Andri Valur Hrólfsson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Andri Valur Hrólfsson fæddist á Seyðisfirði 29. mars 1943. Foreldrar hans voru Hrólfur Ingólfsson, f. 20. des. 1917 á Seyðisfirði, d. 31. maí 1984, skrifstofumaður og síðar bæjarstjóri og Ólöf Andrésdóttir, húsmóðir, f. 1. des. 1920 frá Stóru-Breiðavíkur hjáleigu við Eskifjörð, d. 23. maí 1959 í Vestmannaeyjum. Fjölskyldan flutti til Eyja 1946 þegar Andri var 3ja ára er faðir hans tók við starfi bæjargjaldkera. Andri gekk í Barnaskólann og Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja og lauk gagnfræðaprófi 1960. Fór þá beint á vinnumarkað og starfaði hjá Ísfélagi Vestmannaeyja, skattstofu Vestmannaeyja og síðar sem forstöðumaður Flugfélags Íslands í Eyjum fram yfir eldgosið 1973. Flutti nokkru síðar til Reykjavíkur ásamt fjölskyldu sinni og varð yfirmaður innanlandsflugs Flugfélags Íslands og síðar einn af yfirmönnum hjá Flugleiðum og Icelandair. Tók síðar við yfirmannsstarfi hjá Visa-Island og vann þar fram á eftirlaunaaldur. Eftir að Andri lét af störfum hefur hann átt sæti í stjórnum fyrirtækja, þar sem víðtæk þekking hans og reynsla hefur nýst mjög vel.

Andri hóf að tefla í Taflfélagi Vestmannaeyja 1958 á Breiðabliki og varð fljótlega mjög virkur. Andri átti sæti í stjórn félagsins um árabil og 1972 var hann kjörinn formaður TV og gegndi því til 1974. Þrátt fyrir flutning frá Eyjum nokkrum árum eftir gos hefur Andri ávallt verið virkur í starfi TV og teflt fyrir félagið á Íslandsmótum skákfélaga, nú síðast 2023. Þá átti hann sæti í stjórn Skáksambands Íslands og gegndi embætti varaforseta SÍ um árabil. Þá var Andri aðalfararstjóri íslenska landsliðsins á Ólympíuskákmótunum í Moskvu 1994 og í Jerevan, höfuðborg Armeníu 1996. Andri átti æti í undirbúningsnefnd vegna 90 ára afmælis TV árið 2016.

Andri er tvíkvæntur, fyrri eiginkona hans var Sunna Karlsdóttir, húsmóðir og fulltrúi (f. 12. sept. 1945, d. 26. apríl 2011) og eignuðust þau tvö börn, Ívar f. 6. apríl 1962 og Ólaf Darra f. 1. des. 1963. Seinni eiginkona Andra er Hallfríður Ingimundardóttir kennari, f. 28. júlí 1951.