Björn Kalman

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 20. apríl 2007 kl. 16:18 eftir Gauti (spjall | framlög) Útgáfa frá 20. apríl 2007 kl. 16:18 eftir Gauti (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Björn Pálsson Kalman er fæddur 25. júní 1883 á Hallfreðarstöðum í Hróarstungu, N-Múlasýslu, dáinn 12. janúar 1956 í Reykjavík.

Björn var sonur Páls Ólafssonar skálds og alþingismanns. Páll faðir hans var orðinn 56 ára er hann átti Björn, en hann hafði átt fjóra aðra syni, sem höfðu dáið á barnsaldri.

Björn fluttist til Reykjavíkur um aldamótin og stundaði nám við Lærða Skólann sem nú er Menntaskólinn í Reykjavík. Þaðan varð hann stúdent 1904. Á meðan á náminu stóð kenndi Ólafur Rósinkranz íþróttir við skólann, en hann var áhugasamur um knattspyrnu og tókst að vekja áhuga margra ungra drengja á þessari íþrótt. Björn var sérlega áhugasamur og lagði sig fram um að þeir félagar tækju sem allra mestum framförum í leiknum. Hann útvegaði sér eintak af enskum knattspyrnureglum, þýddi þær smám saman á íslensku og las upp úr þeim á æfingum, þannig náðu menn áður en langt um leið valdi á reglunum og gátu leikið löglega.

Áður en hann hélt utan var staddur í Reykjavík Vilhjálmur Stefánsson, landkönnuður og um sama leiti kom Napier, þá skákmeistari Englands í heimsókn til Íslands. Napier tefldi við Björn sem þá var einn sterkasti skákmaður hér á landi og tókst Birni að sigra meistarann.

Vilhjálmur landkönnuður tókst síðar að fá Björn til að setjast í Harward háskóla og halda þar áfram námi. En þeir flutningar áttu aðallega að vera til að styrkja með því skáklið skólans. En það fór á annan veg, því skákmenn skólans voru því mótfallnir að svona ungur og nýkominn nemandi yrði tekinn framyfir hina eldri.

Björn sigldi síðan til Danmerkur til frekari náms og nam málfræði við Hafnarháskóla 1904-05, en hóf síðan nám í rafmagnsfræði við Harvard haustið 1905 en fluttist til Íslands að nýju 1908 og stundaði laganám við Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan cand. juris 1912.

Er Björn var í vesturheimi tefldi hann mikið við landa sinn, Magnús Smith og stóð honum nokkuð jafnfætis, en það jafngilti því að vera einn af sterkustu skákmönnum í Kanada, því Magnús hafði orðið Kanadameistari í öll þau skipti sem hann tefldi á meistaramótunum þar árin 1899, 1903 og 1906. Á þessum tíma átti Björn oft erfitt með svefn og gekk illa að útiloka sig frá því að hugsa um skák.

Þegar Björn var í Winnepeg 1906 fór hann með kunningja sínum að fylgjast með fjöltefli Frank Marshall, sem var bandarískur skákmeistari. Einn skákmaður mætti ekki til leiks og þar sem vitað var að Björn gat teflt var hann dreginn að auðu borðinu. Eftir nokkra leiki virtist Marshall forviða og kvartar yfir því að menn hefðu átt að aðvara hann gagnvart þessum manni og sagði að hann hefði átt að vera á fyrsta borði. Marshall tapaði þessari einu skák og vildi tefla aftur við Björn, en hann neitaði að tefla og reyndar aldrei framar, a.m.k. í Winnepeg. Skák sú er hann tefldi við Marshall virðist vera sú eina sem hann tefldi vestanhafs, sem varðveist hefur. Hún birtist í Lasker Chess Magasine.

Árið 1907 kom heimsmeistarinn í skák, Dr. Emanuel Lasker til Kanada og birtist m.a. frétt í Heimskringlu í júní 1907 um komu hans til bæjarins. Lasker hafði svo mikið álit á Magnúsi Smith að hann fékk hann til að gerast taflfélaga sinn og bauð honum ritstjórastarf við eitt af skáktímaritum sínum og þekktist Magnús boð heimsmeistarans og fór til New York.

Björn tók sér ættarnafnið Kalman á þessum tíma og gerðist meðritstjóri við Lögberg í 1 og hálft ár en fer svo að nýju til Íslands. Hann hætti svo alveg að tefla skák þar sem þær lögðust þungt á hann og hann gat ekki hætt að hugsa um skákirnar. Hann gerðist lögfræðingur og starfaði sem slíkur í Reykjavík um árabil. Bjó um tíma á Seyðisfirði.

Björn flutti til Vestmannaeyja 1930 og vann þar við ýmis störf og var félagi í Taflfélagi Vestmannaeyja og tefldi eitthvað, m.a. í sveitakeppni. Hann fluttist að nýju til Reykjavíkur 1940 þar sem hann átti heima síðan.

Sú tilgáta hefur oft verið nefnd að Björn hafi verið fyrirmyndin af Dr. B. í hinni þekktu sögu Stephans Sweig, Manntafl.



Heimildir