Skansinn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 8. ágúst 2012 kl. 10:48 eftir Daniel (spjall | framlög) Útgáfa frá 8. ágúst 2012 kl. 10:48 eftir Daniel (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Hraunið stoppar á Hringskersgarði
Hringskersgarður
Nausthamarsbryggja í fjarska, Hörgeyrargarður og Hringskersgarður
Miðhús og Skansinn

Kornhólsskans, betur þekkt sem Skansinn, hefur í aldaraðir verið fjölsóttur og vinsæll meðal Vestmannaeyinga, hvort sem er á sumri eða vetri. Útsýnið og fegurðin hafa löngum verið einstæð, en á veturna var oft hrikalegt að horfa af Skansinum út á vetrarsjóinn. Fólk fór oft út á Skansinn þegar bátar voru talstöðvarlausir og aðstandendur biðu milli vonar og ótta eftir að sjá bátskel föður eða eiginmanns birtast fyrir Klettsnefið og lensa heilu og höldnu inn Víkina.

Sjóveitutankurinn var byggður árið 1931 til að sjá fiskvinnslufyrirtækjum fyrir hreinu vatni til vinnslu.

Uppruni nafns

Orðið skans er komið úr dönsku og þýðir virki, en nafnið Kornhólsskans kemur til af því að hann stóð nálægt Kornhóli þar sem var mylla. Hóllinn er einnig þekktur sem Mylluhóll í sumum heimildum. Til hafa verið hús sem bera þessi þrjú nöfn, en öll fóru þau undir hraun.

Sögulegur staður

Skansinn í Vestmannaeyjum var upprunalega byggður, 1586, til að verja dönsku konungsverslunina ágangi enskra útgerðar- og kaupmanna. Danakonungur sendi flotaforingja sinn, með tilheyrandi byrðir, til að reisa Skansinn. Sjósókn Englendinga minnkaði á 17. öld en Vestmannaeyingar þurftu enn á vörnum að halda vegna sjóræningja. Eftir Tyrkjaránið 1627 voru gerðar miklar endurbætur á honum og dönskum herþjálfa falið að hafa umsjón með landvörnum þaðan. Herfylking Vestmannaeyja var stofnsett um miðja 19. öld og fóru heræfingar fram á Skansinum. Í síðari heimsstyrjöldinni var Skansinn bækistöð breska herliðsins í Eyjum.

Skansinn reistur

Skansinn, líkan af Skansinum 1844

Skansinn er það mannvirki í Vestmannaeyjum sem á sér einna lengsta sögu. Vísir að þessu merkilega varnarvirki var upphaflega reistur, árið 1586. Dönum þótti nauðsynlegt að verja konungsverslunina ágangi enskra útgerðar- og kaupmanna, sem oft á tíðum virtu hvorki veiðitakmarkanir né verslunarbann. Danakonungur sendi því hingað einn flotaforingja hersins, Hans Holst, með tæki, mannafla og skotfæri til að reisa Skansinn. Eyjamenn voru skyldaðir í vinnu eftir konungsboði, launalaust, en fengu frítt fæði meðan á vinnunni stóð. Fjórir menn neituðu samt staðfastlega að vinna og voru þeim dæmdar sektir.

Virkið var líklega úr grjóti eða tré og staðsett á sömu slóðum og núverandi Skansinn. Um 1600 hafði ásókn Englendinga minnkað og var því virkinu ekki haldið við. Á þessum tímum var þó fleira sem þurfti að hafa áhyggjur af: Sjóræningjar herjuðu um allt Atlantshafið og þörf var á allri vörn sem unnt var að útvega. Nokkru eftir aldamótin var hafist handa við að endurreisa virkið. Framkvæmdirnar voru enn á frumstigi árið 1627 þegar Tyrkjaránið átti sér stað og kom í ljós að Vestmannaeyingar þurftu nauðsynlega á vörnum að halda. Stjórnvöld hröðuðu verkinu og voru gerðar miklar endurbætur á Skansinum nokkrum árum eftir árásina.

Varnir á Skansinum eftir Tyrkjaránið

Danskur herþjálfari var fenginn til að hafa umsjón með landvörnum frá Skansinum eftir Tyrkjaránið. Starf hans fól í sér að skipuleggja vökur á Helgafelli og að hafa gát á skipum. Hann átti einnig að stofna og þjálfa upp herlið heimamanna. Æfingar voru haldnar einu sinni í viku og voru allir byssu færir menn skyldaðir til þátttöku. Árið 1639 tók Jón Ólafsson Indíafari við stöðu byssuskyttu við Skansinn og eftirmaður hans og síðasta byssuskytta Skansins var Gunnar Ólafsson.

Herfylking Vestmannaeyja

Sjá aðalgrein: Herfylkingin

Hringskersgarður

Herfylking Vestmannaeyja var stofnuð um miðja 19. öld af sýslumanninum Andreas August von Kohl sem var kapteinn í danska hernum. Kapteinninn, sem var mikill áhugamaður um herþjálfun, skipulagði her, bæði fullvaxinna karla og drengja, og var mikill metnaður lagður í æfingar og vígbúnað. Starfsemi herfylkingarinnar miðaðist aðallega að því að auka öryggistilfinningu þeirra Eyjamanna sem óttuðust árásir sjóræningja eftir Tyrkjaránið. Fallbyssurnar sem notaðar höfðu verið síðan 1586 voru teknar aftur fram og heræfingar hófust. Eftir andlát hins áhugasama kapteins flosnaði fljótlega upp úr herfylkingunni þrátt fyrir tilraunir eftirmanna. Vígbúnaður var aftur lagður niður 1870-1880 en Skansinn var lengi aðalflagg- og merkjastöð sjómannanna og þaðan fylgst með ferðum skipa.

Fallbyssuvirki í seinni Heimstyrjöldinni

Í seinni heimsstyrjöldinni var bækistöð breskra setuliðsmanna og fallbyssuvirki á Skansinum.

Landlyst

Sjá aðalgrein:Landlyst

Húsið Landlyst er með elstu húsum í Eyjum, það hefur nú verið endurbyggt og komið fyrir á Skanssvæðinu. Landlyst var byggt árið 1847 og var fyrsta fæðingarheimili á Íslandi byggt við það árið 1849.

Stafkirkjan

Stafkirkjan á Skansinum

Sjá aðalgrein:Stafkirkjan

Í tilefni af 1000 ára afmæli kristni á Íslandi gaf norska þjóðin Íslendingum stafkirkju og var henni valinn staður á Heimaey. Sagt er í Kristnisögu að Hjalti Skeggjason og Gissur hvíti hafi komið með efnivið í kirkju til Eyja og byggt hér kirkju.

Hringskersgarður

Hafist var handa við vinnu við garðinn árið 1914 og lauk henni ekki fyrr en um 1930, en vegna ágangs sjávar þurfti garðurinn mikið viðhald. Viti hefur staðið á garðinum frá því um 1920.

Eldgos

Ástand Skansins eftir eldgosið.

Ásýnd Skansins breyttist allverulega árið 1973 eftir gaus á Heimaey. Í gosinu bættust rúmir tveir ferkílómetrar af hrauni við eyjuna og því ekki unnt að njóta sama útsýnis og áður. Hringskersgarðurinn var úti í miðjum sjó fyrir gos en er nú staðsettur inni í innsiglingunni. Með hraunkælingunni var komist hjá því að að hraunið færi yfir garðinn og hefði það valdið enn meiri skaða ef hraunið færi yfir garðinn. En hraunið staðnæmdist við garðinn og myndaði það svæði sem nú kallast Skansinn.

Myndasafn


Heimildir