum sem góðum manni og hjálpsömum, heldur en búhöldi, því að hann vildi hvers manns vanda leysa, þegar til hans var leitað. Hann var tvígiftur og hafði átt tvær systur. Fyrri kona hans hét Guðrún, en hin síðari Margrét, og voru þær báðar Jónsdætur.
Á þeim árum gengu yfir landið banvænir faraldrar, sem einkum lögðust þungt á ungbörn, og verður sú harmasaga ekki rakin hér. En þau barna Guðmundar, sem upp komust, gat hann með Margréti, síðari konu sinni, og voru þau tvö, dóttir, sem Guðrún hét eftir fyrri konu hans, og sonur, sem Jón hét, heitinn eftir móðurafa sínum.
Systkinin ólust upp í foreldrahúsum á Voðmúlastöðum við svipuð kjör og alþýða fólks átti við að búa um þær mundir. En þegar þau voru milli tektar og tvítugs, dó móðir þeirra, og stóð nú Guðmundur uppi í annað skipti ekkjumaður. Tók þá Guðrún við öllum búsýslustörfum hjá föður sínum innan húss, þótt ung væri. Fórst henni það vel úr hendi, enda var hún fljótt hið mesta mannsefni, björt yfirlitum og fríð sýnum.

Guðmundur var svo mikill barnavinur, að til hans var jafnað í þeim efnum og löngu eftir hans dag. Er enn í frásögur fært það, sem Ingibjörg tengdadóttir hans sagði við Jóhann son sinn, þegar hann var að gera brúðkaup sitt: „Á því hefði ég trú, Hanni minn, ef þú eignast einhverntíma son, að bú látir hann heita eftir honum Guðmundi afa þínum. Svo góður var jafnan sá andi, sem hann hafði til barnanna, að ég er sannfærð um, að enn muni blessun og farsæld fylgja nafni hans." En Guðmundur var engu síður vinsæ11 í hópi hinna eldri, því að hann var einn þeirra nærgætnu manna, sem allir vildu fegnir eiga sér til fulltingis, began eitthvað bjátaði á um heilsufar, því að hann reyndist þá oft hinn bezti læknir. Var hann ávallt sóttur, þegar snögg veikindi eða slys báru að höndum. Þá var fátt lærðra lækna og erfitt til þeirra að sækja, enda voru læknishéruðin víðáttumikil, og vegleysur og vatnsmiklar ár hinar mestu torfærur, en „Þarfasti þjónninn" eina farartækið.
Oft þurfti hann að búa um beinbrot. Greri allt svo vel saman úr höndum hans, að ekki þótti þörf að sækja lækni, nema ef illa hafði brotnað. Einhverju sinni hafði hann búið um lærbrot, en leggurinn hafði brotnað ofarlega, og lét Guðmundur senda eftir héraðslækninum. En þegar hann kom, sagðist hann ekki þurfa að hreyfa við umbúðunum. Bætti læknirinn því við, að Guðmundur hefði búið um brot þetta að fyrirmynd franskra lækna. En hann hafi komizt í kynni við þá í Vestmannaeyjum.
Ennfremur tók hann mönnum oft blóð eða sló þeim æð, eins og það var líka kallað. Til þess var notaður svokallaður bíldur og lítið nautgripahorn slólaust og opið upp úr stiklinum. Var hornið sogið fast á hörundið, bar sem eymslin voru. Við þetta hvarf allt loft úr horninu, en til þess að varna því, að loft kæmist inn og hornið losnaði, var blautum líknarbelg brugðið yfir gatið, og límdist hann bar fastur og lokaði fyrir. Blóðkoppar og blóðtaka af þessu tæi þótti gefast mjög vel gegn gigt og margskonar öðrum kvillum, og menn töluðu um, að með þessu losnaði líkaminn við óholla vessa.

Tæki þessi gengu í arf til Jóns Guðmundssonar, og tók hann mörgum blóð eftir það, þótt hann yrði aldrei læknir sem faðir hans hafði verið, en Guðmundur hlýtur að hafa verið læknir af Guðs náð.
Þegar þessi tæki komust í eigu Jóns, var hann kvæntur Ingibjörgu Jónsdóttur bónda Brandssonar. Voru þau hjónin mörgum innan handar í þessum efnum með nærgætni sinni og alúð. Þau hjálpuðust að, Jón sló á æðina með bíldinum, en Ingibjörg sogaði hornið á.
Bíldurinn og hornið voru í eftirlátnum munum Ingibjargar, þegar hún lézt, og eru nú varðveitt í Byggðarsafni Vestmannaeyja, og þar geyma þau sína sögu. Þögult og orðvana er þeirra má1 nú sem áður á hniginni öld. Þau túlkuðu í verki göfugt hjartalag og nákvæmar hendur, sem aldrei kröfðust launa fyrir veitta líkn.