Hannes Jónsson (lóðs)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 10. júlí 2012 kl. 11:52 eftir Daniel (spjall | framlög) Útgáfa frá 10. júlí 2012 kl. 11:52 eftir Daniel (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Hannes lóðs.

Hannes Jónsson fæddist 21. nóvember 1852 í Nýja-Kastala í Eyjum. Faðir Hannesar drukknaði þegar Hannes var nokkurra mánaða gamall og ólst hann því upp hjá móður sinni og hóf eigin búskap þegar hann var 26 ára gamall, sama ár og hann kvæntist eiginkonu sinni, Margréti Brynjólfsdóttur frá Norðurgarði. Brynjólfur faðir hennar var lengi formaður á áttæringnum „Áróru“. Margrét var góð húsfreyja og eignuðust þau hjónin fjögur börn. Eitt af þeim, Jórunn, lifði langt fram á 20. öldina og var gift Magnúsi Guðmundssyni á Vesturhúsum.

Sjómennska

Hannes hóf sjómennsku kornungur, einungis 11 ára gamall, á bátnum Gideon. Hann tók við formennsku 17 ára gamall og reri samtals í 43 ár á Gideon. Hann var talinn góður sjómaður, aflasæll og heppinn. Þrátt fyrir að hafa oft lent í hrakningum og vondum veðrum þá kom hann alltaf fleyinu ásamt áhöfn heilu og höldnu í höfn.

Lóðs

Hannes var hafnsögumaður við Vestmannaeyjahöfn í heil 50 ár. Það starf lánaðist honum mjög vel. Sem merki um það átti hann fullt traust erlendra skipstjóra sem hingað sigldu, hrósuðu þeir honum fyrir dugnað og hagsýni.

Afrek

Þegar Hannes var unglingur lenti hann í miklum háska úti í Bjarnarey. Var hann þá við lundaveiðar og hrapaði um 15 faðma þar til hann stöðvaðist við að veiðinet festust á steinnibbu í berginu og annar fóturinn festist í þeim. Hann náði að komast upp á eyna án allrar hjálpar. Aldrei varð hann þó samur eftir þetta og var hann ætíð skjálfhentur, sem má rekja til taugaofreynslu við þetta afrek.

Hannes var sæmdur heiðursmerki fálkaorðunnar fyrir sjómennskuferilinn, hafnsögumannsstarfið og annað. Á áttræðisafmæli sínu, árið 1932, var hann gerður að heiðursborgara Vestmannaeyja og var þar með fyrsti heiðursborgari Vestmannaeyja.

Hér birtist ljóð sem birt var þegar dótturbörn Hannesar gáfu Skipstjóra- og stýrimannafélaginu Verðandi verðlaunagrip sem var farandgripur fyrir Aflakónga Vestmannaeyja ár hvert:

Hannes Jónsson hafnsögumaður
Hann ungur horfði á hafið,
því hugurinn bjó þar.
Sá blika bárutrafið,
er blátt og hvítt það var.
Og bylgjur sá hann brotna
og boðaföll um sund,
sá hörku hafsins drottna,
og hermenn kröftum þrotna.
Það vakti víkings lund.
Með öflugum æskuþrótti
hann út í stríðið fór.
Og glaður geyst fram sótti
sem garpur hugumstór.
Og aldinn jafnt sem ungur,
í öllu starfi trúr,
hann fór um klettaklungur,
og kleif á hæstu bungur,
hvort skin var eða skúr.
Það fylgdu fæstir honum,
hann framdi hreystimet,
var einn af Eyjasonum,
sem aldrei bugast lét.
Er fram hann hrinti fleyi,
til fanga djúpið á,
hann stýrði dag frá degi,
því dirfsku brast hann eigi
að sigla úfinn sjá.
Hann beggja skauta byrinn
og barning þekkti vel.
Hann reyndi stormastyrinn
og stóðst hin dimmu él.
En nú er hetjan hnigin,
sem harðast lék við dröfn.
Hann varði drengskapsvígin
og var til elli tiginn
við stýrið heim í höfn.
Hallfreður

Myndir



Heimildir