Fréttir

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 13. júlí 2012 kl. 13:13 eftir Daniel (spjall | framlög) Útgáfa frá 13. júlí 2012 kl. 13:13 eftir Daniel (spjall | framlög) (Ný síða: thumb|200px|Forsíða Frétta 12. júlí 2012. Vikublaðið '''Fréttir''' er héraðsfréttablað Vestmannaeyja. Það kom fyrst út 28. júní 1974. Aðdraganda...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Forsíða Frétta 12. júlí 2012.

Vikublaðið Fréttir er héraðsfréttablað Vestmannaeyja. Það kom fyrst út 28. júní 1974.

Aðdragandann að stofnun Frétta má rekja til löngunar Guðlaugs Sigurðssonar, sem þá var prentari í Prentsmiðjunni Eyrúnu, að setja á stofn eigin prentsmiðju. Blaðaútgáfa var þá ekki í deiglunni. Á þessum tíma gáfu þeir Arnar Sigurmundsson, Andri Hrólfsson og Sigurður Jónsson út Útsvarsskrá Vestmannaeyja. Hvöttu þeir Guðlaug mjög til að setja á stofn prentsmiðju og myndi Útsvarsskráin verða prentuð hjá honum. Það varð svo úr árið 1972 að þeir fjórir stofnuðu hlutafélagið Eyjaprent hf. og hófu strax að undirbúa kaup á tækjum til rekstursins. Leið svo nokkur tími þar til von var á tækjunum. Það var svo að kvöldi mánudagsins 22. janúar 1973 að gamli Herjólfur lagði af stað frá Reykjavík til Eyja, og innanborðs var prentvél í nýja fyrirtækið. En Herjólfur skilaði prentvélinni ekki á land í Eyjum í þetta sinn, því um nóttina hófst eldgos á Heimaey og prentsmiðjurekstur því ekki tímabær um sinn. Gosið tók hug manna allan og allt sem því fylgdi. En öll gos hætta um síðir og svo varð einnig um Heimaeyjargosið. Þegar fólk tók að flytjast aftur til Vestmannaeyja að gosi loknu, tóku aðstandendur Eyjaprents að huga að prentsmiðjurekstrinum að nýju. Tækin voru nú fengin til Eyja og húsnæði Alþýðubandalagsins að Bárustíg 9 tekið á leigu undir reksturinn. Og í október 1973 hófst svo starfsemi Eyjaprents. Mikið var að gera í fyrirtækinu og þar var meðal annars prentað blaðið Dagskrá. En þar kom að Prentsmiðjan Eyrún var endurreist í Eyjum, en hún hafði farið undir hraun í gosinu. Þar hafði Dagskráin verið prentuð fyrir gos og nú ákvað eigandi hennar að flytja prentunina þangað að nýju. Í Eyjaprenti var hinsvegar til mikill pappírsforði sem ætlaður var í Dagskrá, auk þess sem missir þessa verkefnis var töluverður fyrir prentsmiðjuna. Það varð því úr að Eyjaprent ákvað að stofna eigið héraðsfréttablað sem fékk nafnið Fréttir. Mun Sigurður Jónsson, einn hluthafanna hafa átt hugmyndina að nafninu. Fyrsta blaðið leit dagsins ljós 28. júní árið 1974. Ritstjóri var Guðlaugur Sigurðsson. Blaðið var 4 síður að stærð og fékk strax ágætar viðtökur. Því var dreift ókeypis í allar verslanir bæjarins en auglýsingar báru uppi kostnað við útgáfuna. Fréttir voru oft djarfar í málflutningi sínum og sögðu hlutina tæpitungulaust. Umfjöllun blaðsins um slæma meðferð á vörum til Eyja með Ríkisskipum, urðu m.a. til þess að hafnarverkamenn í Reykjavík neituðu að ferma Herjólf, fyrr en blaðið bæði þá afsökunar. Það gerði ritstjórinn og Herjólfur tók að sigla á ný.

Smám saman batnaði tækjakostur prentsmiðjunnar og að sama skapi óx blaðinu ásmegin. Bæði tóku prentgæði miklum framförum og meiri metnaður var lagður í blaðið. Árið 1984 var blaðið stækkað í 8 12 síður eftir atvikum. og rauður varð einkennislitur Fréttir. Tímamót verða í rekstrinum árið 1992. Fram að því hafði blaðinu verið dreift ókeypis en um mitt ár 1992 var farið að selja blaðið í áskrift og einnig í lausasölu í nokkrum verslunum. Var þetta gert vegna erfiðrar afkomu blaðsins árin þar á undan. Auglýsingatekjur þess einar og sér, dugðu ekki lengur fyrir rekstrarkostnaðinum. Um leið var útliti þess breytt verulega, brot þess minnkað dálítið og litvæðing aukin. Einnig var lagt upp með efnismeira blað. Þessi breyting fékk strax góðar viðtökur og kaupendur blaðsins urðu fljótlega flestir íbúar Eyjanna auk nokkur hundruða, sem búsettir eru á meginlandinu. Þetta varð til þess að reksturinn tók að standa undir sér og hefur gert flest árin síðan.

Fréttir halda einnig uppi fréttavef sem heitir eyjafrettir.is. Þar koma fréttir frá Vestmannaeyjum jafn óðum og þær gerast.

Starfsfólk Frétta hefur einnig fleira á sinni könnu, en það sér um almenn fréttaskrif og íþróttafréttir frá Eyjum fyrir Morgunblaðið.

Ritstjóri Frétta er Ómar Garðarsson.


Heimildir