Byggðasafn Vestmannaeyja
Byggðasafn Vestmannaeyja var stofnað árið 1932. Frumkvöðull að stofnun safnsins og driffjöður í áratugi var Þorsteinn Þ.Víglundsson, en hann sá hættuna á því að menningarverðmæti myndu fara forgörðum ef ekki yrði hafist handa við söfnun þeirra. Fyrstu árin var munum komið fyrir í geymslu á heimili hans, en síðar fékk safnið inni á háalofti nýbyggingar Gagnfræðaskólans, og árið 1964 var safnið opnað almenningi á 3. hæð Sparisjóðsins. 1978 opnaði safnið á ný eftir gos í Safnahúsinu.
Byggðasafn á eldstöðvum
23. janúar 1973 hófst eldgos á Heimaey. Þann 27. janúar lagði sex manna hópur undir stjórn Þorsteins Þ. Víglundssonar af stað til Eyja frá Þorlákshöfn með Gullbergi Ve til þess að koma munum úr Byggðasafninu í örugga geymslu á fastalandinu. Í hópnum voru m.a. synir Þorsteins og fleiri skyldmenni. Unnið var sleitulaust að því að búa muni Byggðasafnsins undir flutninginn dagana 28. og 29. janúar. Mununum var komið fyrir í fjórum gámum og voru þeir fluttir með Dettifossi til Reykjavíkur.
Í Reykjavík tók á móti þeim Þór Magnússon þjóðminjavörður, sem ásamt sínu fólki kom mununum fyrir í geymslum Þjóðminjasafnsins. Alls tók þessi ferð tæpa fjóra sólarhringa.
Heimildir
- Nanna Þóra Áskelsdóttir. Byggðasafnið. Sótt þann 22. júní 2005 af: http://alsey.eyjar.is/safnahus/byggdasafn/saga.htm